fbpx
Miðvikudagur 27.maí 2020
Fréttir

Föst í óttafangelsi

Auður Ösp
Sunnudaginn 29. mars 2020 15:17

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Til að vera eins hreinskilinn og ég get þá hefur þessi COVID-faraldur gjörsamlega snúið öllu á hvolf hjá mér,“ segir 32 ára íslenskur karlmaður sem greindur er með heilsukvíða.

Á tímum COVID-19 faraldursins forðast Íslendingar snertingu í lengstu lög og sprittbrúsar, hlífðarhanskar og andlitsgrímur eru staðalbúnaður. Kórónuveiran ægilega heldur öllum í heljargreipum. En fyrir suma er þessi hræðsla ekki ný af nálinni. Heilsukvíði hrjáir um fimm prósent fólks og tvö til þrjú prósent fólks eru haldin áráttu- og þráhyggjuröskun, sem í mörgum tilfellum felur í sér gífurlegan ótta við sýkla.

Hvernig leggst COVID-19 faraldurinn á þá sem eru alla jafna helteknir af áleitnum hugsunum, ótta og kvíða sem snýr að heilsunni?

Fer varla út úr húsi

„Ég er mun stressaðri en vanalega og ekki bara um að ég smitist af þessu heldur er ég líka mjög hræddur við að smita aðra. Ég vinn með öldruðu fötluðu fólki sem má alls ekki smitast og ég er skíthræddur við að til dæmis snerta vitlausan stað í matvörubúð og að sótthreinsandi sprittið virki ekki, sem verði til þess að ég komi í vinnuna og smiti einhvern sem gæti þá ekki lifað veikindin af. Svona hlutir halda mér gjörsamlega í gíslingu þessa dagana. Ég veit alveg að þetta er órökrétt. Ég fer hanskaklæddur í búðina, passa hvað ég snerti og sótthreinsa meira að segja hanskana áður en ég fer aftur úr þeim en engu að síður er tilfinningin eins og að ganga á línu yfir virkt eldfjall,“ segir maðurinn sem rætt var við í byrjun, en hann kýs að koma ekki fram undir nafni.

„Ég á erfitt með að vera innan um fólk sem er veikt án þess að ég finni strax fyrir sömu einkennum. Þetta hefur oft orðið til þess ég verð mikið „veikur“ án þess að vera í raun veikur. Þá nær hausinn minn samt að framkalla einkennin og í ofanálag verð ég mjög kvíðinn yfir því að ég skuli vera veikur og á sama tíma að þetta sé bara ímyndun. Sem er virkilega íþyngjandi og óþægilegt ástand. Heilsukvíði hefur ekki áhrif á mig dagsdaglega, en á tímum eins og þessum þá eru áhrifin frekar mikil.“

Hann segist hafa náð góðum bata á tímabili en eftir að COVID-19 komst í hámæli fór hann að finna aftur fyrir kvíðaköstum.

„Þetta er orðið það slæmt, að síðan þetta byrjaði hef ég varla farið út úr húsi nema þegar ég virkilega þarf þess. Í fyrsta lagi þá varð þetta til þess að ég fór að finna aftur fyrir þessari gífurlegu vanlíðan sem fylgir kvíðaköstum. Ætli besta leiðin til að útskýra þetta sé ekki að manni líður eins og allur líkaminn titri og sé tíu sinnum þyngri, en á sama tíma ertu í viðvarandi „ótta“-ástandi en getur hvergi flúið. Sem er hreinlega ömurlegt.“

Hann telur að fordómar gagnvart kvíða séu frekar áberandi í samfélaginu.

