fbpx
Föstudagur 26.apríl 2024
Fréttir

Lést eftir að hafa verið hengdur með belti á lögreglustöðinni við Hverfisgötu

40 ár frá hroðalegu morði – Lögreglan passaði upp á heiður embættisins

Kristinn H. Guðnason
Miðvikudaginn 19. júlí 2017 11:40

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Settir í „almenning“ fyrir ölvun á almannafæri

Um klukkan níu þriðjudagskvöldið 19. júlí árið 1977, fyrir sléttum 40 árum síðan, var Hrafn Jónsson settur í fangaklefa á lögreglustöðinni við Hverfisgötu. Hann var mjög drukkinn og var látinn sofa úr sér í klefanum ásamt öðrum manni sem var í svipuðu ástandi. Hrafn var 49 ára gamall málarameistari, ókvæntur og barnlaus.

Klukkutíma síðar voru tveir aðrir menn, Grétar Vilhjálmsson og Guðmundur Antonsson sem voru nokkrum árum yngri en Hrafn, færðir í sama klefa. Mennirnir fjórir voru allir góðkunningjar lögreglunnar en ekki þekktir fyrir ofbeldisfulla eða ofstopafulla hegðun. Þeir voru því vistaðir í svokölluðum „almenning“ frekar en í einmenningsklefa þar sem „erfiðari menn“ voru geymdir. Þegar Grétar og Guðmundur voru færðir í klefann virtust Hrafn og hinn maðurinn enn vera sofandi.

Lést í sjúkrabílnum

Um ellefuleytið heyrði lögregluvörður á vakt dynk frá klefanum og fór til að aðgæta mennina. Fann hann þá Hrafn liggjandi, mjög blóðugan í andliti en Grétar og Guðmundur sátu saman vakandi. Guðmundur var með leðurbelti sitt í höndunum.

49 ára málarameistari

Hrafn Jónsson 49 ára málarameistari

Mynd: Morgunblaðið

Þeir tveir voru færðir úr klefanum og Hrafni hagrætt en hann þó látinn liggja áfram þar sem hann virtist ekki hafa hlotið alvarlega áverka. Það eina sem lögreglumennirnir tóku eftir var smá skurður á vör hans. Skömmu seinna tóku þeir eftir því að Hrafn var mjög veikburða og því var ákveðið að hringja á sjúkrabíl. Hrafni var gefið súrefni á lögreglustöðinni en hann lést áður en sjúkrabíllinn náði að koma honum á Borgarspítalann.
Grétar og Guðmundur viðurkenndu árásina. Þeir höfðu barið Hrafn ítrekað í andlitið með hnefunum, brugðið beltinu utan um háls hans og rykkt í. Krufning leiddi í ljós að áverkinn á hálsinum eftir beltið hefði leitt til dauða hans. Fjórða manninum, sem svaf af sér alla árásina, var sleppt eftir skýrslutöku.

Reglum ekki fylgt

Grétar og Guðmundur, sem báðir voru heimilislausir menn, gátu ekki gefið neinar skýringar á árásinni. Þeir voru úrskurðaðir í gæsluvarðhald og voru látnir gangast undir geðrannsókn. Þann 6. desember þetta sama ár voru þeir dæmdir í sakadómi Reykjavíkur og þótti sannað að þeir hefðu banað Hrafni. Hins vegar var það metið svo að andlegur þroski þeirra og geðheilbrigði væri svo ábótavant að fangelsisrefsing væri tilgangslaus. Þeir voru dæmdir til að greiða sakarkostnað og í kjölfarið vistaðir á viðeigandi stofnun.

Dagblaðið vakti athygli á málinu á sínum tíma vegna þess að reglum fangelsins var ekki fylgt. Gæslumaður í fangelsinu við Hverfisgötu sagði í viðtali: „Handteknir menn, sem þarf að fangelsa, skulu sviptir þeim hlutum, sem þeir geta unnið sjálfum sér eða öðrum tjón með. Belti og axlabönd eru meðal þeirra hluta.“

Vakti athygli á handvömm lögreglunnar

Dagblaðið Vakti athygli á handvömm lögreglunnar

Mynd: DV

Enginn innan lögreglunnar var þó látinn sæta ábyrgð og lögreglumenn héldu áfram að taka þessum reglum með léttúð. Ef menn voru fyrirfram taldir rólegir þá fengu þeir að hafa belti sín og axlabönd í klefunum. Rúmu ári eftir morðið á Hrafni Jónssyni fannst maður á þrítugsaldri látinn í fangaklefa sínum í fangelsinu í Hverfisgötu. Hann hafði hengt sig með belti sínu.

Heiður embættisins

Árið 1983 skrifuðu Hallgrímur Thorsteinsson og Egill Helgason grein í Helgarpóstinn sem bar yfirskriftina „Hvað er að í lögreglunni?“. Tilefnið voru mörg mál sem upp höfðu komið í lok áttunda áratugarins og byrjun þess níunda þar sem lögreglumenn annað hvort beittu harkalegum aðferðum eða fylgdu ekki eigin reglum. Eitt þeirra var mál þar sem ungur ölvaður maður var handtekinn í Breiðholti og fannst svo látinn í fangaklefa, drukknaður í eigin ælu.

