fbpx
Föstudagur 26.apríl 2024
Fréttir

Ívar Örn er 100% öryrki eftir harkalega handtöku – Fær engar bætur og handtakan aldrei rannsökuð

Heimir Hannesson
Fimmtudaginn 19. nóvember 2020 18:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Ívar Örn Ívarsson er 100% öryrki eftir samskipti sín við lögreglu fyrir 10 árum. 10 ára sögu málsins sem hófst með handtöku Ívars í maí árið 2010 lauk í dag með dómi Hæstaréttar. Ívar Örn fær engar bætur frá ríkinu.

Ellefti maí árið 2010 var örlagaríkur dagur í lífi Ívars Arnars Ívarssonar. Í manísku ástandi hafði Ívar kastað hluta innbúsins síns fram af svölum íbúðar sinnar á þriðju hæð í fjölbýlishúsi. Nágranni hans á fyrstu hæð sem vaknaði með búslóð Ívars á pallinum sínum hringdi á lögreglu. Eftir samtal við nágrannann tók Ívar á rás um hverfið í Kópavoginum og endaði á dyrunum hjá Ármanni Ármannssyni. Hafði DV eftir Ármanni á sínum tíma: „Einn vormorgun sit ég heima hjá mér, fæ mér kaffi og dáist að útsýninu, þegar ég sé skyndilega að það er maður að nudda og maka út rúðuna hjá mér. Mér bregður því hann er nakinn og mér sýnist hann vera særður. Ég hleyp út í dyragættina og kalla á hann. Þá átta ég mig á því að hann er allur útataður í geli. Maðurinn er greinilega í miklu andlegu uppnámi og hræddur um að einhver sé á eftir sér. Mér tekst að róa hann niður og býð honum að fara í sturtu á meðan ég helli upp á kaffi.“

Sjá nánar: Fór í hjartastopp eftir handtöku

Örlagarík handtaka

Skömmu síðar birtist lögregla sem rakið hafði slóð Ívars heim til Ármanns og barði þar á dyr. Lögregla ruddist inn til Ármanns, í leyfisleysi að sögn Ármanns, og óð inn á baðherbergi hans. Talsverð átök brutust út á baðherbergi Ívars sem enduðu svo að Ívar lá á gólfinu, handjárnaður, og tveir lögreglumenn ofan á honum. Ívar virtist Ármanni þá meðvitundarlaus.

Í handtökuskýrslu lögreglu segir: „Um leið og við gripum í hendur hans slóst hann mjög mikið við okkur. Færðum við manninn í lögreglutök og náðum loks að setja hann í handjárn. Þá lögðum við hann á gólfið. Þá sparkaði maðurinn í allar áttir og því urðum við að bennsla fætur […].“ Er þá rakið í skýrslunni að Ívar hafi, við átökin, krampað og hætt að anda. Ívar var lífgaður við af sjúkraliðum sem komu síðar á staðinn en ekki liggur fyrir hvenær nákvæmlega lögregla kallaði eftir sjúkrabíl. Að sögn Ármanns nágranna í viðtalinu við DV árið 2013 liðu um 20 mínútur, og í dómi héraðsdóms sem vikið verður nánar að síðar segir að „eftir um 20-25 mínútur greindist púls á stefnanda.“ Af gögnum málsins sem DV hefur undir höndum má ráða að Ívar hafi verið í hjartastoppi í að minnsta kosti 20 mínútur.

Ívar var fluttur á Landspítalann þar sem hann var í öndunarvél á gjörgæsludeild í heila viku. Á spítalanum dvaldi hann í mánuð og í kjölfarið tók við endurhæfing á Grensásdeild. Við komu á landspítalann var þvag úr Ívari sent í lyfjaleit, að því er segir í áðurnefndum dómi héraðsdóms, og reyndist það neikvætt fyrir öllum fíkniefnum sem leitað var að.

Ívar er eftir handtökuna 100% öryrki og er sjón hans verulega skert. Í viðtalinu við DV árið 2013 sagðist Ívar „sjá allt í rauðum og bláum böndum.“ Þá er hann hreyfiskertur og þurfti um tíma að notast við hjólastól.

Dómar þvert á mat lækna

Ívar höfðaði mál gegn ríkinu árið 2015 þar sem hann krafðist bóta vegna aðgerða lögreglu og féll dómur loks í lok árs 2017. Fyrir dómi kvað læknir sem annast hafði Ívar á gjörgæsludeild hjartastopp Ívars „sennilega afleiðingu,“ handtökunnar. Sagði hann slíkt ekki óþekkt og vitað að „starfsemi“ einstaklinga í annarlegu ástandi „færi á fullt“ sem gæti valdið miklu álagi á hjartað. Ástand líkama Ívars, þar á meðal hátt gildi vöðvaensíma, og fall Ívars er lögreglumenn reyndu að lyfta honum væru gætu einnig hafa átt sinn þátt í hjartastoppinu.

