Þann 11. september næstkomandi verður þingfest mál er varðar þjófnað á 600 tölvum úr þremur gagnaverum. Tölvunum, sem notaðar voru til að grafa eftir Bitcoin, var stolið undir lok síðasta árs og í byrjun þessa árs.
Fréttablaðið greinir frá því í dag að sjö séu ákærðir í tengslum við málið. Á meðal þeirra er Sindri Þór Stefánsson, sem strauk af Sogni fyrr á þessu ári, en var handtekinn í Hollandi nokkrum dögum síðar. Í greininni kemur fram að ekki liggi fyrir hver þáttur hinna sex er í málinu, samkvæmt ákæru.
Tölvurnar sem um ræðir eru metnar á nokkur hundruð milljónir króna en þeim var stolið í innbrotum í gagnaver á Suðurnesjum og í Borgarbyggð. Tölvurnar eru enn ófundnar þrátt fyrir mikla leit en um er að ræða eitt stærsta þjófnaðarmál sem komið hefur upp hér á landi.