fbpx
Föstudagur 26.apríl 2024
Fréttir

Systur Matthildar heitinnar stíga fram og segja frá ótrúlegri framkomu Jónasar í réttarsalnum – „Sýndi okkur ofboðslega vanvirðingu“

Ágúst Borgþór Sverrisson
Laugardaginn 10. nóvember 2018 20:37

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Ég viðurkenni að mér er meinilla við þennan mann. Mér finnst hann vera gunga, lygari og mannleysa. Ég hef á honum megna fyrirlitningu,“ segir Erla Ruth Harðardóttir, systir Matthildar Victoríu Harðardóttur, sem lést í hræðilegu sjóslysi í skemmtibát Jónasar Garðarssonar, formanns Sjómannafélags Íslands, árið 2005.

Jónas var dæmdur í þriggja ára fangelsi fyrir manndráp af gáleysi en hann var talinn hafa stýrt bátnum drukkinn. Báturinn sigldi á Skarfasker við Viðey á miklum hraða og með hörmulegum afleiðingum. Auk Matthildar lést sambýlismaður hennar, Friðrik Ásgeir Hermannsson. Auk þeirra voru um borð Jónas, eiginkona hans, Guðjóna Harpa Helgadóttir, og 11 ára sonur þeirra.

Þegar lögreglumenn á gúmmíbát fundu Hörpu meira en klukkutíma eftir útkallið sáu þeir Jónas hangandi utan á bátnum. Harpa sat þá á kili bátsins ásamt syni þeirra. Eftir að Jónasi og fjölskyldu hans var bjargað um borð í gúmmíbátinn voru þau flutt upp á gjörgæsludeild. Höfðu þau fengið mikla áverka við höggið. Jónas var tvílærbrotinn og Harpa með brotin rifbein.

Strax eftir að þeim hafði verið bjargað hófst leitin að Friðriki og Matthildi. Kafarar stukku í sjóinn og fljótlega fannst lík Matthildar.

Lögregla, björgunarsveitir, kafarar frá Landhelgisgæslunni og vinir og ættingjar Friðriks leituðu að líki hans dagana á eftir. Um tíma var veður mjög vont og aðstæður allar erfiðar. Fljótlega hóf rannsóknarnefnd sjóslysa störf og var Harpa rannsökuð í lokuðu húsnæði. Á meðan dvöldu Jónas og Harpa þungt haldin á Landspítalanum. Laugardaginn 17. september, viku eftir áreksturinn, fannst lík Friðriks neðansjávar vestan við Viðey.

Fljótlega fór rannsókn að beinast að Jónasi og Hörpu. Jónas viðurkenndi að hafa drukkið um borð en neitaði að hafa stýrt bátnum. Bæði Jónas og Harpa báru við minnisleysi við mörgum spurningum við rannsóknina og við réttarhöldin. Niðurstaðan varð hins vegar sú að Jónas var talinn hafa stýrt bátnum undir áhrifum áfengis og hlaut hann því, eins og áður segir, þriggja ára dóm fyrir manndráp af gáleysi.

Umfjöllunin ýfir upp gömul sár en samt er gott fá hana

„Ég verð alltaf klökk af því að tala um þetta og á sínum tíma treysti ég mér ekki til að vera í réttarsalnum, en systir mín fylgdist með réttarhöldunum. Maður hefur þurft að opna þessa skúffu núna og ýfa upp gömul sár, sem er erfitt, en það er líka gott. Það er gott að verið sé að fjalla um þessi mál núna því Jónas á ekki skilið að vera á þeim stað sem hann er á í dag,“ segir Inga Rósa Harðardóttir, önnur systir Matthildar heitinnar. Inga Rósa ber þungan hug til Jónasar Garðarssonar:

„Jónas skildi ekki neitt eftir handa aðstandendum þeirra sem dóu af hans völdum, ekki neitt, og iðrunarleysi hans í öllu þessu máli er ekkert annað en viðbjóðslegt. Faðir minn er látinn í dag en að upplifa og horfa á hann syrgja barnið sitt er eitt það erfiðasta sem ég hef gert.“

Inga Rósa birti eftirfarandi stöðufærslu á Facebook-síðu sinni um málið:

Jónas í nærmynd…
Ég mun aldrei fyrirgefa þessum manni fyrir það sem hann gerði…
Matthildur var systir mín.
Að horfa á foreldri sitt syrgja barnið sitt er óbærilegt.
Af virðingu við föður minn skil ég hér eftir hans minningarorð til dóttur sinnar.
?

