fbpx
Föstudagur 26.apríl 2024
Fréttir

Sviðsetti eigin dauða: Eiginkonan dæmd í 20 ára fangelsi – „Ég svaf við hlið óvinarins“

Ritstjórn Pressunnar
Fimmtudaginn 12. september 2019 22:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Þegar Maria Sosa sá myndina af eiginmanni sínum, Roman, þar sem hann lá ofan í grunnri gröf með skotsár á höfði, hló hún. Roman og Maria kynntust árið 2007 og gengu í hjónaband árið 2010. Þau voru ástfangin upp fyrir haus til að byrja með enda höfðu þau sömu áhugamál.

Maria var einkaþjálfari en sjálfur var Roman boxkennari. Eftir að þau gengu í hjónaband tóku þau ákvörðun sem átti eftir að draga dilk á eftir sér; þau opnuðu eigin líkamsræktarstöð í Houston í Texas, reksturinn gekk illa og árið 2015 voru þau komin í veruleg fjárhagsvandræði. Til að gera langa sögu stutta átti ótrúleg atburðarás eftir að fara af stað þar sem Roman sviðsetti eigin dauða og Maria hlaut tuttugu ára fangelsisdóm.

Símtal sem hann gleymir aldrei

Áður hefur verið fjallað um málið í fjölmiðlum, meðal annars hér á landi, en Roman opnaði sig um atburðarrásina í viðtali við breska fjölmiðla á dögunum.

Í viðtalinu kemur fram að hjónaband þeirra hafi staðið á brauðfótum vegna fjárhagsvandræðanna sem mátti rekja til líkamsræktarstöðvarinnar. Sjálfur segist Roman hafa vonað að þau myndu leysa vandann en Maria var á annarri skoðun og vildi skilnað. Þó þau væru skilin að borði og sæng bjuggu þau enn saman, enda hafði hvorugt þeirra efni á að fara út á leigumarkaðinn – hvað þá kaupa fasteign.

Það var um þetta leyti sem Roman fékk símtal sem hann gleymir líkast til aldrei. Fyrrverandi skjólstæðingur hans í boxinu, maður að nafni Gustavo sem hann hafði þjálfað, hafði samband og lét hann vita að Maria hefði leitað til hans með það í huga að ráða leigumorðingja til að drepa Roman. Hafði hún boðið honum 1.500 dollara til að ganga í verkið.

Svaf við hlið óvinarins

Það sem Maria áttaði sig ekki á – og það sem bjargaði hugsanlega lífi Romans – var að hann þekkti Gustavo og voru þeir raunar ágætis kunningjar. „Þetta var strákur sem hafði verið í vandræðum á sínum yngri árum en hafði snúið við blaðinu,“ sagði Roman í viðtali við The Sun. Hann lýsir svo hvað þeim fór á milli í símtalinu örlagaríka.

„Hann sagðist þurfa að hitta mig því að einhver vildi drepa mig. Ég hélt að hann væri að grínast,“ segir hann. Þeir félagar sammæltust svo um Gustavo myndi hafa upptökutæki á sér svo örugglega væri hægt að sanna að Maria vildi drepa hann. Roman viðurkennir að honum hafi verið verulega brugðið og hann hafi í raun verið bálreiður út í konuna sem hann elskaði og átti barn með – eðlilega kannski. Hann hafi þó ákveðið að bíða átekta og lét ekki bera á neinu þegar hann hitti Mariu næst.

„Ég svaf við hlið óvinarins og með annað augað opið. Ég reyndi að vera eins eðlilegur og ég gæti og vonaðist til að hún myndi halda áfram með áætlun sína. Öðruvísi myndum við ekki ná henni.“

Brjálæðislegri hugmynd varpað fram

Gustavo hitti svo Mariu og var með upptökutæki á sér þar sem farið var yfir verkið. Gustavo sagðist vera búinn að finna leigumorðingja sem ætlaði að klára verkið. Upptökunni var svo komið í hendurnar á lögreglu. Þó að lögregla hefði á þessum tímapunkti undir höndum hálfgerða játningu taldi lögregla það ekki duga til sakfellingar.

Það var þá sem lögreglumenn vörpuðu fram nokkuð brjálæðislegri hugmynd; Roman myndi sviðsetja eigið andlát með góðri aðstoð. Mynd yrði svo tekin af „líkinu“ til að sanna það fyrir Mariu að hann væri látinn. Roman féllst á að færa hugmyndina í framkvæmd og með aðstoð lögreglu og förðunarfræðings, sem farðaði skotsár á höfuð hans, var mynd tekin af honum í grunnri gröf. Hann viðurkennir að þetta hafi verið eitt af því erfiðasta sem hann hefur gert en samt sem áður nauðsynlegt til að réttlætinu yrði fullnægt.

Það var lögreglumaður, sem þóttist vera umræddur leigumorðingi, sem sýndi Mariu myndina af hinu meinta líki. Eins og sést er myndin nokkuð raunveruleg. Lögreglumaðurinn sagði að Maria hafi virst mjög ánægð með að verkinu væri lokið; hún hafi raunar hlegið og spurt hvort hann væri í alvörunni dáinn.

Sagði lítið í dómsal

Maria var handtekin skömmu síðar og játaði hún fyrir dómi að hafa lagt á ráðin um morð. Í október 2016 var hún dæmd í tuttugu ára fangelsi. „Hún sagði lítið í dómsalnum en réttlætinu var fullnægt,“ segir Roman sem viðurkennir að málið hafi tekið mjög á hann. „Þetta hefur haft varanleg áhrif á mig og ég verð aldrei samur eftir þetta,“ segir hann.

Roman hefur þegar skrifað bók um þessa ótrúlegu reynslu sína og þá hefur hann komið víða fram og talað opinberlega um heimilisofbeldi.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Móðirin í Kópavogi ákærð fyrir að reyna að drepa eldri soninn líka

Móðirin í Kópavogi ákærð fyrir að reyna að drepa eldri soninn líka
Fréttir
Í gær

Björn Leví: Þess vegna telja Píratar að ekki sé hægt að vinna með Sjálfstæðisflokknum

Björn Leví: Þess vegna telja Píratar að ekki sé hægt að vinna með Sjálfstæðisflokknum
Fréttir
Fyrir 2 dögum

dk hugbúnaður flytur í nýjar höfuðstöðvar og kynnir nýtt vörumerki

dk hugbúnaður flytur í nýjar höfuðstöðvar og kynnir nýtt vörumerki
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Ljósmyndaði nakinn mann í búningsklefa – Braut gróflega gegn kynferðislegri friðhelgi

Ljósmyndaði nakinn mann í búningsklefa – Braut gróflega gegn kynferðislegri friðhelgi