fbpx
Föstudagur 19.apríl 2024
Fréttir

MR bolar vinsælum kennara úr starfi: Kom kennara sem lagður var í einelti til varnar – „Ég tók þetta mjög nærri mér“

Ágúst Borgþór Sverrisson
Mánudaginn 3. júní 2019 14:13

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Þessi starfslok eru alls ekki með mínum vilja. Ég er orðin 67 ára en ég má kenna til sjötugs og hafði hugsað mér að vera áfram með einn til tvo bekki. Ég var með einn bekk í vetur og tvo bekki í fyrravetur og það hefur bara gengið rosalega vel. Ég er með 100% mætingu og yfir 9,0 í einkunn frá nemendum. Enn fremur er ég best menntuð af öllum kennurum í deildinni,“ segir Linda Rós Michaelsdóttir, enskukennari í M.R. sem nú hefur verið gert að fara á eftirlaun. Linda Rós fullyrðir að annarlegar og ófaglegar ástæður liggi að baki þessari ákvörðun, hún sé tilkomin vegna þess að Linda Rós beitti sér í eineltismáli sem kom upp meðal kennara skólans í vetur.

„Ég tók þetta mjög nærri mér,“ segir Linda Rós og fullyrðir að verið sé að refsa henni vegna þess að hún lagði til í vetur að skólinn fengi til sín utanaðkomandi aðila, til dæmis vinnustaðasálfræðing, til að bæta samskipti í kennarahópnum eftir að kennari hrökklaðist frá störfum, að sögn Lindu vegna eineltis frá öðrum kennurum.

„Eftir að ég lagði þetta til mætti mér frost á kennarastofunni og rektor hefur ekki yrt á mig,“ segir Linda Rós.

Rektor sakaður um vanhæfni

Athygli DV var vakin á máli Lindu vegna umræðna um starfslok hennar og kennsluferil á Facebook. Þar stígur fram þjóðþekkt fólk og þakkar Lindu Rós fyrir samfylgdina og leiðsögn á menntabrautinni. Leikhúsmaðurinn þekkti, Þorleifur Örn Arnarsson, ritar:

„Lindu Rós Michaelsdóttur hefur verið sagt upp störfum sem kennari í MR.

Þetta hryggir mig mjög.

Ef ekki væri fyrir Lindu Rós Michaelsdóttir þá væri ég ekki sá maður sem ég er í dag.

Ég var bæði erfitt og flókið ungmenni og kom ég meira og minna að lokuðum dyrum í skólakerfinu. Þangað til Linda Ros fann mig. Eða ég hana.

Strangari og hæfari kennara hafði eg aldrei hitt – en hitt var mikilvægara, að hún talaði æ til mín á jafningjaleveli, höfðaði til þess besta í mér og hvatti mig áfram þó svo að allir aðrir vildu heldur snúa við mér bakinu.

Vinur minn hér í Þýskalandi sagði mér að hver og einn þurfi að hafa lukku til að finna sinn kennara. Manneskju í kerfinu sem hjálpar viðkomandi að finna og feta rétta stíginn, minn kennari og leiðsögumaður var Linda Ros.

Manneskja sem þorir að benda á órettlæti þar sem slíkt er að finna, sér möguleika þar sem aðrir sjá erfiðleika og skilur menntakerfið sem þjónustu við nemendur en ekki stofnun sem fyrst og fremst þarf að verja sjálfan sig.

Skóli sem ekki vill nýta slíkan starfskraft er fátækari fyrir vikið.

Og aldrei verður þakkarskuld mín við Lindu Rós að fullu greidd!“

 Fjölmargir tjá sig undir færslunni, meðal annars rithöfundurinn Gerður Kristný, sem segir:

„Hún kenndi mér íslensku og ensku í gagnfræðaskóla. Ógleymanlegur kennari.“

Skarphéðinn P. Óskarsson, núverandi kennari við skólann, segir:

„Einstaklega vel orđađ hjá Þorleifi. Hverju orđi sannara. Hún Linda sér þađ sem ađrir sjá ekki. Afburđa kennari og kjarkmikil kona. MR hefur misst mikilhæfan starfskraft vegna vanhæfni núverandi rektors. Tilbođin ættu ađ streyma til hennar Lindu.“

Fjölmiðlakonan Fanney Birna Jónsdóttir minnist einnig Lindu Rósar:

