fbpx
Fimmtudagur 25.apríl 2024
Fréttir

Ásmundur hvetur fólk í klóm smálána til að leita til sín – „Þetta er algjört ógeð“

Ágúst Borgþór Sverrisson
Sunnudaginn 5. júlí 2020 15:53

Ásmundur Friðriksson.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Ég er fyrst og fremst núna að einbeita mér í máli þessa einstaklings en ég hvet þá sem eiga um sárt að binda vegna þessara mála að hafa samband við mig. Ég vil athuga hvað við getum gert fyrir þetta fólk,“ segir Ásmundur Friðriksson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, en hann hefur undanfarið verið að liðsinna ungum manni og fjölskyldu hans eftir að maðurinn lenti í klóm smálána.

Ásmundur bendir á að meðal þeirra sem láta glepjast af smálánum sé oft fólk sem ekki hafi þroska, dómgreind og skilning til að átta sig á hvað felist í þeim. „Þetta eru oft okkar minnstu bræður og systur. Ég þekki raunar dæmi um par sem fékk lán hátt í milljón hjá banka þar sem annað þeirra var greiðandi en hitt ábyrgðarmaður. Hvorugt hafði þroska til að leggja mat á viðskiptin en lánið var veitt og svo fór það sína hefðbundnu innheimtuleið.“

Maðurinn sem Ásmundur er að liðsinna hefur ekki þroska til að meta afleiðingar lántöku. Hann tók 200.000 krónur í 11 lánum, þ.e. 20.000 krónur í hvert sinn. Í dag, sex mánuðum síðar, stendur skuldin í 615 þúsund krónum.

„Hann missti sig í jólamánuðinum, langaði að kaupa jólagjafir handa mömmu sinni, bróður sínum og frændsystkinum. Svo hefur hann undirgengist að þessi fyrirtæki hafi aðgang að launareikningnum hans! Nokkuð sem mér fyndist að ætti ekki að vera hægt. Þetta er flottur strákur sem vinnur með sínum sjúkdómi en þessi lán eru orðin að fjalli sem hann ræður ekki við,“ segir Ásmundur og bendir á að fólk sem býr við eðlilegar aðstæður og skilyrði sæki ekki í smálán.

„Þetta lendir oft í höndunum á aðstandendum. Mamma og pabbi sem hafa kannski aldrei skuldað neitt, þau fá þetta í hausinn. Þetta er oft fólk sem af litlum efnum er að berjast við að leysa þessi mál. Markaðssetningin er á börn og unglinga og aðra aðila sem eru veikir fyrir, þetta er í símanum og kemur eftir tíu mínútur, þetta er svo hættulega aðgengilegt.“

„Ég er að kalla eftir því að fólk hafi samband við mig. Ég veit dæmi um að fólk taki okurlán til að borga okurlán. Þetta vindur upp á sig. Þetta er algjört ógeð. Fólk situr fast í klónum á þessum aðilum.“

Vilhjálmur: „Ekki hátt ris á þessari lögfræði“

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ráðherra atvinnuvega og nýsköpunar, hefur beitt sér gegn smálánastarfsemi og í lok síðasta árs voru samþykkt lög sem gera óheimilt að innheimta gjöld og kostnað af lánum umfram lögbundið hámark. Ennfremur fela lögin í sér að ef lánveitandinn er erlendur þá gildi íslensk lög um lánaskilamála, þ.e. vexti og lántökukostnað.

Þessi góða viðleitni virðist ekki hafa dugað til að kveða niður vandann. Ásmundur hefur leitað til Vilhjálms Bjarnasonar, viðskiptafræðings og fyrrverandi alþingismanns, um liðsinni í þeirri viðleitni sinni að aðstoða smálánaþega í vanda. Málið er þó allt á byrjunarstigi og Vilhjálmur segist ekki vera farinn að beita sér í því. Hann hefur hins vegar sterkar skoðanir á smálánastarfsemi og er ómyrkur í máli um hana.

