fbpx
Föstudagur 19.júlí 2019  |

DV - Frjáls og óháður miðill

Fréttir

Ofbeldi áður fyrr en ofverndun í dag: Erum við að klúðra uppeldinu? – Íslenskar reynslusögur

Aníta Estíva Harðardóttir
Sunnudaginn 24. mars 2019 09:33

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Uppeldi er sú aðferð sem notuð er til þess að styðja tilfinninga-, samfélags-, vitsmuna- og líkamlega þróun barns frá fæðingu til fullorðinsára. Algengasta form uppeldis er frá kynforeldrum til barna en einnig getur sú staða komið upp að aðrir fjölskyldumeðlimir eða ókunnugir ali börn upp. Uppeldi hefur í gegnum árin verið mjög margvíslegt og er talið að það ráðist mikið til af samfélagslegum aðstæðum foreldranna, stétt þeirra og efnahag.

Það þarf ekki að líta langt aftur í tímann til þess að sjá að uppeldi hefur breyst gífurlega og ef skoðaður er munurinn á uppeldisaðferðum frá árinu 1960 til dagsins í dag má sjá miklar breytingar. Sumar jákvæðar, aðrar neikvæðar.

Það eru líklega margir foreldrar sem kannast við það að hafa heyrt foreldra, ömmur og afa missa út úr sér orðin: „Þú ert að gera þetta vitlaust,“ þegar kemur að uppeldisaðferðum. Þau orð geta verið röng í einhverjum tilfellum, en eru þau það alltaf? Getur verið að það sé eitthvert vit í þeim ráðum sem jafnvel reynslumikið fólk er að reyna að deila? Ef við skoðum aðeins hvernig uppeldisstefna hefur mótast hérlendis hefur mikil framþróun orðið, mest til góðs en annað ekki.

Feður Fóru að taka meiri þátt í uppeldi á áttunda áratugnum.

Lítið var gert úr hlutverki feðra í uppeldinu

Árið 1970 lét Rauðsokkahreyfingin í sér heyra varðandi jafnrétti kynjanna og vegna þeirra breyttist margt. Konur sóttu fram og sýndu hvað í þeim bjó en þrátt fyrir það var ávallt talað um mæður sem aðal umönnunaraðilann allt til ársins 1980. Á þessum árum fóru feður þó að taka meiri þátt í heimilislífinu en hlutverk föður í lífi barnsins var þó ekki talið jafn mikilvægt og hlutverk móður. Talið var að móðirin bæri ábyrgð á og ætti að stjórna uppeldinu og gert var minna út hlutverki feðra. Þegar breytingar urðu í samfélaginu og konur fengu kosningarétt, aukin réttindi og þær fóru að fara út á vinnumarkaðinn í meira mæli varð stofnun leikskóla algengari. Frá þessum árum og fram til dagsins í dag hefur viðhorf fólks til uppeldis barna breyst töluvert.

Það sem margt eldra fólk veltir þó fyrir sér í dag er hvort þessi mikla breyting sem orðið hefur verið á uppeldisstefnu teljist yfirhöfuð til ávinnings. Fólk hefur velt því fyrir sér hvort foreldrar í dag séu farnir að ofvernda börnin sín. Foreldrar séu farnir að ganga of langt í að passa að börnin hafi ávallt gaman og eitthvað til afþreyingar og jafnvel farnir að tipla á tánum í kringum tilfinningar barna. Sem hafi síðan orðið til þess að foreldrar séu að missa tökin á uppeldinu smám saman.

Getur verið að það sé eitthvert vit í þessu eða eru þetta vangaveltur frá kynslóð sem stundum er talin hafa vanrækt börnin sín?

Gjarnan hefur fólk sem fæddist á árunum 1960 til 1990 sagt að unga kynslóðin í dag sé umvafin bómull, hún þurfi ekki að taka þátt í heimilisverkum, fái að hagræða tíma sínum of frjálslega og eyði allt of miklum stundum fyrir framan skjáinn. Þá er jafnframt oft talað um einfaldari tíma. Tíma þar sem Jón gekk yfir til Gunna og spurði hann hvort hann vildi „vera memm.“ Þá hafi vinirnir farið út og verið tímunum saman í að klifra í klettum, moka sand eða spila löggu og bófa. Ekki hafi þurft foreldra til þess að skipuleggja „hitting“ né neinn umsjónaraðila sem horfir yfir öxl barnanna öllum stundum. Engar tölvur komu við sögu eða símar.

Áhugaverð er frásögn ein á bloggsíðu frá manni, fæddum árið 1971, sem blaðamaður rakst á við skrif þessarar greinar.