Aðrir matsmenn voru þessu áliti ósammála og sögðu „sturlunar- eða geðrofsástandi“ Ívars líklegast um að kenna. Í niðurstöðukafla dómsins segir: „Þar sem stefnandi málsins hafi komið sér sjálfur í það ástand sem leiddi til þeirra afleiðinga sem urðu ber hann sjálfur ábyrgð á því sem gerðist.“ Ívar tapaði málinu.

Þess má geta að fyrir dóm var einnig lagt fram mat geðlæknis sem sagði að Ívar hafi við handtökuna verið haldinn geðrofi við handtökuna og viðbrögð hans því að öllu leyti ósjálfráð. „Þá taldi læknirinn að stefnandi hefði ekki gert sér neina grein fyrir gerðum sínum og afleiðingum þeirra,“ segir jafnframt í dómnum.

Í lok árs 2018 ómerkti Hæstiréttur dóm héraðsdóms og sendi málið aftur til héraðsdóms til efnislegrar meðferðar á ný. Byggði Hæstiréttur ákvörðun sína á því að héraðsdómur hafi ekkert fjallað um orsakatengsl líkamstjóns Ívars og athafna lögreglu.

Málið var aftur rekið fyrir héraðsdómi og svo fyrir Landsrétti sem þá var nýstofnaður. Ívar tapaði aftur þar og áfrýjaði. Því máli tapaði Ívar í dag.

Í nýföllnum dómi Hæstaréttar segir: „Þegar af þeirri ástæðu að ekki eru sönnuð orsakatengsl á milli aðferða lögreglu við handtöku á stefnanda og þeirra atvika sem gerðust á sama tíma og leiddu til stórfellds tjóns fyrir stefnanda verður stefndi sýknaður af kröfum stefnanda.“

Handtakan aldrei rannsökuð

Í tengslum við málaferli Ívars gegn ríkinu hefur Steingrímur Þormóðsson, lögmaður Ívars, ítrekað reynt að fá aðgang að gögnum er varða ýmis atriði en ekki haft erindi sem erfiði. Til dæmis sendi Steingrímur ósk um gögn er varða rannsókn lögreglu á handtökunni, en í lögum um meðferð sakamála segir að lögregla skal rannsaka þegar slys verða á fólki í haldi lögreglu. Ekki er að sjá á neinum gögnum að það hafi verið rannsakað. Í hið minnsta er fjölmörgum óskum lögmannsins um gögn frá lögreglu ósvarað. Hefur hann meira að segja brugðið á það ráð að kvarta undan tómlæti lögreglunnar til dómsmálaráðherra sem og Eftirlitsnefndar með störfum lögreglu, en án árangurs.

Í síðustu efnislegri meðferð Eftirlitsnefndar með störfum lögreglu var niðurstaða nefndarinnar að senda póst á almenna afgreiðslugátt Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, lrh@lrh.is, þar sem lögreglunni var sagt að svara erindinu. Tilmælin kallar Steingrímur „máttlaus,“ í seinni bréfum sínum.

Þá liggur fyrir í gögnum málsins að sakamálarannsókn sem hafin var vegna ætlaðra brota Ívars var látin niður falla, en ekkert liggur fyrir um hvenær sú ákvörðun var tekin og hversu lengi Ívar bar stöðu sakbornings. Stangast þetta á við allar skrifaðar og óskrifaðar reglur um samskipti lögreglu við sakborninga í sakamálum og aðila að málum í meðferð lögreglu.

Dóm Hæstaréttar má finna hér.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Spáir ekki dropa úr lofti í Reykjavík fyrr en í maí – Sumarið lítur sérstaklega vel út

Spáir ekki dropa úr lofti í Reykjavík fyrr en í maí – Sumarið lítur sérstaklega vel út
Fréttir
Í gær

Stofna góðgerðarfélag til minningar um Þuríði Örnu – Blásið til tónleikaveislu 1. maí

Stofna góðgerðarfélag til minningar um Þuríði Örnu – Blásið til tónleikaveislu 1. maí
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Manndrápsmálið á Suðurlandi – Hinn látni sagður hafa hringt í kærustu sína skömmu fyrir andlátið og sagst hafa fallið úr stiga

Manndrápsmálið á Suðurlandi – Hinn látni sagður hafa hringt í kærustu sína skömmu fyrir andlátið og sagst hafa fallið úr stiga
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Snorri furðar sig á Byggðastofnun – Sagður gera lítið úr þeim sem ekki tala íslensku

Snorri furðar sig á Byggðastofnun – Sagður gera lítið úr þeim sem ekki tala íslensku
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Íbúar brjálaðir út í Hafnarfjarðarbæ: „Þetta er til háborinnar skammar og engin lausn“

Íbúar brjálaðir út í Hafnarfjarðarbæ: „Þetta er til háborinnar skammar og engin lausn“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Réðst á dreng sem ætlaði að gera dyraat

Réðst á dreng sem ætlaði að gera dyraat