Í greininni er sagt að þetta eigi ekki við alla lögreglumenn. Gagnrýnin hafi heldur ekki öll komið að utan, heldur höfðu sumir lögreglumenn áhyggjur af hluta lögregluliðsins sem væru varla „starfi sínu vaxnir“ og starfshættir þeirra „með þeim hætti í vissum málum að til vansa sé fyrir lögregluna í heild.“

Heimildarmaður innan lögreglunnar sagði að þegar einhver óþægileg mál komu upp var ávallt reynt að þagga þau niður af lögreglustjórunum. „ekki til að verja þann eða þá lögreglumenn sem í hlut eiga heldur miklu frekar til að verja heiður embættisins. Yfirmönnum er alveg sama um manninn.“

Á þessum tíma voru það algjörar undantekningar að fólk kærði harðræði eða sinnuleysi lögreglunnar. Stefán Benediktsson, þingmaður Bandalags jafnaðarmanna lét sér þessi mál varða. Hann sagði: „Framkoma við þolendur í þessum málum er oft með þeim hætti að fólkið stendur uppi með tilfinningu um algjört öryggisleysi. Það fær ekki að hringja á lögreglustöðinni, það er lokað inni án sýnilegrar ástæðu oft eftir að það hefur verið úti að skemmta sér. Þetta eru erfið mál að taka upp og ég hef grun um það að þessi mál hafi tilhneigingu til að renna út í sandinn.“

„Lögreglan var lokuð stofnun“

Hallgrímur segir nú lögregluna hafa verið miklu lokaðri stofnun á þessum tíma og að þessi hegðun sem lýst er hér að ofan hafi verið vel þekkt hjá lögreglustofnunum um allan heim og á ýmsum tímum.

„Það var ekki komið þetta hugtak um að lögreglan væri með einhvers konar hlutverk sem þjónustustofnun. Það vottaði ekki fyrir þeirri hugsun. Eða að henni væri skylt að standa skil gerða sinna á nokkurn hátt.“ Hann telur þó að þetta hafi „hreinsast út“ að miklu leyti án þess að vita það með vissu.

„Frá sjónarhóli þessara aðila gera lögreglumenn aldrei neitt rangt í starfi“

Hegðun lögreglunnar sem stofnunar á þessum tíma er kannski best lýst í leiðara Jónasar Kristjánssonar í DV árið 1985.

„Fáir hafa aðstöðu og bein í nefinu til að kæra lögregluna og fylgja kærunni á leiðarenda. Það reynir á þolrifin að sitja undir rógi lögreglunnar, lögmanna hennar og klappliðs hennar. Frá sjónarhóli þessara aðila gera lögreglumenn aldrei neitt rangt í starfi. Þeir eru varðir gegnum þykkt og þunnt, allt fram í rauðan dauðann. Þetta stuðlar að ákveðinni hóphvöt, sem lýsa má á þann hátt að hér erum við, vaktin sem stendur saman, en þarna úti í umheiminum er pakkið, fyllibytturnar, þrasararnir, blaðamennirnir og aðrir óvinir okkar, vaktarinnar.“

„Ekki benda á mig“

Árið 1983 gaf Bubbi Morthens út plötuna Línudans sem innihélt lagið „Lög og regla“. Texti lagsins var saminn eftir fréttaflutning af fanga sem átti að hafa dottið út um glugga á meðan yfirheyrslu stóð. Enginn innan lögreglunnar vilji þó bera ábyrgð á því að það hafi gerst. Bubbi segir: „Menn hafa dáið í yfirheyrslum og í fangaklefum um allan heim, sumir af eðlilegum orsökum. En þannig er það nú, að það er erfitt að sækja kerfið til saka, þegar það hefur brotið af sér, og í flestum tilvikum hafa menn, sem reynt hafa að sækja lögregluna til saka, tapað þeim málum.“

Lög og regla

Hvers vegna eru lög og regla
til að fela hitt og þetta?
Blóðug spor og handjárn smella
skýrslur segja „Hann var alltaf að detta“.

Börðu hann í bílnum með kylfum og hnúum
hædd’ann og svívirtu með tungum hrjúfum.
Ekkert sást nema lítið mar
þetta var slys við vorum ekki þar.

Við heyrðum hann kalla, biðja um vatn
kvartaði líka um honum væri kalt.
Seinna um nóttina talaði út í bláinn.
það var ekki fyrr í morgun að við sáum að hann væri dáinn.

Ekki benda á mig, segir varðstjórinn.
Þetta kvöld var ég að æfa lögreglukórinn.
Spyrjið þá sem voru á vakt.
Ég ábyrgist þeir munu segja satt.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Móðirin í Kópavogi ákærð fyrir að reyna að drepa eldri soninn líka

Móðirin í Kópavogi ákærð fyrir að reyna að drepa eldri soninn líka
Fréttir
Í gær

Björn Leví: Þess vegna telja Píratar að ekki sé hægt að vinna með Sjálfstæðisflokknum

Björn Leví: Þess vegna telja Píratar að ekki sé hægt að vinna með Sjálfstæðisflokknum
Fréttir
Fyrir 2 dögum

dk hugbúnaður flytur í nýjar höfuðstöðvar og kynnir nýtt vörumerki

dk hugbúnaður flytur í nýjar höfuðstöðvar og kynnir nýtt vörumerki
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Ljósmyndaði nakinn mann í búningsklefa – Braut gróflega gegn kynferðislegri friðhelgi

Ljósmyndaði nakinn mann í búningsklefa – Braut gróflega gegn kynferðislegri friðhelgi