fbpx
Laugardagur 23.mars 2019

DV - Frjáls og óháður miðill

Fréttir

Kolbrún: Ótrúlegur subbuskapur á Facebook – Öfgakenndar skoðanir sem ofbjóða fólki

Ritstjórn DV
Fimmtudaginn 18. október 2018 09:55

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Á dögunum kvartaði karlmaður undan því á lokaðri Facebook-síðu hversu erfitt væri að vinna með konum. Fyrir vikið missti hann vinnuna. Ekki löngu síðar, einnig á lokaðri Facebook-síðu, deildu femínistar um það hvort karlmenn væru rusl.“

Svona byrjar leiðari Kolbrúnar Bergþórsdóttur í Fréttablaðinu í dag. Vísar hún meðal annars í mál Kristins Sigurjónssonar lektors við Háskólann í Reykjavík og umfjöllun DV frá því á mánudag þar sem greint var frá því að íslenskir femínistar deildu um það hvort karlmenn væru rusl. Umræðan fór fram í lokaða Facebook-hópnum Femínistapotturinn en upphaf umræðunnar má rekja til myndar af húðflúri sem birtist á síðunni. Á því stóð einfaldlega, „Men are Trash“ eða „Karlmenn eru rusl“. Var tekist á um það hvort húðflúrið væri valdeflandi eða einfaldlega karlahatur.

Andrea Gunnarsdóttir hóf umræðuna fyrir helgi en hún deildi mynd af tattúinu umdeilda og sagði: „Vinkona mín fékk sér þetta í dag. Þvílík rokkstjarna.”

Skoðanir um húðflúrið voru skiptar og blönduðu kennarar sér meðal annars í umræðuna.

Hólmsteinn Eiður Hólmsteinsson sagði tattúið rothögg á öll karlrembusvín.

„Ég hef sagt það áður og ég segi það enn, þetta er flott húðflúr hjá þessari konu. Meirihluti nauðgara eru karlmenn. Þeir eru rusl. Kynferðisleg áreitni og önnur óásættanleg hegðun er að mjög stórum frá hendi karlmanna. Þeir eru rusl. Þetta húðflúr er gott rothögg á öll karlrembusvín og alla ofbeldisfulla karlmenn og ég tek ofan hatt minn fyrir þessari konu,“ sagði Hólmsteinn.

Kolbrún segir í leiðara sínum að þessi umræða á Facebook hafi farið fram skömmu eftir að Kristinn Sigurjónsson var rekinn frá Háskólanum í Reykjavík vegna ummæla sem hann lét falla um konur. Þarna hafi konur sem kenna í háskólum lagt sitt til málanna „galvaskar í þeirri vissu að þær muni ekki missa vinnuna þótt þær haldi því fram að oft framkalli það þjáningar að vera innan um karla og þurfa að starfa með þeim.“

Kolbrún heldur svo áfram:

„Þeir sem hafa annað við tíma sinn að gera en að blaðra vitleysu á Facebook, vilja til dæmis sinna vinnu sinni, kunna að furða sig á því af hverju svokallaðar lokaðar Facebook-síður eru ekki meira lokaðar en svo að umræður þar rati auðveldlega í fjölmiðla. Facebook virðist útvarpa öllu sem þar er sagt, sem er vitanlega afar óþægilegt fyrir þá sem tjá sig, sérstaklega þegar skoðanirnar sem þar er lýst eru svo öfgakenndar að þær ofbjóða meirihluta fólks. Skrækir um að konur séu ómögulegar eða að karlar séu rusl og hver og einn þeirra sé ábyrgur fyrir afbrotum kynbræðra sinna gera enga lukku meðal almennings. Sæmilega skynsamt fólk nennir ekki að taka afstöðu í óþörfu kynjastríði, sem á lokuðum Facebook-síðum hefur greinilega leiðst út í ótrúlegan subbuskap.“

Kolbrún segir svo að konum og körlum semji yfirleitt ágætlega í þjóðfélaginu.

„Þar tíðkast ekki að kynin mæti andvarpandi til vinnu hvern dag, þjökuð af þeirri skyldu að þurfa að starfa saman og eiga samskipti. Þau eru bara ósköp kát með það. Það er ekki eins og kona sem á samskipti við karlmann, hvort sem er í vinnu eða annars staðar, virði hann fyrir sér með hryllingi, sjái hann sem holdgerving hins illa feðraveldis og umgangist hann því af tortryggni. Það er heldur ekki eins og karlmaðurinn sjái konuna sem auðvelda bráð sem mögulegt sé að svína á við hvert tækifæri.“

Kolbrún segir að í hinu raunverulega lífi gangi hlutirnir ekki svona fyrir sig – nema í undantekningartilfellum. Það sé því þreytandi þegar alhæft er um annað.

„Í nútímasamfélagi eiga konur og karlar auðvelt með að mætast sem jafningjar. Þegar þau mætast einnig sem vinir þá er það mikið lán fyrir þau bæði. Það er sérlega gefandi og þroskandi að eignast trausta vini af hinu kyninu. Einstaklingur sem býr að því láni getur ekki annað en litið á kynjastríð sem algjöra tímaeyðslu. Með því er hann ekki að hafna því að hallað hafi á konur í gegnum aldirnar og er heldur ekki að neita því að það gerist enn. Hann er einfaldlega að benda á að skætingur milli kynjanna skilar engu uppbyggilegu. Þetta veit þorri fólks. Enda fer svo að þegar blásið er til kynjastríðs þá hvarflar ekki að því að mæta. Það vill sinna uppbyggilegri hlutum, eins og til dæmis þeim að koma fram við aðra af virðingu og hlýju, og um leið skiptir engu af hvoru kyninu þær manneskjur eru.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

Fréttir
Fyrir 2 dögum

Ríkið gæti þurft að greiða milljarða í bætur vegna Guðmundar- og Geirfinnsmálanna

Ríkið gæti þurft að greiða milljarða í bætur vegna Guðmundar- og Geirfinnsmálanna
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Skuggahliðar klónunar Sáms – Veit Dorrit af þessu?

Skuggahliðar klónunar Sáms – Veit Dorrit af þessu?