fbpx
Föstudagur 26.apríl 2024
Fréttir

Ítarlegasta skoðun á tilboðsgjafa í sögu Akraness

Work North uppfyllti allar kröfur í útboðsferlum Hafnarfjarðar og Akraneskaupstaðar

Björn Þorfinnsson
Föstudaginn 3. nóvember 2017 18:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Jafn ítarleg skoðun á tilboðsaðila hefur ekki farið fram áður af hálfu sveitarfélagsins og það þrátt fyrir að félagið hafi unnið fyrir fleiri sveitarfélög,“ segir Sævar Freyr Þráinsson, bæjarstjóri Akraneskaupstaðar, í skriflegu svari til DV. Tilefnið var útboð á niðurrifi Sementsverksmiðjunnar á Akranesi, stærsta verkefni sinnar tegundar í Íslandssögunni, sem fyrirtækið Work North ehf. varð hlutskarpast í. Eins og greint var frá í síðustu viku er mikil reiði meðal annarra verktaka vegna þeirrar staðreyndar að tilboð Work North ehf. var yfirhöfuð tekið gilt. Ástæðan er sú að rekstrarsaga aðila sem tengjast Work North einkennist af gjaldþrotum og ásökunum um misjafna starfshætti. Þá var einnig gríðarleg óánægja með að opinberir aðilar eins og Íslandsbanki, Hafnarfjarðarbær og Akraneskaupstaður væru að koma fótunum undir aðila með slíka sögu. Þá voru efasemdarraddir uppi um að fyrirtækið uppfyllti ítarlega skilmála útboðanna.

Reynsla starfsmanna skipti sköpum

Stjórnarformaður Work North og prókúruhafi er Þórkatla Ragnarsdóttir sem er á meðal þeirra sem undirgengust rannsókn skattrannsóknarstjóra á meintum skattalagabrotum í tengslum við rekstur fyrirtækisins Brotafls. Eiginmaður hennar, Sigurjón G. Halldórsson, var einn af tveimur eigendum fyrirtækisins en hann hefur keyrt mörg fyrirtæki í þrot. Þá er bróðir hans, Guðjón Halldórsson, einn af núverandi eigendum Work North.

Fyrirtækið varð fyrst hlutskarpast í útboði um niðurrif Íslandsbanka á byggingum við Kirkjusand. Næsta verkefni var niðurrif Dvergsins svokallaða við Lækjargötu 2 í Hafnarfirði. Í útboðsskilmálum bæjarins fyrir það verk kom fram að bjóðandi þyrfti að hafa lokið við eitt sambærilegt verk á síðastliðnum fimm árum og því var álitamál hvort Work North uppfyllti ákvæðið. Í svari frá Einari Bárðarsyni, samskiptastjóra Hafnarfjarðarbæjar, kemur fram að bærinn hafi heimild til þess að meta reynslu starfsmanna sem félagið hafi ráðið til verksins. Í ljósi þess hafi Hafnarfjarðarbær talið að skilyrðið um reynslu og hæfni væri uppfyllt.

Byggðu á fjárhagsstöðu móðurfélagsins

Þá fór Hafnarfjarðarbær fram á að meðalársvelta fyrirtækisins síðastliðinn þrjú ár væri að lágmarki sem nemur 50 prósentum af tilboði bjóðanda í verkið. Heildartekjur Work North voru aðeins 780 þúsund árið 2016 en hefðu þurft að vera tugir milljóna til að vel mætti vera. Í svari Hafnarfjarðarbæjar kemur fram að byggt hafi verið á fjárhagslegri getu móðurfélags Work North, GLL ehf., en slíkt sé heimilt samkvæmt 76. grein laga um opinber innkaup. Þá vísar Einar í ákvæði í útboðsgögnum þar sem fram kemur að ef fyrirtæki uppfylli ekki fjárhagsskilyrði samkvæmt ársreikningi þá sé heimilt að leggja fram árshlutareikning áritaðan af löggiltum endurskoðanda. „Að virtu framangreindu taldi kaupandi skilyrði um fjárhagslega stöðu uppfyllta,“ segir í svari Einars. Að hans sögn hafi Hafnarfjarðarbær ekki upplýsingar um annað en að Work North væri í skilum með opinber gjöld og lífeyrisgjöld en það var eitt af ófrávíkjanlegum skilyrðum útboðsins.

Fengu góða umsögn frá Hafnarfjarðarbæ

Eins og komið hefur fram bárust tólf tilboð í niðurrif Sementsverksmiðjunnar en Work North varð hlutskarpast með tilboð upp á 175 milljónir króna. Til samanburðar hljóðaði hæsta tilboðið upp á 994 milljónir króna en kostnaðaráætlun verkefnisins, sem verkfræðistofan Mannvit vann, hljóðaði upp á 326 milljónir króna. „Það er rétt að taka fram að eftir að ljóst var að Work North átti lægsta tilboðið leitaði sveitarfélagið sér upplýsinga um verk sem félagið hafði unnið hjá Hafnarfjarðarbæ fyrir skemmstu. Ástæða þess var að fyrirtækið var nýtt í þessum geira þó að starfsmenn þess virtustu hafa reynslu. Félaginu var borin vel sagan varðandi það verk. Jafnframt var hæfi félagsins skoðað og sú skoðun leiddi ekki í ljós nein atriði sem útilokuðu félagið frá verkinu,“ segir Sævar Freyr.

Að hans sögn var sérstaklega óskað eftir skýringum frá Work North um forsendur tilboðsins enda var það afar lágt miðað við fyrirliggjandi kostnaðaráætlun. „Sérfræðingar sveitarfélagsins mátu þær skýringar trúverðugar,“ segir Sævar Freyr. Enn fremur hafi borist ábendingar til sveitarfélagsins um misjafna forsögu sumra forsvarsmanna fyrirtækisins og því hafi Akraneskaupstaður óskað eftir ítarlegum upplýsingum um eigendur Work North ehf., meðal annars sakavottorð allra hlutaðeigandi. „Í þeim gögnum kom ekkert fram, að mati lögmanna sveitarfélagsins, sem leitt gæti til þess að Akraneskaupstaður gæti hafnað boði Work North.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Móðirin í Kópavogi ákærð fyrir að reyna að drepa eldri soninn líka

Móðirin í Kópavogi ákærð fyrir að reyna að drepa eldri soninn líka
Fréttir
Í gær

Björn Leví: Þess vegna telja Píratar að ekki sé hægt að vinna með Sjálfstæðisflokknum

Björn Leví: Þess vegna telja Píratar að ekki sé hægt að vinna með Sjálfstæðisflokknum
Fréttir
Fyrir 2 dögum

dk hugbúnaður flytur í nýjar höfuðstöðvar og kynnir nýtt vörumerki

dk hugbúnaður flytur í nýjar höfuðstöðvar og kynnir nýtt vörumerki
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Ljósmyndaði nakinn mann í búningsklefa – Braut gróflega gegn kynferðislegri friðhelgi

Ljósmyndaði nakinn mann í búningsklefa – Braut gróflega gegn kynferðislegri friðhelgi