„Sorglegt. Ég tengi að fullu við þessa frásögn þó ég hafi verið öðruvísi áskorun fyrir þennan magnaða umsjónarkennara minn í Álftó. Ég passaði lóðbeint inn í kassann, gerði að mestu það sem mér var sagt og uppskar ágætlega. En Linda Rós sá í mér eitthvað meira og merkilegra en ég sjálf, ýtti mér lengra, leyfði mér aldrei að fara auðveldu leiðina og lagði þannig hreinlega grunninn að þeirri manneskju sem ég er í dag. Sýnir kannski vel fjölhæfni hennar við að takast á við nemendur í öllum sínum frábæra fjölbreytileika og mæta ávallt hverjum og einum sem jafningja hvar sem hann er staddur. Mikill er missir Menntaskólans í Reykjavík og sá skóli sem nú mun hreppa hnossið á gott í vændum.“

Hreinsanir í MR, segir Linda Rós

„Það er verið að nota niðurskurð í kennslu til að fara í hreinsanir og losa sig við þá sem eru ekki þóknanlegir,” segir Linda Rós við DV. Segir hún fráleitt hvernig matsþættir er hana vörðuðu voru túlkaðir. Þar sem frammistaða hennar er varðar umsagnir nemenda, sem og menntun hennar og starfsreynsla voru allt í toppi, var látið ráða huglægt mat kennara varðandi samskipti, að hennar sögn.

„Ég hef ekki átt sökótt við neina manneskju hér, ekki kennara og allra síst nemendur. Það eina sem ég gerði var að ég bað um að fenginn yrði utanaðkomandi aðili til að aðstoða okkur vegna þessa eineltismáls enda ótækt að starfsmaður þurfi að hrekjast burtu úr skólanum vegna vanlíðunar,” segir Linda Rós.

Rektor: „Stjórnandi tekur ekki svona ákvörðun að gamni sínu“

„Svona ákvarðanir eru með því erfiðasta sem skólastjórnendur fara í gegnum og ég fullyrði að svona gerir enginn út í loftið. Stjórnandi tekur ekki svona ákvörðun að gamni sínu,“ segir Elísabet Siemsen, rektor M.R. en hún tók við því starfi haustið 2017. „Skólinn hefur staðið frammi fyrir miklum niðurskurði í kennslu, alls 260 stundir á viku, og eðlilega verður niðurskurðurinn mestur í ensku, íslensku og stærðfræði, vegna þess að þar eru flestar kennslustundirnar,“ segir Elísabet.

Skera þurfti niður um rúmlega eitt starfsgildi í ensku en þess ber að geta að Linda Rós, sem er fædd árið 1951, var í hlutastarfi. Elísabet getur ekki tjáð sig um mál einstakra starfsmanna en segir að allir kennarar hafi verið settir í mat áður en ákvarðanir voru teknar um uppsagnir og niðurskurð. Í hæfnismatinu vóg menntun 40%, starfsreynsla 30% og aðrir þættir, þar á meðal samskipti 30%. Miðað við fullyrðingar Lindu Rósar um menntun sína, starfsreynslu og frammistöðu þá virðist þetta ekki ganga upp – en DV hefur engar forsendur til að leggja frekara mat á það.

„Ég tek við þessum kaleik þegar ég tók við embætti, skólastarfið þarf að ganga upp og skólinn þarf að bera sig fjárhagslega. Það var úr vöndu að ráða,“ segir Elísabet.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 23 klukkutímum

Siggi stormur óvenju bjartsýnn varðandi sumarið – „Ég er eiginlega í sjöunda himni yfir þessu”

Siggi stormur óvenju bjartsýnn varðandi sumarið – „Ég er eiginlega í sjöunda himni yfir þessu”
Fréttir
Í gær

Flassari fyrir dóm – Sakaður um að hafa sýnt af sér ósiðlegt og lostugt athæfi

Flassari fyrir dóm – Sakaður um að hafa sýnt af sér ósiðlegt og lostugt athæfi
Fréttir
Í gær

„Grípa margir til þeirra örþrifaráða að flýta fyrir eigin dauða“

„Grípa margir til þeirra örþrifaráða að flýta fyrir eigin dauða“
Fréttir
Í gær

Guðlaugur Þór leiðréttir útbreiddan misskilning: „Þrátt fyr­ir þessa staðreynd flýg­ur sag­an áfram“

Guðlaugur Þór leiðréttir útbreiddan misskilning: „Þrátt fyr­ir þessa staðreynd flýg­ur sag­an áfram“
Fréttir
Í gær

Halla tjáir sig um ferilskrána: „Ég hef enga ástæðu til að ýkja eitt eða neitt í mínum bakgrunni“

Halla tjáir sig um ferilskrána: „Ég hef enga ástæðu til að ýkja eitt eða neitt í mínum bakgrunni“
Fréttir
Í gær

Tveir nýir meðeigendur hjá Expectus

Tveir nýir meðeigendur hjá Expectus