„Þegar kom að sumarfríi fjölskyldunnar þá fór ég ekki í sumarbúðir. Fjölskyldan mín hafði heldur ekki efni á því að skipuleggja langt sumarfrí saman að skoða Evrópu. Nei, mamma mín safnaði eins miklum pening og hún gat og fór hún með okkur á ströndina eins oft og hún gat. Það fannst okkur frábært, að fá að fara og pissa í sjóinn. Það var það eina sem við vildum fá úr lífinu á þessum tíma.“

Einfaldara líf Börn léku sér úti allan daginn áður fyrr.

Einnig segir hann: „Þegar ég var orðinn tólf ára þá skildi mamma eftir smá klink fyrir mig og litla bróður minn á eldhúsborðinu áður en hún fór í vinnuna ásamt bréfi sem á stóð: „Verið góðir. Sé ykkur í kvöld. Það verður svínakjöt í matinn. Ekki slást. Elska ykkur, mamma.“ Restina af deginum fengum við svo að ákveða. Við smurðum okkur samloku, læstum hurðinni þegar við fórum út. Hjóluðum langar leiðir, spiluðum hafnabolta og veiddum fisk. Það var enginn sem fylgdist með okkur og það var enginn sem setti út á uppeldisaðferðir móður okkar í kommentakerfinu. Það vissi ekki einu sinni neinn af okkur nema mamma og hún vissi að það yrði allt í lagi með okkur þar sem hún hafði gert allt sem í hennar valdi stóð til þess að kenna okkur á lífið. Nú var komið að okkur að njóta lífsins og læra á hvernig hlutirnir virkuðu.“

Aldamótin mörkuðu tímamót í uppeldisaðferðum

Mikil breyting átti sér stað í uppeldisaðferðum í kringum aldamótin en þá voru farsímar og spjaldtölvur orðnar hluti af heimilinu. Krakkar skráðu sig á samfélagsmiðla og fóru fljótlega að eyða tímunum saman á Internetinu. Fljótlega fór að bera á því að aðlaga þurfti þessa nýju tækni að lífi barna og hafa nú verið settar reglur þess efnis hvað krakkar hafa rétt til þegar kemur að notkun hinna ýmsu forrita. Samkvæmt UNCRC hafa börn nú rétt til að taka þátt í hlutum sem við koma þeim á netinu. Þá hafa þau einnig rétt til að koma með eigið álit á ákveðnum málefnum og ber fullorðnum skylda að hlusta á þau og taka mark á þeim.

Snjallsímar Stór breyting í lífi barna.

Hirtingar

Það eru ekki mörg ár frá því að líkamlegu ofbeldi var beitt til þess að ala upp börn. Þá var þeim gjarnan refsað með rassskellingu eða voru slegin utan undir fyrir slæma hegðun. Í dag er þess konar hegðun gagnvart barni talin með öllu ólíðandi og geta foreldrar misst forræði yfir börnunum ef upp kemst um slíkt. Áhugavert er því að skoða það hversu stutt er síðan þeim aðferðum var í raun og veru beitt.

„Ég man að ég var rassskellt eða slegin utan undir ef ég var með kjaft. Það er eitthvað sem ég myndi aldrei gera í uppeldi á mínu barni í dag,“ segir einn viðmælandi, fæddur 1987, blaðakonu.

Þá segir annar viðmælandi, sem fæddist árið 1988: „Ég var látin bíta í sápu fyrir það að bíta bróður minn. Ég beit hann aldrei aftur en ég myndi aldrei gera þetta við mín börn. Ég var ekki einu sinni smákrakki á þessum tíma.“

Þá er einnig áhugavert að hugsa til þess að fyrir einungis örfáum árum taldist það eðlilegt að reykja sígarettur á heimilinu, jafnvel á meðan leikið var við börnin. Þá voru þau gjarnan send út í búð með miða frá foreldrum þar sem á stóð að þau ættu að kaupa pakka af sígarettum og mættu velja sér nammi ef afgangur yrði eftir.

Reykingar Ekkert tiltökumál þótti að svæla í kringum börn.

Foreldrar reyktu og drukku í kringum börnin

Það þarf ekki að gera annað en að horfa á gamlar klassískar íslenskar kvikmyndir eins og myndina Stella í orlofi sem tókst afbragðsvel að fanga tíðaranda íslensks samfélags á árum áður. Þar má sjá hvernig foreldrar reyktu daginn út og daginn inn og drukku mikið magn af áfengi þrátt fyrir að börnin væru í kring. Börn voru hvorki í sérstökum öryggisbúnaði í bílum, né voru þau skikkuð til þess að setja á sig bílbelti. Þau voru án eftirlits meiri hluta dags og þurftu að taka á sig alls konar ábyrgðarverkefni sem börnum í dag væri meinað að gera.

