fbpx
Föstudagur 26.apríl 2024
Fréttir

„Það er ömurlegt að horfa upp á mömmu sína hverfa og vita ekkert hvert maður á að leita“

Auður Ösp
Laugardaginn 19. janúar 2019 10:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Alltaf þegar að ég sé hana gráta, þá er ég viss um að hún veit hvar hún er og að við höfum sett hana inn á þessa stofnun í geymslu. Þetta er nefnilega lítið annað en geymsla fyrir fólk sem getur ekki verið með okkur hinum í daglegu lífi og fá úrræði eru fyrir,“ segir Áslaug Dröfn Sigurðardóttir sem hefur undanfarin ár horft upp á móður sína hverfa inn í eigin skel vegna framheilabilunar.

Í samtali við DV segist Áslaug  upplifa mikið þekkingar- og reynsluleysi þegar kemur að umönnun heilabilaðra hér á landi.

Þetta er hluti af stærra helgarviðtali í DV sem kom út föstudaginn 18. janúar.

Hættuleg sjálfri sér

Líkt og svo margir aðstandendur heilabilaðra þá lentu Áslaug og systur hennar í umönnunarhlutverkinu, en fengu þó aðstoð heimahjúkrunarteymis einu sinni á dag. „Við vildum halda henni heima eins lengi og mögulegt væri, en undir lokin var það ómögulegt. Við ríghéldum í allt eins lengi og við gátum, mamma gat púslað og teiknað og bróderað, en síðan þurftum við að láta hana hætta því af því að hún var orðin hættuleg sjálfri sér með nálarnar. Undir lokin var ekki hægt að skilja við hana eftirlitslausa. Þegar við tókum þá ákvörðun að setja hana á stofnun fannst mér eins og ég væri að svíkja hana.“

Langur biðlisti var eftir plássi á Landakotsspítala og segir Áslaug að lítið hafi verið um svör. Á þessum tímapunkti hafi móðir þeirra beinlínis verið orðin hættuleg sjálfri sér. Í eitt skipti var Áslaugu og systrum hennar bent á að ef þær gætu ekki beðið lengur þá gætu þær farið með móður sína upp á bráðamóttöku og skilið hana eftir þar. „Það var í raun bara verið að segja að við gætum fleygt henni þangað inn og sagt við starfsfólkið: „Hei, þið dílið bara við þetta“.“

Hún segir að þær systurnar hafi vantað einhvern til að leiða þær í gegnum ferlið. „Við þurftum sjálfar að klóra okkur áfram og leita uppi allar upplýsingar jafnóðum. Kerfið er ofboðslega þungt og óþjált og það vantar allan strúktúr, bæði fyrir þá sem eru veikir og aðstandendur. Það var ekki eins og það væri hægt að fara bara beint á netið og fletta upp hvað maður á að gera sem aðstandandi manneskju með framheilabilun, þarna sækir þú um tryggingar, þetta eru réttindi sem hún hefur, og svo framvegis. Það er ömurlegt að horfa upp á mömmu sína hverfa og vita ekkert hvert maður á að leita eða við hvern maður á að tala.“

Áslaug kveðst vera þakklát fyrir að þær systurnar séu saman að kljást við veikindi móður þeirra. „Ég veit það alveg fyrir víst að ég hefði aldrei getað gert þetta ein. Ég hefði örugglega bara lagst á gólfið og gefist upp í vanmætti.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Móðirin í Kópavogi ákærð fyrir að reyna að drepa eldri soninn líka

Móðirin í Kópavogi ákærð fyrir að reyna að drepa eldri soninn líka
Fréttir
Í gær

Björn Leví: Þess vegna telja Píratar að ekki sé hægt að vinna með Sjálfstæðisflokknum

Björn Leví: Þess vegna telja Píratar að ekki sé hægt að vinna með Sjálfstæðisflokknum
Fréttir
Fyrir 2 dögum

dk hugbúnaður flytur í nýjar höfuðstöðvar og kynnir nýtt vörumerki

dk hugbúnaður flytur í nýjar höfuðstöðvar og kynnir nýtt vörumerki
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Ljósmyndaði nakinn mann í búningsklefa – Braut gróflega gegn kynferðislegri friðhelgi

Ljósmyndaði nakinn mann í búningsklefa – Braut gróflega gegn kynferðislegri friðhelgi