„Sannast hið fornkveðna, að enginn veit hvað átt hefur, fyrr en misst hefur.
Maddý mín, nú getur þú aðeins verið með okkur í huga okkar og sál. Minningarnar geta aðeins verið fagrar og góðar, eins og þú ávallt varst, hvernig svo sem viðraði.

Fyrstu dagana eftir dánardægur ykkar varst þú stöðugt fyrir hugskotssjónum mínum: Allan tímann aðeins alvarleg og sorgmædd á svip, en um eftirmiðdaginn á laugardag, 17. september, varð sú breyting á, að þá brostir þú á ný.

Við, sem nánast þekkjum þig, vitum hvers vegna. Og okkur fór þá líka að líða svolítið betur.

Við Þórdís kveðjum þig nú, elskan, með eftirfarandi ljóðlínum, sem virðast eiga svo beint við um endaðan lífsferil þinn, elsku, hjartans Maddý.

Háa skilur hnetti

himingeimur,

blað skilur bakka og egg,

en anda, sem unnast,

fær aldrei eilífð að skilið.

(Jónas Hallgr.)

Pabbi og Þórdís.”

 

Erla Ruth: Jónas er gunga, lygari og mannleysa

„Ég viðurkenni að mér er meinilla við þennan mann. Mér finnst hann vera gunga, lygari og mannleysa. Ég hef á honum megna fyrirlitningu,“ segir Erla Ruth Harðardóttir, hin systirin. Erla fylgdist með réttarhöldunum á sínum tíma og ber bæði Jónasi og aðstandendum hans mjög illa söguna fyrir framkomu þeirra í réttarsalnum:

„Hafa ber í huga að við sóttum ekki þetta mál, það var ríkið sem ákærði og okkur voru dæmdar skaðabætur í niðurstöðu dómsins. Saksóknarinn stóð sig mjög vel og við vorum með frábæran réttargæslumann sem stundum gat komið til okkar skilaboðum um málið, það var það eina sem við fréttum, fyrir utan það sem við fréttum í gegnum réttarhöldum og það sem við lásum í blöðunum. Eitthvað sagði lögreglan okkur líka. Kannski hefðum við átt að fara harkalegri leið en við höfðuðum aldrei einkamál og höfum í raun aldrei krafist bóta vegna þess að við höfum ætíð viljað vita sem minnst af þessum manni.“

„Jónas borgaði aldrei eina krónu af bótunum sem hann var dæmdur til að greiða aðstandendum hinna látnu. Hann passaði upp á að hafa allar eignir á nafni konunnar. Þannig að hann var gjaldþrota og gat ekki borgað neitt. Ríkið borgaði einhverja lágmarksupphæð, lögboðinn hluta af dæmdum skaðabótum, en það hefur aldrei komið króna, aldrei komið einseyringur frá Jónasi sjálfum. Hann bjó bara gjaldþrota í sínu fína einbýlishúsi og var með sína fínu bíla, allt á nafni eiginkonunnar. Og hann komst meira að segja yfir vélina úr bátnum þó að hún hafi verið í vörslu lögreglunnar, og tókst að selja hana til Noregs.“

Sp: En hefur hann aldrei beðist afsökunar?

„Beðist afsökunar? Heldur þú að Jónas geti beðist afsökunar? Nei, það getur hann ekki vegna þess að hann getur ekki viðurkennt mistök, af því hann er gunga og mannleysa.“

„Vinir hans og ættingjar tóku þátt í blekkingarleiknum og afneituninni með honum að vissu leyti. Kannski er eðlilegt að styðja alltaf sína nánustu, sama á hverju gengur. En framkoma þessa fólks í réttarsalnum á sínum tíma var með ólíkindum. Þau sátu hægra megin í réttarsalnum og við vinstra megin. Þeirra megin voru alltaf svo mikil fagnaðarlæti. Það var alltaf verið að segja gamansögur og hlæja hátt og innilega. Þetta er ekki framkoma sem þú væntir í réttarsal þar sem verið er að rétta í máli þar sem tvær manneskjur eru nýdánar. Þar sem sonur hans, 11 ára, var næstum því dáinn og konan hans næstum því dáin. Þar sem gamansemi er ekki viðeigandi og fólk situr með sorg í hjarta. Þessi furðulega leiksýning virðist hafa verið sett upp til að sýna að þetta væri ekki á þeirra ábyrgð, að þetta hefði ekkert með þau að gera. Mér fannst þetta vera vanþroski 0g heimska – hann sýndi okkur ofboðslega vanvirðingu.“