Kona fædd árið 1962 deildi einnig reynslu sinni af mismunandi uppeldisaðferðum, bæði frá því hún var sjálf barn og frá þeim tíma sem hún ól upp börn sjálf:

„Þegar ég var að alast upp hjá ungri móður minni sem var komin með tvö börn nítján ára gömul þá þótti það ekkert tiltökumál að binda krakka úti í garði með beisli. Mamma þurfti að sinna yngri bróður mínum inni og ég var útikrakki. Ég var sett í beisli sem bundið var við girðinguna. Ég lék mér í innkeyrslunni en bandið var þó það stutt að ég komst ekki út á götu. Það voru ekki allir sáttir við þetta og ein kona hótaði að kæra mömmu til barnaverndarnefndar en þetta var samt lenskan þá.“

Beisli Börn voru stundum bundin úti í garði.

Hún segir að á þessum tíma hafi leikskólar ekki verið algengir en að róluvellir hafi verið í öllum hverfum.

„Þar voru gæslukonur sem pössuðu krakkana og það var greitt við hliðið þegar komið var með börnin. Við lékum okkur svo úti allan tímann sem við vorum þar. Þarna voru bílar ekki mjög algeng eign þannig að það var gengið þegar við þurfum að fara eitthvert. Það þótti ekkert tiltökumál að ganga frá Laugarnesinu og niður á Laugaveg. Krakkar gengu ein í skólann frá sex ára aldri og ekki í fylgd með fullorðnum nema kannski fyrsta skóladaginn. Börn léku sér úti eins mikið og hægt var og þá þurfti ekki að taka eins mikið til á heimilinu. Pabbinn vann úti og tók ekki þátt í heimilisstörfum nema í einstaka tilfellum. Afþreying barna á þessum tíma voru bækur og leikur, sjónvarp var notað spari. Þá var ekkert sjónvarp á fimmtudögum og allan júlímánuðinn. Á fimmtudagskvöldum var setið og hlustað á útvarpsleikrit og þá sátu krakkarnir hljóðir og hlustuðu. Teiknuðu gjarnan eða lituðu á meðan.“

Hún segir uppeldi barna í dag ekki mikið hafa breyst frá því að hún ól sín börn upp fyrir um 20 árum.

„Uppeldið var svipað og það er í dag nema tölvunotkun var ekki eins algeng. Börn léku sér meira með dót og fengu að horfa á barnatímann í sjónvarpinu og einstaka bíómynd. Þegar Latibær var að byrja þá voru haldin heilsupartí og borðað grænmeti og ávexti á meðan fylgst var með Íþróttaálfinum á skjánum.“

Ung tveggja barna móðir, sem er fædd árið 1995, hafði svo þetta að segja:

„Þegar ég var að alast upp þá var allt nýtt þar til það nánast hrundi í sundur. Fötin voru saumuð saman aftur og aftur og notuð, sama hversu ónýt þau voru orðin. Þegar ég eignaðist svo mitt fyrsta barn árið 2015 þá kom tengdamamma mín með flíkur af pabba barnsins, sem er orðinn 37 ára í dag, til okkar. Hún kom ekki bara með gamlar flíkur heldur líka snuðin sem öll börnin hennar höfðu átt. Það átti sko aldeilis að endurnýta!“

Hún minnist þess einnig þegar hún eyddi heilum skóladegi með brákaða hönd á hörkunni.

Ofverndun Vandamál nútímaforeldra.

„Hörkunni og meðvirkninni var troðið í alla alls staðar. Ég var einu sinni heilan skóladag með brákað bein í framhandlegg af því að ég átti bara að hætta þessu væli. Í dag yrði sá skólastarfsmaður brenndur á báli bara fyrir það að láta þessi orð út úr sér.“

Já, tímarnir breytast og mennirnir með. En þá er komið að því að velta fyrir sér spurningunum sem lagðar var hér fram í upphafi greinar. Getur það verið að uppeldi barna í dag sé ábótavant? Eru foreldrar í dag að ofvernda börnin sín? Getur verið að það sé eitthvert vit í þeim ráðum sem jafnvel reynslumikið fólk er að reyna að deila?

Því miður veit greinarhöfundur ekki svörin við þessum spurningum. Hún hefur þó fulla trú á því að foreldrar í dag séu að reyna að gera sitt besta í þeim kringumstæðum sem þeir búa við. Alveg eins og fólk gerði hér á árum áður. Erum við ekki bara öll að reyna að sníða okkur stakk eftir vexti?

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

Bættu baðherbergið
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Margir minnast Gests – „Hann bjó yfir persónutöfrum og manngæsku sem er vandfundin“

Margir minnast Gests – „Hann bjó yfir persónutöfrum og manngæsku sem er vandfundin“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Sturlungar minnast Guðmundar – „Fengum við að sjá þennan dreng blómstra“

Sturlungar minnast Guðmundar – „Fengum við að sjá þennan dreng blómstra“
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Æpandi þögn lögreglu í Bauhaus-málinu

Æpandi þögn lögreglu í Bauhaus-málinu
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Grunur um hættulega veirusýkingu í hundum á Egilsstöðum

Grunur um hættulega veirusýkingu í hundum á Egilsstöðum