„Fólk sem þekkir þetta ekki af eigin reynslu er alltaf mjög fljótt að kalla kvíða aumingjaskap eða jafnvel leti. Þetta er að mínu mati er algerlega sprottið upp úr fáfræði. Einhvern tímann heyrði ég nú frá geðlækni að alvarlegustu geðsjúkdómarnir væru þunglyndi og kvíði þar sem þeir hafa mestu áhrifin á samfélagið. Ef ég brýt á mér ökklann og get ekki gengið vegna þess, þá kallar enginn mig aumingja en ef einstaklingur er heltekinn af kvíða, heilsukvíða eða öðrum birtingarmyndum og getur hreinlega ekki „funkerað“ í aðstæðum vegna einkenna, þá er oftar en ekki annað hljóð í fólki. Þetta veldur því að margir hreinlega tala ekki um kvíðann sinn og leita sér þess vegna aldrei hjálpar og ástandið versnar og versnar. Þetta verður vítahringur sem ég get vottað að virkilega erfitt er að komast út úr. Að hlaða fordómum og skömm ofan á einstakling út af veikindum er út í hött og hvaða rökhugsandi manneskja sem er ætti að geta skilið það.“

Heldur niðri í sér andanum nálægt fólki

 „Núna er ástandið þannig að allir í kringum mann eru hræddir við að smitast af þessum sjúkdómi. Þessi hræðsla er eitthvað sem ég hef upplifað nánast daglega í mörg ár. Ég er vön þessari tilfinningu,“ segir Þuríður Elín Sig­urðardótt­ir, leikkona og uppistandari, eða Ebba Sig eins og hún kall­ar sig. Hún var greind með ofsakvíða og heilsukvíða sem unglingur.

Ebba rifjar upp þegar hún var sannfærð um að hún væri að fá hjartaáfall, þó að hún hafi aldrei verið hjartveik eða greind með hjartagalla.

„Þá hafði ég heyrt af einhverjum manni sem fékk hjartasjúkdóm mjög ungur og ég var bara sannfærð um að ég væri með undirliggjandi hjartasjúkdóm. Ég fékk í alvöru einkenni hjartaáfalls: verk fyrir brjóstið og doða í hendina. Ég fór í hjartalínurit hjá heimilislækni en auðvitað fannst ekkert að. Heilinn er bara svo sniðugur í að blekkja mann. Um daginn fékk ég millirifjagift og var sannfærð að ég væri með samfallið lunga. Ég hringdi í panikki í mömmu sem fullvissaði mig um að ég gæti nú varla verið að halda uppi samræðum við hana ef lungun í mér væru búin að falla saman!

Ebba Sig.

Það er auðvitað ömurlegt að búa stöðugt við þann ótta að eitthvað sé að manni. Rosalega oft, bara ef ég sé eitthvað í sjónvarpinu til dæmis, þá sannfæri ég sjálfa mig um að ég sé með hinn eða þennan sjúkdóm. Ef fólk segir mér frá einhverjum sem það þekkir, sem er með einhvern ákveðinn sjúkdóm, þá hugsa ég strax: Ég gæti örugglega verið með þetta. Þetta hefur auðvitað hamlandi áhrif á mann að mörgu leyti. Ég er rosalega hrædd við marga hluti.“

Á tímabili var Ebba stöðugt á netinu að lesa sér til um hina og þessa sjúkdóma. „Ég byrjaði síðan í hugrænni atferlismeðferð og sálfræðingurinn hreinlega bannaði mér að vera alltaf að gúgla sjúkdóma.“

Auk hugrænu atferlismeðferðarinnar tekur Ebba inn kvíðalyf og hittir reglulega geðlækni. Þannig heldur hún sjúkdómnum niðri. „En í raun losna ég aldrei við þennan stöðuga ótta.“ Hún segir sína nánustu skilja líðan hennar. Fólk sem þekkir hana lítið á stundum til að gera lítið úr sjúkdómnum; líta á það sem óþarfa „paranoju“ eða jafnvel athyglissýki.

„Ég hef auðvitað lent í því að það sé hlegið að mér og kannski sagt við mig: „Þú heldur alltaf að það sé allt að þér!“ Það er nú ekki eins og ég sé að gera þetta gamni mínu. Þetta er í alvörunni hræðsla sem heltekur mann alveg. Þetta er ofboðslega sterk hræðslutilfinning. Hugsanirnar fara á versta stað.“

Hún tekur undir með því að ástandið þessa dagana, hræðsla fólks við að smitast af COVID-19, muni hugsanlega auðvelda fólki að setja sig í spor þeirra sem alla daga eru helteknir af hræðslu.

