fbpx
Föstudagur 26.apríl 2024
FréttirLeiðari

Sorg og samkennd

Kolbrún Bergþórsdóttir
Þriðjudaginn 24. janúar 2017 08:33

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Allt frá því lýst var eftir Birnu Brjánsdóttur áttu Íslendingar eina heita ósk, þá að hún fyndist á lífi. Fjölmargir leituðu Birnu í fjölmennustu leit í sögu björgunarsveita landsins. Þeirri leit lauk með líkfundi. Öll þjóðin er harmi slegin og syrgir góða og lífsglaða stúlku. Og ekki bara íslenska þjóðin, heldur einnig vinaþjóð okkar, Grænlendingar. Á Grænlandi hefur Birnu verið minnst og kveikt á kertum í minningu hennar. Grænlendingum líður skiljanlega illa vegna málsins og vonandi berum við flest þann þroska að kenna ekki grænlenskri þjóð um voðaverk sem grænlenskur einstaklingur eða einstaklingar kunna að hafa framið.

Á þessum erfiðu dögum höfum við enn einu sinni orðið vitni að því hversu mikil þrekvirki björgunarsveitir landsins vinna, þar er ríkjandi áberandi ósérhlífni, dugnaður og fórnfýsi. Aldrei er gefist upp heldur haldið áfram. Fjölmargir einstaklingar tóku sig svo til og hófu leit upp á eigin spýtur, án þess að vita hvar ætti nákvæmlega að leita. Þeir gátu einfaldlega ekki hugsað sér að sitja aðgerðarlausir heldur vildu leggja sitt af mörkum.

Lögregluyfirvöld hafa staðið sig gríðarlega vel í einstaklega erfiðu og sorglegu máli. Talsmenn lögreglu hafa upplýst fjölmiðla og almenning eftir því sem hægt er og sýnt fagmennsku og yfirvegun sem hefur áunnið þeim virðingu þjóðarinnar. Fjölmiðlar hafa sagt ítarlega frá málinu og vonandi hefur sá fréttaflutningur ekki sært aðstandendur.

Stundum hefur verið sagt um Íslendinga að þeir séu sundurlynd og þrætugjörn þjóð og vissulega eigum við til að opinbera það alltof oft. En það hefur líka sýnt sig að Íslendingar eiga ekki í neinum erfiðleikum með að standa saman sem einn maður, bæði á gleði- og sorgarstundum. Að þessu sinni sameinast landsmenn í sorginni. Það er óendanlega dapurlegt að ung stúlka sem framtíðin virtist brosa við skuli skyndilega og alls óvænt hafa verið hrifsuð burt á svo grimmilegan hátt. Sorgin verður allsráðandi.

Það er mikilsverður eiginleiki að geta sýnt samkennd og það hefur íslenska þjóðin gert á afar fallegan hátt undanfarna daga. Um leið erum við minnt á hversu miskunnarlaus heimurinn getur verið, þar eru þeir ungu og saklausu alltof oft fórnarlömb.

DV sendir foreldrum og aðstandendum Birnu Brjánsdóttur innilegar samúðarkveðjur. Missir þeirra er óendanlega sár og mikill. Þjóðin syrgir með þeim.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Móðirin í Kópavogi ákærð fyrir að reyna að drepa eldri soninn líka

Móðirin í Kópavogi ákærð fyrir að reyna að drepa eldri soninn líka
Fréttir
Í gær

Björn Leví: Þess vegna telja Píratar að ekki sé hægt að vinna með Sjálfstæðisflokknum

Björn Leví: Þess vegna telja Píratar að ekki sé hægt að vinna með Sjálfstæðisflokknum
Fréttir
Fyrir 2 dögum

dk hugbúnaður flytur í nýjar höfuðstöðvar og kynnir nýtt vörumerki

dk hugbúnaður flytur í nýjar höfuðstöðvar og kynnir nýtt vörumerki
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Ljósmyndaði nakinn mann í búningsklefa – Braut gróflega gegn kynferðislegri friðhelgi

Ljósmyndaði nakinn mann í búningsklefa – Braut gróflega gegn kynferðislegri friðhelgi