fbpx
Fimmtudagur 25.apríl 2024
Fréttir

Ragnar skammar Loga Bergmann: „Hann var að mínum dómi að misnota aðstöðu sína“

Ritstjórn DV
Sunnudaginn 2. júní 2019 10:03

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Fyrirsögninni var beint að mér persónulega og var klúrt fúkyrði,“ segir Ragnar Önundarson, fyrrverandi bankastjóri, í grein sem hann skrifar í Morgunblaðið um helgina.

Fjölmiðlamaðurinn Logi Bergmann og Ragnar hafa átt í nokkrum ritdeilum að undanförnu en skemmst er að minnast pistils sem Logi skrifaði í Morgunblaðið fyrir viku síðan.

Ummæli Ragnars í garð Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdóttur, ritara og þingmanns Sjálfstæðisflokksins í þar síðustu viku, urðu tilefnið að pistlaskrifum Loga. Ragnar sagði meðal annars: „Miðaldra, hvítur, kristinn karlmaður, helst reffilegur og peningalegur, er formaður. Glæsilegasta konan er varaformaður og sætasti krakkinn ritari. Þetta er afleiðing af valdatilfærslu prófkjöranna.“

Logi gagnrýndi skrif Ragnars harðlega og kallaði hann meðal annars karlpung:

„Nú væri sennilega frábær tími til að taka skófluna af Ragnari Önundarsyni svo hann hætti að grafa sig dýpra og dýpra. Það er hreinlega ekki einleikið hvað hann er mikill sérfræðingur í að sýna hæfni sína í mannlegum samskiptum. Eða ekki. Sérstaklega þegar kemur að einum þingmanni.“

Ragnar svaraði svo skrifum Loga í síðustu viku þar sem hann skaut föstum skotum. Logi Bergmann nýtur gríðarlegs trausts, ef sjálfstraustið er talið með,“ sagði hann meðal annars og gagnrýndi orðanotkun Loga, meðal annars á orðinu „karlpungur“.

Ragnar heldur áfram að gagnrýna Loga í umræddri grein sem birtist í laugardagsblaði Morgunblaðsins í gær, þó efni pistilsins fjalli að mestu um dvínandi fylgi Sjálfstæðisflokksins og orkupakkann.

Gefum Ragnari orðið:

„Fyrir síðustu helgina í maí sátum við Logi Bergmann, landskunnur sjónvarpsþulur og skemmtikraftur, báðir við skriftir í Morgunblaðið. Hann mun vera orðinn starfsmaður blaðsins og skrifar pistla. Mín grein birtist mánudaginn 27. maí og innihélt ábendingu um lausn ágreiningsins um orkupakkann. Hún fól í sér meðalveg sem gerir okkur kleift að vera áfram í EES, en um leið tryggja almennum kaupendum raforku á því hagstæða verði sem við höfum sjálf búið okkur í haginn með. Orð eru til alls fyrst, hugmynd getur batnað við umræðu eða vakið nýja betri. Hans pistill birtist degi fyrr og var um mig. Fyrirsögninni var beint að mér persónulega og var klúrt fúkyrði. Lágmenningin varð augljós, en Morgunblaðið hefur reynt að forðast hana. Hann var að mínum dómi að misnota aðstöðu sína sem starfsmaður til að reyna að þagga niður í mér. Logi Bergmann er ekki tekinn mjög alvarlega og læt ég þetta því nægja um pistil hans, sem innifelur samt nokkrar marklausar aðdróttanir.“

Ragnar gerir svo tilraun til að útskýra mál sitt og gagnrýnir það að kyn virðist ráða meiru um það en raunveruleg hæfni hver fær forystuhlutverk.

„Logi vildi hjálpa vinkonum konu sinnar, þeim stjórnmálamönnum sem mest hafa um orkupakkann vélað. Ég hef gagnrýnt það að sú venja virðist komin á í Sjálfstæðisflokknum, að tilteknir hópar séu friðaðir með því að fela fulltrúum þeirra forystuhlutverk, í stað þeirrar reglu að sterkasta stjórnmálamanninum sé falin formennskan og þeim sem þykir standa honum næst að burðum varaformennskan, óháð kyni. Nú þykir sjálfsagt að með því að karl gegni formennskunni sé kona valin í sæti varaformanns. Vafasamt er að það sé jafnréttishugsjónum til stuðnings að fara svona að og undarlegt að konur skuli vilja það. Búið var til þriðja embættið, ritari, og það er ætlað ungliðunum. Þá þykir það góð pólitík í dag að forystufólk hafi svonefnt „sjónvarpsútlit“.“

Ragnar segir svo að einhverjir muni álykta sem svo að hann sé öfundsjúkur, hafandi útlit sem hæfir fremur útsendingu í útvarpi en sjónvarpi. Ragnar biður fólk þó að skoða málið nánar.

„Áður en sjónvarpið kom til sögunnar þurftu stjórnmálamenn að vera vel undirbúnir, þeir fluttu framsögu- og útvarpserindi og skrifuðu greinar í blöð. Nú skorar sá flest stig sem kemur vel út á skjánum og talar mest allra óundirbúinn í sjónvarpi. Það er einhver óhollusta fólgin í útlitsdýrkuninni, hún kyndir undir hégómaskap og beinir athyglinni frá því sem skiptir meira máli. Að forystufólk stjórnmálaflokks skuli verða henni að bráð er umhugsunarefni, ekki síst fyrir það sjálft. Afleiðingin er sú að formaðurinn hefur ekki stuðning og aðhald öflugs varaformanns. Jámenn eru lítil stoð þegar á móti blæs. Varaformaðurinn veit að allir vita að hann hefur ekki endilega burði til að verða formaður. Gamla fyrirkomulagið var betra segi ég, þó ég sé grunaður um að sjá fortíðina í hillingum.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Spáir ekki dropa úr lofti í Reykjavík fyrr en í maí – Sumarið lítur sérstaklega vel út

Spáir ekki dropa úr lofti í Reykjavík fyrr en í maí – Sumarið lítur sérstaklega vel út
Fréttir
Í gær

Stofna góðgerðarfélag til minningar um Þuríði Örnu – Blásið til tónleikaveislu 1. maí

Stofna góðgerðarfélag til minningar um Þuríði Örnu – Blásið til tónleikaveislu 1. maí
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Íbúar brjálaðir út í Hafnarfjarðarbæ: „Þetta er til háborinnar skammar og engin lausn“

Íbúar brjálaðir út í Hafnarfjarðarbæ: „Þetta er til háborinnar skammar og engin lausn“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Réðst á dreng sem ætlaði að gera dyraat

Réðst á dreng sem ætlaði að gera dyraat