fbpx
Fimmtudagur 25.apríl 2024
Fréttir

Morðið í Sandgerði – Búið var að breiða yfir líkið á stofusófanum

Ágúst Borgþór Sverrisson
Þriðjudaginn 19. janúar 2021 21:57

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Ragnar Sigurður Jónsson, 55 ára gamall Sandgerðingur, var þann 13. janúar dæmdur í 14 ára fangelsi fyrir að hafa orðið eiginkonu sinni að bana. Dómurinn var fyrst birtur á vef dómstólanna í dag. Í fyrstu var talið að eiginkona Ragnars hefði orðið bráðkvödd en atvikið átti sér stað þann 28. mars árið 2020. Daginn eftir birti Ragnar Facebookfærslu þar sem hann harmaði dauða konunnar og sagði hana hafa orðið bráðkvadda á heimili sínu. „Ást og friður frá okkur öllum. Ekki gleyma að halda utanum ykkar nánustu og njótið saman,“ skrifaði Ragnar þar fyrir hönd fjölskyldunnar. Sjá nánar á vef Mannlífs.

Dómurinn var kveðinn upp fyrir Héraðsdómi Reykjaness en í dómnum segir að þegar lögregla kom á vettvang hafi lík konunnar verið í sófa í stofunni og var búið að breiða teppi yfir það. Segir í skýrslu lögreglu að konan hafi verið köld viðkomu, hörund hennar fölt og hún hafi ekki sýnt nein lífsmörk. Í skýrslunni segir að ekkert á vettvangi hafi bent til þess að andlát konunnar hafi borið að með saknæmum hætti.

Niðurstaða réttarkrufningar sem barst þann 2. apríl bar hins vegar annað með sér, þar kom fram að áverkar voru á líkinu, meðal annars marblettir og skrámur á hálsi og blæðingar í vöðvum. Bentu niðurstöðurnar til þess að dauðsfallið hefði verið afleiðing taks annars manns um hálsinn.

Í skýrslu eftir nákvæmari rannsókn kom fram að flest benti til að dánarorsök hefði verið þrýstingur um hálsinn og krufning og smársjárskoðun hafi engar sjúkdómsbreytingar sýnt sem gætu skýrt dauðsfallið með öðrum hætti.

Dómkvaddur réttarmeinafræðingur lagði mat á þessar niðurstöður og var hans niðurstaða að áverkar á líkinu væru afleiðing svonefnds „bitlauss ofbeldis“ (e. brute force). Meiðli á hálsinum samræmdust því að konan hefði verið beitt slíku ofbeldi, með öðrum orðum kyrkt.

Sagði að þau hefðu setið að sumbli

Ragnar neitaði sök og lýsti atvikum kvöldsins þannig að hann og kona hans hefðu setið við drykkju og sjónvarpsáhorf. Hann sagðist ekki minnast þess að hafa tekið um háls konunnar en sagði að hún hefði verið hás og hóstað töluvert dagana á undan. Hefði hann lagt að henni að fara til læknis en hún ekki viljað það.

Hann sagðist ekki muna hve lengi þau hefðu setið að drykkju en hann hefði farið í „blackout“. Sagði Ragnar að það henti hann öðruhvoru þegar hann drykki. Mundi hann síðast eftir sér sitjandi í sófanum að horfa á sjónvarpið.

Hann sagðist hafa rumskað um morguninn en farið á fætur síðdegis næsta dag. Hann hefði kallað á konuna án þess að fá svar og komið að henni látinni í sófa í stofunni. Hún hefði verið köld viðkomu og hann engan hjartslátt fundið á henni er hann lagði fingur á háls hennar.

Ragnar hringdi ekki fyrst í Neyðarlínuna heldur í dóttur sína sem kom á vettvang á undan lögreglu. Fyrir dómi segist hann hafa verið viss um að konan væri látin og því ákveðið að hringja í börnin sín á undan Neyðarlínunni. Hann breiddi síðan teppi yfir konu síðan áður en þau komu.

