fbpx
Þriðjudagur 20.október 2020
Fréttir

Ók á konu og hund hennar á Hörgárbraut – Greiðir tvær milljónir í bætur

Heimir Hannesson
Þriðjudaginn 29. september 2020 17:08

mynd/skjáskot af RUV

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Héraðsdómur Norðurlands eystra hefur dæmt mann sem ók á Jóhönnu Ásmundsdóttur og hund hennar með þeim afleiðingum að hundurinn lést samstundis og konan fótbrotnaði til þess að greiða henni tvær milljónir í bætur.

Það var í skammdeginu 15. nóvember árið 2017, sem konan ákvað að viðra sig og hund hennar með göngutúr. Er konan gekk, með hundinn í ól, yfir göngubraut á Hörgárbraut, skammt norðan við Glerárbrú, ók maðurinn á konuna með fyrrgreindum afleiðingum. Ökumaðurinn var með 11 ára gamlan son sinn í bílnum og þeir feðgarnir á leið í sund. Þá kom jafnframt fram í dómnum að konan hafi verið dökkklædd, án endurskínsmerkja með hálkubrodda á leið yfir göngubraut sem ekki var stýrð með umferðarljósum.

Tryggingafélag ökumannsins, Vörður, greiddi henni skaðabætur vegna tjóns hennar, skv. umferðarlögum, en neitaði að félagið bæri að greiða miskabætur. Þá neitun reisti tryggingafélagið á þeim rökum að ekki hafi verið um gáleysi að ræða. Í kjölfar slyssins hafði reyndar maðurinn verið ákærður fyrir að valda konunni líkamsmeiðingum með gáleysi. Snéri gáleysið af aksturslagi mannsins, en hann ók á að minnsta kosti 63 kílómetra hraða á klukkustund á götu hvers hámarkshraði var 50. Ökumaðurinn játaði sök í því máli.

Ólík upplifun konu og manns

Konan sagði fyrir dómi að hún hafi séð bílinn nálgast, en talið sig hafa haft nægan tíma til þess að komast yfir. Þegar hún var hálfnuð yfir akgreinarnar tvær sá hún að svo var ekki. Sagði í dómnum:

Þegar hún hafi verið kominn um það bil að línu sem aðgreinir akreinar hafi hún séð að bifreiðin var komin of nálægt og að hennar mati sýnt að ökumaður hefði ekki tekið eftir henni. Hún kvaðst þá hafi tekið undir sig stökk eða tekið tvö stór skref og þannig farið fram fyrir hundinn sem ekki hafi brugðist við. Þessi tilraun nægði ekki og hún og hundurinn urðu fyrir bifreiðinni.

Í viðtali við RUV í febrúar þessa árs sagði Jóhanna sambærilega sögu:

Þetta eru fjórar akreinar og ég var með hundinn minn og við göngum hérna yfir, ég er komin yfir þrjár akreinar og á fjórðu akrein þá átta ég mig á að bíll er að koma á fullri ferð og hægir ekki á sér. Ég náði að stökkva svona síðasta partinn þannig að hann tók bara fótinn á mér og ég kastaðist með bílnum en hundurinn hann flaug alveg niður að brú niðurfrá. Fjörutíu kílóa hundur og dó samstundis.“

Upplifun ökumannsins, að því er fram kemur í dómnum, er sú að hann hafi ekki séð konuna og hund hennar fyrr en of seint. Segir í dómnum:

Hann hafi allt í einu séð „tvær svartar þústir“ á gangbrautinni og hafi þá strax brugðist við með því að bremsa og beygja um leið til vinstri, en hafi samt ekið á stefnanda og hundinn.

Alvarlegir áverkar og afleiðingar

Hundurinn lenti á framgrilli bílsins og kastaðist hann 21 metra burt frá bílnum. Hann dó, sem fyrr sagði, samstundis. Konan lenti á framhorni bílsins og kastaðist meðfram hlið hans svo að hliðarspegill bílsins brotnaði af bílnum áður en hún kastaðist ríflega fimm metra út af akbrautinni. Við áreksturinn losnaði skór og hálkubroddi af fæti konunnar og höfnuðu þessir hlutir mun lengra í burtu frá veginum, að því er fram kemur í dómnum.

Konan slasaðist töluvert við áreksturinn. Fótbrot hennar krafðist þess að mergnagli væri festur með þverskrúfum sitthvorum megin við brotið. Konan dvaldi fimm daga á sjúkrahúsi og þó brotið hafi gróið án fylgikvilla segist konan enn finna fyrir afleiðingum þess. Hún geti ekki stundað íþróttir líkt og hún gerði og jafnvægisskyn hennar væri ekki eins og fyrir áreksturinn. Varanleg örorka konunnar er metin 10%.

Bílslysið á þessum tilteknu gatnamótum var hvorki það fyrsta né það síðasta. Til dæmis var þar árið 2016 ekið á mann og árið 2018 ekið á fimm ára dreng og sjö ára stúlku í sitthvoru slysinu. Akureyrarbær hefur nú sett upp umferðarljós á gatnamótunum.

Tekist á um stig gáleysis

Tekist var á um það fyrir dómi hvort umrætt slys teldist einfalt eða stórfellt gáleysi. Samkvæmt skaðabótalögum er það gert að skilyrði fyrir greiðslu miskabóta að stórfellt gáleysi hafi verið sýnt. Dómurinn taldi, sem fyrr sagði, að um stórfellt gáleysi væri að ræða. Byggði hann niðurstöðu sína á að maðurinn hafi ekið yfir hámarkshraða og ekki hagað akstri sínum miðað við aðstæður sem voru uppi er slysið varð.

Þannig hafi maðurinn orðið valdur að stórfelldum líkamsmeiðingum konunnar og bakað sér skaða- og miskabótaskyldu.

Maðurinn, og tryggingafélag hans Vörður, voru því dæmd til þess að greiða konunni 2.000.000 til viðbótar við það sem tryggingafélagið hafði þegar samþykkt að greiða. Til viðbótar skal maðurinn og tryggingafélag hans greiða málskostnað vegna málsins, rúma milljón.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 22 klukkutímum

Nýtt björgunarskip Ísfirðinga skipti sköpum er bátur varð vélarvana í Ísafjarðardjúpi

Nýtt björgunarskip Ísfirðinga skipti sköpum er bátur varð vélarvana í Ísafjarðardjúpi
Fréttir
Fyrir 23 klukkutímum

64 greiningar í gær, þar af 22 í flugi frá Póllandi – Nýgengi smita lækkar í fyrsta sinn í „þriðju bylgju“

64 greiningar í gær, þar af 22 í flugi frá Póllandi – Nýgengi smita lækkar í fyrsta sinn í „þriðju bylgju“