Kjartan Sigurðsson atvinnubílsstjóri segist kominn með nóg af fólki sem kúkar og pissar á víðavangi á landsbyggðinni. Á föstudaginn birti hann myndband af konu að kasta af sér vatni við Dettifossi innan Facebook-hópsins Rútu- og Hópferðabifreiða áhugamenn.
Myndbandið hefur hlotið nokkra gagnrýni innan hópsins en Kjartan segir í samtali við DV að hann hafi fengið sig fullsaddan af ferðamönnum sem gera þetta. „Ég sé þetta út um allt land. Þetta fólk skilur eftir sig engan aur, bara saur,“ segir Kjartan.
Líkt og fyrr segir þá hefur myndbandið hlotið nokkuð misjöfn viðbrögð innan hópsins. „Þetta kallar maður að gefa skít í landið, enda greinilega um skítseiði að ræða greinilega,“ skrifar einn maður. Annar segir: „Óskeindur skratti“ meðan sá þriðji segir: „Er svo ekki farið beint í sundlaugarnar en sturtunni sleppt?“
Sumir gagnrýna Kjartan fyrir að birta myndbandið af konunni. „Hvað er að fólki sem kvikmyndar svona?,“ spyr Guðmundur nokkur. Kjartan svarar þessu og segir: „Fólk sem vill vekja athygli og bera virðingu fyrir landinu.“
Eina kona bendir á að flestir karlar geri þetta sama: „Fara karlar inn á kamra og pissa? Held ekki.“ Önnur kona tekur í sama streng: „Það skemmir ekki neitt þó pissað sé á víðavangi ef enginn pappír er skilinn eftir. Þetta hafa karlmenn gert gegnum tíðina athugasemdalaust og án þess að athæfið hafi verið myndað og dreift um heimsbyggðina.“
Einn karl spyr Kjartan hvort hann hafi aldrei gert hið sama: „Kjartan hefur þú aldrei migiđ eđa skitiđ úti í náttúrunni? Reyndu ekki ađ ljúga ađ mér. Ertu líka svona hneikslađur á őllum dýrunum sem gera þetta?“