fbpx
Föstudagur 26.apríl 2024
Fréttir

Móðir Starkaðar svarar Guðmundi – Alvarlegt að saka fólk um falsskrif og veitast að barni

Ágúst Borgþór Sverrisson
Fimmtudaginn 17. október 2019 19:22

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Guðmundur Franklín Jónsson, fyrrverandi forsetaframbjóðandi og stofnandi Hægri grænna, staðhæfði í dag að Björn Þorláksson, fjölmiðlafulltrúi hjá Umhverfisstofnun, hefði beitt 11 ára syni sínum fyrir sig í Morgunblaðinu í dag. Þar birtist grein eftir Starkað Björnsson, sérlega vel stíluð skrif miðað við aldur höfundar, er fjölluðu um umhverfismál.

Í greininni hvetur Starkaður hina fullorðnu til að taka sig á í umhverfismálum: „Þegar maður horfir á fréttir og hlustar á stjórnmálamenn og eigendur stórfyrirtækja, þá spyr maður: Lærum við aldrei neitt? […] Þegar við skoðum okkar eigið land, Ísland, er um við að mörgu leyti algjörir umhverfissóðar í alþjóðlegum samanburði.  Til dæmis hvað við urðum mikið af sorpi. Engan tíma má missa.“

Starkaður telur hamfarahlýnun vera yfirvofandi og skrifar:  „Ég vil að við aukum umhverfisverndarkröfur í átt að sjálfbærni, ég vil hvetja krakka sem og fullorðna til að minnka plast- og bensín/dísilnotkun til dæmis. Endurnýta meira og nota hlutina okkar betur. Mér finnst að allt einnota plast ætti að vera algjörlega bannað (nema undir mjög sérstökum kringumstæðum). Við viljum nota vélar áfram til að létta okkur lífið eins og í upphafi iðnbyltingarinnar en það sem þarf að breytast er að orka vélanna verði umhverfisvæn í stað þess að stúta okkur öllum um síðir.Höfin eru að súrna, lífríkið  hopar á hverjum degi, jöklarnir bráðna, lönd munu sökkva, veðrabreytingar verða æ hömlulausari og valda meiri og meiri skaða en á sama tíma standa fullorðnir og segja: Þetta er ekki mitt mál, þetta reddast!.“

Guðmundur Franklín deildi greininni á Facebook-síðu sinni og telur hana koma úr smiðju föður drengsins, Björns Þorlákssonar:

„Snilldarskrif og skyldulesning hjá Íslands Gretu! Þetta er auðsjáanlega falsgrein, skrifuð af pabba barnsins Birni Þorlákssyni, fjölmiðlafulltrúa hjá Umhverfisstofnun. Þangað erum við komin“

Bendir Guðmundi á að sonur hennar sé ekki eingetinn

Móðir Starkaðar, Arndís Bergsdóttir, hefur sent DV yfirlýsingu vegna málsins. Henni þykir magnað að Guðmundi hafi einungis dottið í hug að faðir drengsins hafi skrifað greinina en ekki móðirin og bendir hún Guðmundi á að sonur hennar sé ekki eingetinn. Sjálf sé hún með doktorspróf innan félags- og mannvísinda og viðfangsefni hennar hafa leitt til fjörugra umræðna á heimilinu um sjálfbærni. Það sem Guðmundur telur hafa verið falsgrein voru í raun skrif unnin upp úr ræðu sem Starkaður skrifaði og flutti fyrir bekkjarfélaga sína í tilefni af kosningu um umhverfisfulltrúa bekkjarins.

Arndís sakar Guðmund um aðkast að barni með þeim fullyrðingum sem Guðmundur lét frá sér í dag. Þá sé alvarlegt að saka fólk um að sigla undir fölsku flaggi í skrifum.

Arndís er einnig ósátt við að DV hafi vakið athygli á skrifum Guðmundar. Er rétt að staldra við þar og geta þess að tilgangur DV með því að vekja athygli á óvenjulegum fullyrðingum sem þessum er ekki sá að hampa þeim. DV vekur athygli á fréttnæmum ummælum hvers konar með hlutlausum hætti.

Sjá einnig:

Guðmundur Franklín með djarfa kenningu: Segir Björn nota barn sitt í áróðri

Yfirlýsingar Arndrísar birtist hér í heild sinni:

 

Yfirlýsing vegna fréttar um falsskrif barns

 

Kæri Guðmundur Franklín og ritstjórn DV

Í dag birtist grein í Morgunblaðinu eftir Starkað Björnsson. Í greininni lýsir hann meðal annars áhyggjum af aðgerðaleysi fullorðinna í umhverfismálum og hvetur alla til að gera betur. Margir hafa tekið eftir greininni og Guðmundur nokkur Franklín leggur lóð sitt á vogarskálarnar með því að skrifa stöðuuppfærslu sem ritstjórn DV ákveður að slá upp á almennum vettvangi. Í stöðuuppfærslunni kallar Guðmundur Starkað “Íslands Gretu” á nokkuð hæðnislegan hátt og sakar hann um að vera ekki höfund greinarinnar heldur lepp fyrir pabba sinn. Greinin sé, að mati Guðmundar, “auðsjáanlega falsgrein” skrifuð af upplýsingafulltrúa Umhverfisstofnunar sem er líka pabbi Starkaðar.