„Þessi stöðugi ótti sem ég er alltaf með er vissulega búinn að aukast, ég spritta mig og þvæ hendur „non stop.“ Mér finnst erfitt að fara út og ég held niðri í mér andanum þegar einhver er nálægt mér. Ég er samt með meiri áhyggjur af fólkinu í kringum mig sem er í áhættuhópi.“

Meira en bara fullkomnunarárátta

„Fyrir mig, hefur COVID-19 ekki ýtt mikið undir mín einkenni, þar sem ég er gagngert að reyna á hverjum einasta degi að koma í veg fyrir það og að nýta mér þau tól sem ég hef unnið með síðan í æsku. Aftur á móti get ég ímyndað mér að fólk með þennan kvilla á mjög erfitt í dag, og það fær minn andlega stuðning á þessum erfiðu tímum. Þetta er mikil vinna fyrir okkur, en við og samfélagið komumst í gegnum þetta,“ segir 25 ára íslenskur karlmaður sem greindur er með áráttu- og þráhyggjuröskun sem birtist meðal annars í hræðslu við sýkla.

Hann segir röskunina hjá sér einkennast af þrálátum og handahófskenndum  hugsunum. Á yngri árum var hann ítrekað að þvo sér um hendurnar, en það hefur þó minnkað.

„Mitt OCD er mjög huglægt, það er að segja, ég hef að mestu losnað við líkamlegu hlið OCD í gegnum árin. Þetta lýsir sér að mestu í miklum ofhugsunum og endurtekningum í hugsunarferlinu. OCD er í raun þrálátar hugsanir sem herja á einstakling, og í flestum tilfellum finnur viðkomandi einhverja athöfn eða ávana sem hjálpar til við að bæla hugsanirnar niður, en bara tímabundið, þess vegna er þetta reglulegt og áberandi. Til dæmis kanna aftur og aftur hvort dyrnar séu læstar eða ótti við að skaða aðra, eða særa án þess að vilja það, sem dæmi.“

Hann segist ekki verða mikið var við fordóma í samfélaginu gagnvart OCD.

„Aftur á móti mætti vera meira um upplýsingagjöf gagnvart okkar kvilla. Margir telja OCD vera fullkomnunaráráttu og svona persónuleikaeinkenni sem einkennir mann. En þetta er raunverulegur, andlegur sjúkdómur sem herjar á marga, og setur jafnvel miklar hömlur á líf þessara einstaklinga, eins og það gerði fyrir mig, og gerir í raun enn, en í minna mæli. En ég tel samt upplýsingaflæðið varðandi þennan kvilla hafa skánað í gegnum tíðina, það má svo sannarlega hrósa fyrir það.“

Kvíðinn kemur og fer

 „Mér finnst fólk vera farið að skilja kvíða og andleg veikindi mikið betur. En mér hefur reynst erfitt að opna mig um minn kvíða fyrir vinnuveitendum. Það er vissulega heftandi að vera með kvíða en ég er og hef alltaf verið dugleg að ögra kvíðanum mínum og leyfa honum ekki að hafa yfirhöndina – svo hann hefur ekki haft mikil áhrif á mig í vinnu,“ segir Katrín Helga Daðadóttir sem greind er með heilsukvíða. Hún segir ástandið í þjóðfélaginu og umræðuna um COVID-19 vissulega erfiða. Heilsukvíði hennar snýr ekki beinlínis að henni sjálfri heldur að hennar nánustu.

Katrín Helga

„Þetta hefur mikil áhrif á kvíðann, en ég er þó í góðu jafnvægi eins og er, eftir djúpa niðursveiflu fyrr í vetur. En þetta hefur vissulega áhrif á það að batinn upp á við eftir niðursveifluna er fremur hægur, en þó á uppleið. Ég er ekki í áhættuhópi sjálf en kærastinn minn er það, systir mín og foreldrar – svo ég hræðist mjög að þau smitist. Það tekur svona mest á.“

Katrín segir að versti tíminn sé  á kvöldin. Einkennin eru þungur hjartsláttur, grunn öndun, svimi, skjálfti og ógleði eða lystarleysi.