Lögreglu þótti Ragnar haga sér einkennilega

Meðal vitna fyrir dómnum voru lögreglumenn sem komu á vettvang. Einn þeirra sagði að Ragnar hefði hagað sér dálítið einkennilega og það hefði lýst sér í því að alltaf þegar lögreglumaðurinn ætlaði að skoða líkið hafi Ragnar nálgast hratt, svona eins og hann „vildi ekki að við værum að skoða hana mikið“. Þessi viðbrögð hefðu verið svolítið skrýtin.

Þá sagðist lögreglumaðurinn ekki hafa séð nein merki um áfengisneyslu í húsinu og ekki getað merkt að Ragnar væri undir áhrifum áfengi. Þá þótti lögreglumanninum einkennilegt að Ragnar hefði ekki strax hringt í Neyðarlínuna eða lögreglu er hann áttaði sig á ástandi konu sinnar um morguninn, en hann beið með það í 2-3 klukkustundir að eigin sögn.

Samskipti hjónanna sögð góð

Dóttir Ragnars bar vitni fyrir dómi. Hún sagði að samskipti foreldra henna hefðu ávallt verið góð og þau verið mjög samrýmd. Ekkert ofbeldi hefði verið í sambandinu. Þó hefði ástandið á heimilinu verið slæmt í nokkur ár vegna drykkju hjónanna. Þau hefðu bruggað eigið vín og þegar þau drukku þá drukku þau mikið, að hennar sögn, og tóku stundum túra.

Dóttirin hitti móður sína tveimur dögum fyrir lát hennar og sagði að hún hefði þá verið mjög hress og þær spjallað saman. Sagðist hún ekkert hafa séð athugavert í fari móður sinnar.

„Við þurfum ekkert að vita af hverju hún lést“

Rannsóknarlögreglumaður sem kallaður var út vegna málsins óskaði eftir heimild til réttarkrufningar og bar hann fyrir rétti að Ragnar hefði fyrst svarað þeirri beiðni með orðunum „Við þurfum ekkert að vita af hverju hún lést“. Eitt barna Ragnars hefði þá gengið á hann og spurt hvort hann vildi virkilega ekki vita ástæðuna fyrir því hvers vegna konan hans og móðir þeirra dó. Ragnar hafi þá heimilað krufninguna.

Krufning leiddi í ljós að konan hafði neytt áfengis og einnig lyfja. En þáttur kverkataksins var talinn meginorsakavaldur láts hennar samkvæmt matsmönnum. Slíkar réttarmeinafræðilegar niðurstöður voru helsti grundvöllur þess að Ragnar var fundinn sekur um að hafa banað eiginkonu sinni.

Ragnar hefur ekki hlotið refsidóm áður. Segir í dómnum að þótt mikil áfengisneysla hans kunni að hafa átt þátt í verknaði hans hafi það ekki áhrif á ákvörðun refsingar fyrir brotið. Þykir hæfileg refsing, með hliðsjón af dómaframkvæmd, vera 14 ára fangelsi.

Hann var jafnframt dæmdur til að greiða allan málskostnað sem er vel á fjórðu milljón króna.

 

 

Lokað er fyrir athugasemdir
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Móðirin í Kópavogi ákærð fyrir að reyna að drepa eldri soninn líka

Móðirin í Kópavogi ákærð fyrir að reyna að drepa eldri soninn líka
Fréttir
Í gær

Björn Leví: Þess vegna telja Píratar að ekki sé hægt að vinna með Sjálfstæðisflokknum

Björn Leví: Þess vegna telja Píratar að ekki sé hægt að vinna með Sjálfstæðisflokknum
Fréttir
Fyrir 2 dögum

dk hugbúnaður flytur í nýjar höfuðstöðvar og kynnir nýtt vörumerki

dk hugbúnaður flytur í nýjar höfuðstöðvar og kynnir nýtt vörumerki
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Ljósmyndaði nakinn mann í búningsklefa – Braut gróflega gegn kynferðislegri friðhelgi

Ljósmyndaði nakinn mann í búningsklefa – Braut gróflega gegn kynferðislegri friðhelgi