fbpx
Föstudagur 26.apríl 2024
Fréttir

Tálmunarfrumvarp til umræðu á Alþingi í dag: „Frumvarpið er enn eitt kúgunartækið í þágu ofbeldismanna“

Erla Dóra Magnúsdóttir
Mánudaginn 13. maí 2019 16:10

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Í dag fer fram fyrsta umræða á Alþingi um svonefnt tálmunarfrumvarp. Verði frumvarpið samþykkt getur það varðað sektum eða fangelsi í allt að fimm ár að tálma umgengni.

Samkvæmt greinargerð með frumvarpi er markmið þess að standa vörð um réttindi barns til að þekkja og njóta umgengni við báða foreldra. Frumvarpið hefur verið harðlega gagnrýnt og ekki talið þjóna hagsmunum barns að fangelsa foreldri þess.

Frumvarpið var fyrst lagt fram árið 2017 og hlaut þá ekki afgreiðslu. Var það svo aftur lagt fram í september á síðasta ári. Brynjar Níelsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, er fyrsti flutningsmaður frumvarpsins.

Enn eitt kúgunartækið

Eins og áður segir hefur frumvarpið verið harðlega gagnrýnt og mótbárum gegn því hreyft við í fjölda umsagna.

Hópurinn Aktívistar gegn nauðgunarmenningu leggst hart gegn frumvarpinu og útlistar ástæðurnar í ítarlegri umsögn sem er aðgengileg á vef Alþingis. Í henni segir:

„Frumvarp um refsilöggjöf í umgengnismálum er ekki lausn á vel skilgreindum vanda. Frumvarpið er enn eitt kúgunartækið í þágu ofbeldismanna og gefur þeim gerræðislegt vald í lífi barna og kvenna. Þið kallið þetta frumvarp til breytinga á barnaverndarlögum. Við köllum þetta frumvarp til laga gegn vernd barna.“

Undir þetta taka Samtök um kvennaathvarf sem hafa skilað tveimur umsögnum um frumvarpið.

„Að fangelsa foreldri sem hefur tálmað umgengni leiðir af sér tálmun á umgengni þess við barn sitt sem getur ekki talist þjóna hagsmunum barnsins. Foreldri sem situr í fangelsi getur ekki átt reglulega og óþvingaða umgengni við barn sitt. Tillaga um að fangelsa foreldri stangast á við frumvarpið sjálft sem byggir á rétti barna til þess að umgangast foreldra sína.

Samtök um kvennaathvarf skora á þingmenn að hafna lögfestingu þessa frumvarps og að leitað verði leiða til þess að leysa málefnið með öðrum hætti með hagsmuni barna í fyrirrúmi.“

Umboðsmaður barna mótfallinn frumvarpi

Frumvarpið hefur líka verið gagnrýnt af embættismönnum. Umboðsmaður barna telur til að mynda að það sé ekki í samræmi við  hagmuni barns að refsivæða tálmun.

„Börn eiga rétt á að umgangast báða foreldra sína, nema það sé talið andstætt hagsmunum þeirra. Umboðsmaður barna telur mikilvægt að bregðast við ef þessi réttindi eru ekki virt, með hagsmuni barna að leiðarljósi. Umboðsmaður telur það hins vegar ekki í samræmi við hagsmuni barna að umgengnistálmun verði gerð refsiverð. Styður hann því ekki ofangreint frumvarp.

Umboðsmaður barna getur ekki séð að sú leið, að dæma það foreldri sem barn á lögheimili hjá í fangelsi vegna tálmunar á umgengni, sé í einhverjum tilvikum í samræmi við hagsmuni barns.“

Barnavernd mótfallin

Frumvarpið  hefur einnig sætt gagnrýni frá barnavernd:

„Er af hálfu Barnaverndarnefndar Reykjavíkur dregið í efa að fangelsisvist lögheimilisforeldris þjóni hagsmunum bamsins jafnvel þó á móti komi meiri samvistir við hitt foreldrið.“

„Mat barnaverndarnefndar á norðanverðum Vestfjörðum á þessari tillögu er að um sé að ræða illa ígrundaða tillögu til breytinga á barnaverndarlögum og ekki til þess fallið að tryggja að réttur barna sé í fyrirrúmi.“

„Fagdeild félagsráðgjafa í barnavernd telur að beita eigi foreldra sem tálma umgengni barna við umgengnisforeldra ákveðnum refsingum en að tillaga um allt að fimm ára fangelsi gangi allt of langt.“

Ekki tímabært

Svipuð sjónarmið koma fram í umsögnum Kvenréttindafélags Íslands, Jafnréttisstofu og Barnaheilla

„Stjórn Kvenréttindafélags Íslands telur að stíga þurfi varlega til jarðar þegar kemur að því að beita refsingum við tálmun eða takmörkun á umgengni.“

„Jafnréttisstofa leggur til að gerð verði úttekt á málum þar sem um tálmun eða takmarkanir á umgengni er að ræða. Áður en slíkar upplýsingar liggja fyrir er ekki tímabært að leggja til svo róttækar aðgerðir sem gert er með þessu frumvarpi.“

Samtökin[Barnaheill] draga í efa að fangelsisrefsing foreldris verði nokkurn tíma barni fyrir bestu og hvetja því til þess að aðrar
leiðir verði farnar við að stuðla að samvinnu foreldra. Aðrar leiðir hljóta að mati samtakanna að vera árangursríkari og færar.“

Styðja frumvarpið

Talsmenn frumvarpsins halda því fram að núverandi úrræði foreldra sem verða fyrir tálmun séu ófullnægjandi og því bregðist lögin þeirri skyldu sinni að tryggja barni umgengni við báða foreldra. Núgildandi fyrirkomulag þar sem foreldri sem talið er tálma er beitt dagsektum, er ekki talið árangursríkt og jafnvel talið að með því sé staðan gerð verri.

„Nú hefur Alþingi tækifæri til þess að koma á virku úrræði við umgengnistálmunum og uppfylla þannig að því leiti 8. gr Mannréttindasáttmála Evrópu og 9. gr. Samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins auk þess sem það styður við 2. og 19. gr.,“ segir í umsögn Félags um foreldrajafnrétti og í umsögn Samtaka umgengnisforeldra segir:

„Mikilvægt er því að færa refsinguna frá barninu til hins brotlega foreldris. Að mati samtakanna koma þar úrræði eins og forræðissvipting eða í verstu tilfellunum, fangelsisdómur, helst til álita.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Móðirin í Kópavogi ákærð fyrir að reyna að drepa eldri soninn líka

Móðirin í Kópavogi ákærð fyrir að reyna að drepa eldri soninn líka
Fréttir
Í gær

Björn Leví: Þess vegna telja Píratar að ekki sé hægt að vinna með Sjálfstæðisflokknum

Björn Leví: Þess vegna telja Píratar að ekki sé hægt að vinna með Sjálfstæðisflokknum
Fréttir
Fyrir 2 dögum

dk hugbúnaður flytur í nýjar höfuðstöðvar og kynnir nýtt vörumerki

dk hugbúnaður flytur í nýjar höfuðstöðvar og kynnir nýtt vörumerki
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Ljósmyndaði nakinn mann í búningsklefa – Braut gróflega gegn kynferðislegri friðhelgi

Ljósmyndaði nakinn mann í búningsklefa – Braut gróflega gegn kynferðislegri friðhelgi