„Á tímabili var það á hverju kvöldi en mér tekst að halda kvíðanum niðri með HAM eða þá með því að „rökræða kvíðann burt.“ Eftir svefnlausar nætur getur auðvitað verið erfitt að taka þátt í deginum á eftir, sérstaklega þegar maður verður extra þreyttur eftir svona kvíðaköst.“

Katrín vill koma því á framfæri við aðra sem þjást af kvíða að kvíðinn kemur og fer. „Hann líður hjá – svo ef að þú þekkir einhvern eða veist um einhvern sem er að kljást við kvíða – gefðu viðkomandi tíma og svigrúm til þess að ná aftur jafnvægi og svo gæti verið gott að bjóða fram aðstoð eða hugmyndir að því sem hægt er að gera til að ná aftur jafnvægi.“

 Föst í óttafangelsi

„Þessi óvissa sem við erum öll að upplifa þessa dagana hefur auðvitað talsverð áhrif á þá sem eru haldnir kvíða. Sérstaklega fyrir þá sem hafa ekki fengið greiningu og meðferð og hafa ekki tól í höndunum til að takast á við þetta,“ segir dr. Ólafía Sigurjónsdóttir sálfræðingur og teymisstjóri OCD teymis Kvíðameðferðarstöðvarinnar og stjórnarmeðlimur OCD samtakanna. Hún hefur starfað mikið með einstaklingum sem haldnir eru áráttu og þráhyggjuröskun (OCD.)

Ólafía Sigurjónsdóttir

Hún tekur fram að áráttu- og þráhyggjuröskun geti í raun snúist um hvað sem er, og sé ekki eingöngu bundin við sýkla, smit og óhreinindi þrátt fyrir að það sé algengt „þema.“

Hún bendir á flestallir hafi áhyggjur af heilsunni öðru hvoru en þessháttar áhyggjur þurfi ekki endilega að vera einkenni þráhyggju-árátturöskunar. „Þeir sem eru með þráhyggju-árátturöskun festast í hugsunum sínum. Fólk fær óþægilegar og uppáþrengjandi hugsanir og finnst það knúið til að framkvæma áráttuhegðun eins og til dæmis að þvo sér eða sækja í hughreystingu frá öðrum. Það er mismunandi hversu alvarlegur vandinn er en í mörgum tilvikum getur þetta tekið mikinn tíma frá fólki, nokkrar klukkustundir á dag jafnvel allan daginn. Þetta getur haft virkilega hamlandi áhrif og hindrað fólk í að sinna daglegu lífi.

Á þessum tímum þá gefst okkur ákveðið tækifæri til að skilja betur þá sem eru að glíma við þennan vanda. Þetta gefur okkur smá innsýn. Við fáum nasaþefinn af því að vera í þessu óttafangelsi. Það að upplifa eins og heimurinn sé fullur af hættum, ef við fylgjum ekki þessum ákveðnu reglum sé voðinn vís.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

Fréttir
Í gær

Svanur ver Samherjabörnin – „Hættum að líta til sjávarútvegsins með öfundaraugum“

Svanur ver Samherjabörnin – „Hættum að líta til sjávarútvegsins með öfundaraugum“
Fréttir
Í gær

Sigmundur Ernir með nýja ferðaþætti: Ég brosi bara hringinn

Sigmundur Ernir með nýja ferðaþætti: Ég brosi bara hringinn
Fréttir
Í gær

Sögulegur fundur Almannavarna – Alsvart í beinni útsendingu

Sögulegur fundur Almannavarna – Alsvart í beinni útsendingu
Fréttir
Í gær

Steindi Jr. er andlit Reykjavíkurmaraþonsins í ár

Steindi Jr. er andlit Reykjavíkurmaraþonsins í ár
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Í þrjár vikur fékk fólk færri hjartaáföll

Í þrjár vikur fékk fólk færri hjartaáföll
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Matur og drykkur hækka mest í verði

Matur og drykkur hækka mest í verði