Vilhjálmur segist ekki hafa á hreinu hvort smálánafyrirtækin séu að brjóta nýju neytendalánalögin og leggja á hærri vexti en leyfilegir eru. Hins vegar eru aðrar lagagreinar honum hugstæðari, en bæði í samningalögum og hegningarlögum eru ákvæði varðandi það að nýta sér neyð og bágindi annarra. Í 253. gr. hegningarlaga segir:

„Hafi maður notað sér bágindi annars manns, einfeldni hans, fákunnáttu eða það, að hann var honum háður, til þess að afla sér með löggerningi hagsmuna eða áskilja sér þá, þannig að bersýnilegur munur sé á hagsmunum þessum og endurgjaldi því, sem fyrir þá koma eða skyldi koma, eða hagsmunir þessir skyldu veittir án endurgjalds, þá varðar það … 1) fangelsi allt að 2 árum.“

Í 31. gr. samningalaga segir:

„[Hafi nokkur maður notað sér bágindi annars manns, einfeldni hans, fákunnáttu eða léttúð eða það, að hann var honum háður, til þess að afla sér hagsmuna eða áskilja sér þá þannig að bersýnilegur mismunur sé á hagsmunum þessum og endurgjaldi því er fyrir þá kom eða skyldi koma, eða hagsmunir þessir skyldu veittir án endurgjalds, skal gerningur sá, er þannig er til kominn, ógildur gagnvart þeim aðila er á var hallað með honum. Sama gildir þótt annar maður en sá, sem gerningurinn var gerður við, eigi sök á misferli því sem getið er í 1. málsl. þessarar greinar, enda sé þeim, er haginn átti að hafa af gerningnum, það kunnugt eða megi vera það kunnugt.] 1“

 

„Ég hef í mörg ár velt fyrir mér ógildingarákvæðum samningalaga og ákvæðum hegningarlaga um að notfæra sér neyð og bágindi. Á þetta hefur aldrei reynt fyrir dómstólum hvað varðar smálánin því mér vitanlega hafa smálánafyrirtækin aldrei sótt á skuldara sína, og hef ég þó reynt að fylgjast vel með hvort slík mál rati fyrir héraðsdóm. Kannski hefur aldrei reynt á þetta vegna þess að aðstandendur hafa hlaupið undir bagga með þessu fólki í þeirri ímyndun að þeir séu að bjarga því. En það er alls ekki verið að bjarga fólki með því að borga smálánafyrirtækjum sem notfæra sér neyð og bágindi fólks,“ segir Vilhjálmur.

Varðandi það hvort smálánafyrirtækin séu að brjóta nýju neytendalögin segir Vilhjálmur að það þurfi tvo aðila í slík afbrot. „Það þarf lántakann líka. Og það þarf stuðningsmann lántakans til að borga þetta. Þess vegna vísa ég í þessi ákvæði í samninga- og hegningarlögunum sem mér vitanlega hefur ekki reynt á.“

Vilhjálmur segir að ef fólk vilji endilega létta undir með aðstandendum sínum í þessum aðstæðum þá eigi það ekki að borga meira en höfuðstól lánsins: „Ekki borga meira en bara nákvæmlega þá upphæð sem var tekin að láni. Það er það eina sem smálánafyrirtækin geta varið.“

Hann segir að lántakendur séu ýmist fólk í fíkniefnaneyslu eða fólk sem ekki hafi þroska til að meta afleiðingar lántöku. „Fólk dregur í lengstu lög að láta svipta sína nánustu fjárræði, vilja hafa sína nánustu ábyrga fyrir sínum fjármálum. En það réttlætir ekki ofbeldi af hálfu huldufyrirtækja úti í bæ og einhverra aumingja sem stunda slíka innheimtu. Menn sem eru löglærðir en stunda bara innheimtu – það er ekki hátt ris á þessari lögfræði.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Móðirin í Kópavogi ákærð fyrir að reyna að drepa eldri soninn líka

Móðirin í Kópavogi ákærð fyrir að reyna að drepa eldri soninn líka
Fréttir
Í gær

Björn Leví: Þess vegna telja Píratar að ekki sé hægt að vinna með Sjálfstæðisflokknum

Björn Leví: Þess vegna telja Píratar að ekki sé hægt að vinna með Sjálfstæðisflokknum
Fréttir
Fyrir 2 dögum

dk hugbúnaður flytur í nýjar höfuðstöðvar og kynnir nýtt vörumerki

dk hugbúnaður flytur í nýjar höfuðstöðvar og kynnir nýtt vörumerki
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Ljósmyndaði nakinn mann í búningsklefa – Braut gróflega gegn kynferðislegri friðhelgi

Ljósmyndaði nakinn mann í búningsklefa – Braut gróflega gegn kynferðislegri friðhelgi