Guðmundur! Enn og aftur dettur miðaldra karli í hug að barn sé eingetið af föður sínum! Ég er mamma Starkaðar. Ég er með doktorspróf innan félags- og mannvísinda og hafa viðfangsefni rannsókna minna meðal annars snúið að þeim sjónarmiðum sem eru inngreypt í Mannöldina, sem og endingarbetri leiðum til að hugsa um og takast á við framtíðina. Það þýðir að á heimilinu er nokkuð rætt um sjálfbærari leiðir til framtíðar, í víðum skilningi. Starkaður hefur ekki farið varhluta af þeim umræðum, né látið sitt eftir liggja. Það er nefnilega mikilvægt, kæri Guðmundur, að allir hafi rödd. Sérstaklega í heimi sem er við það að vera ósjálfbær vegna eigingjarnra hátta mannfólksins og valdatengsla sem byggja á karllægum gildum.

Það sem þú, Guðmundur, telur falsgrein eru skrif unnin upp úr ræðu sem Starkaður skrifaði og flutti fyrir bekkjarfélaga nú á dögunum í tilefni af kosningu um umhverfisfulltrúa bekkjarins. Drengurinn tjáði okkur foreldrunum að hann ætlaði að bjóða sig fram og að hann ætlaði að skrifa framboðsræðu. Við gjóuðum augunum hvort á annað, bæði fullviss um að hann þyrfti aðstoð við þetta verkefni. Auðvitað aðstoða foreldrar börnin sín. Það er ég nokkuð viss um að þú þekkir sjálfur, Guðmundur, enda hvetja skólastofnanir og góðir uppeldissiðir foreldra að vera börnum sínum innan handar og leiðbeina þeim. Ég viðurkenni að það kom okkur á óvart hvað skrifin voru vel hugsuð og vel orðuð. Það sem hann þurfti helst aðstoð við var að stytta kaflann um iðnbyltinguna sem var helst til ítarlegur að mati okkar foreldranna. Svo var ein og ein þýðing á enskuslettum. Starkaður hefur þó oft komið okkur á óvart, til dæmis þegar hann opnaði munninn fimm ára gamall altalandi á ensku, með breskum hreim. Stundum er það kallað að vera “gammelklog” og undanfarið hefur verið talað um ofurmátt og hæfileikann til að skilja kjarnann frá hisminu. Eitthvað sem hann gerir augljóslega betur en margir fullorðnir.

Nú ræðst þú, Guðmundur, á eitt það stærsta sem barni finnst það hafa gert í lífinu hingað til og færir ekki haldbær rök fyrir máli þínu. Þú færir engin rök fyrir því að greinin sé “auðsjáanlega” fölsk önnur en að pabbi (!) sonar míns vinnur á stjórnsýslustofnun sem fer með umhverfismál. Og þú færir heldur engin rök fyrir því af hverju fullorðinn maður sem er almennt ekki feiminn við að láta skoðanir sínar í ljós bregður sér allt í einu í líki sonar síns og þykist skrifa eins og ellefu ára barn! Slíkur skortur á röklegum málflutningi kemur þó ekki í veg fyrir að þú eigir að skilja alvarleikann sem felst í því að saka fólk um að sigla undir fölsku flaggi í skrifum. Hann er heldur ekki afsökun fyrir aðkasti á barn. Aðkasti sem felst í því að þú sem ert fullorðinn aðili gerir lítið úr sjónarmiðum barns og þeirri vinnu sem það leggur á sig að koma sjónarmiðunum á framfæri við aðra.

Ég velti því fyrir mér hvort ég ætti að láta þessi skrif þín liggja kyrr, Guðmundur, enda hef ég margt betra við tíma minn að gera. Eftir að ritstjórn DV ákvað að veita þér almennan vettvang – og þar með taka þátt í að rægja son minn – neyðist ég til að leggja orð í belg. Þetta fjallar nefnilega allt um ábyrgð. Ábyrgð þína fyrir orðum þínum. Ábyrgð DV fyrir því að veita rógi gegn barni pláss á opinberum vettvangi. Ekki síst þó, ábyrgð okkar fyrir breyttum hugsunarhætti og breyttri sýn á veröldina alla, bæði mennska og ómennska. Slíkri ábyrgð er ekki hægt að skorast undan. Ábyrgð er ekki fyrirbæri sem tekið er upp á hátíðis og tyllidögum. Hún er ástundun, alltaf, alla daga.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 2 dögum

Uppnám á Íslandsmótinu í skák – Stórmeistari hættir þátttöku út af hávaða í kylfingum

Uppnám á Íslandsmótinu í skák – Stórmeistari hættir þátttöku út af hávaða í kylfingum
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Össur segir Jóni Gnarr að hætta að væla

Össur segir Jóni Gnarr að hætta að væla
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Sigmar harðorður um stöðuna hér á landi – „Þetta er hálf­gerð sturlun“

Sigmar harðorður um stöðuna hér á landi – „Þetta er hálf­gerð sturlun“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

dk hugbúnaður flytur í nýjar höfuðstöðvar og kynnir nýtt vörumerki

dk hugbúnaður flytur í nýjar höfuðstöðvar og kynnir nýtt vörumerki