Jónas glotti til aðstandenda hinna látnu og blikkaði þá

„Það sem þó gjörsamlega toppaði þessa furðulegu framkomu í réttarsalnum var eitt atvik sem átti sér stað í réttarhléi. Nú var það þannig að ég reyndi að horfa sem minnst á Jónas, mér fannst það mjög óþægilegt. Ekki síst eftir að vera búin að hlusta á ýmislegt efni sem spilað var fyrir réttinum. Það var upptaka af systur minni að hringja örvæntingarfull í Neyðarlínuna. Það var upptaka af konunni hans hágrátandi að biðja Jónas um að svara Neyðarlínunni. Við heyrum hann öskra og segja öllum að þegja. Það var viðbjóður að hlusta á þetta. Sönnunargögnin hrönnuðust upp og flestum mátti vera ljóst að Jónas var að ljúga því að hann hefði ekki verið við stýrið. En svo kemur þarna réttarhlé, við rísum á fætur en Jónas situr kyrr. Við göngum framhjá honum og þarna horfi ég vísvitandi á hann. Móðir Friðriks stóð fyrir aftan mig og horfði líka á hann. Og hvað gerir Jónas? Hann nikkar kollinum, smellir í góm og blikkar okkur skælbrosandi! – Þarna var ég næstum farin að gráta. Ég trúði því ekki að þetta væri að gerast. Hversu lágt er hægt að leggjast?“

Spurningum er enn ósvarað í þessu máli

„Þegar neyðarlínan hafði samband við þau á bátnum voru þau stödd rétt hjá ströndinni við Viðeyjarhöfn. Þau voru svo skammt frá landi að þau hefðu getað synt í land. Hvað veldur því að Jónas kaus að stýra bátnum burtu? Hvað veldur því að hann hlýðir ekki fyrirmælum Neyðarlínunnar um að hreyfa ekki bátinn? Mín sannfæring er sú að hann vildi losa sig við líkið af Friðriki sem fannst ekki fyrr en viku síðar, 17.sept., eftir mikla leit þar sem bæði voru gengnar fjörur og kafarar sendir út, sem svo að lokum fundu hann, eins og áður sagði, viku síður. Friðrik dó þegar siglt var á Skarfasker. Á líki Maddýjar fundust einhverjir áverkir sem ekki hafa verið útskýrðir.“

Ósamræmi í framburði Hörpu í blaðaviðtali og í réttarsalnum

„Árið 2006 birtist viðtal við þau hjón, Hörpu og Jónas, í Séð og heyrt, þar sem þau lýsa yfir sakleysi sínu. Þar eiga þau svo bágt og segja að viðtal sem birt var við okkur systur hefði sært þau svo mikið. Þau sögðust líka óska þess að við öðlumst sálarró. Í viðtalinu segist Harpa muna þetta allt frá A til Ö. En við réttarhöldin bar hún alltaf við minnisleysi við hverri einustu spurningu. Svo í viðtali nokkrum mánuðum seinna man hún skyndilega allt!“

Lokað er fyrir athugasemdir
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Móðirin í Kópavogi ákærð fyrir að reyna að drepa eldri soninn líka

Móðirin í Kópavogi ákærð fyrir að reyna að drepa eldri soninn líka
Fréttir
Í gær

Björn Leví: Þess vegna telja Píratar að ekki sé hægt að vinna með Sjálfstæðisflokknum

Björn Leví: Þess vegna telja Píratar að ekki sé hægt að vinna með Sjálfstæðisflokknum
Fréttir
Fyrir 2 dögum

dk hugbúnaður flytur í nýjar höfuðstöðvar og kynnir nýtt vörumerki

dk hugbúnaður flytur í nýjar höfuðstöðvar og kynnir nýtt vörumerki
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Ljósmyndaði nakinn mann í búningsklefa – Braut gróflega gegn kynferðislegri friðhelgi

Ljósmyndaði nakinn mann í búningsklefa – Braut gróflega gegn kynferðislegri friðhelgi