fbpx
Þriðjudagur 30.apríl 2024
Fréttir

Fólkið sem gerir kommentakerfið brjálað opnar sig

Viðbrögð þeirra við svívirðingum á netinu – Sumir búa við daglega hatursorðræðu – Skítkastið særir aðstandendur

Kristjón Kormákur Guðjónsson
Þriðjudaginn 25. apríl 2017 08:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Þið getið verið breytingin sem þið viljið sjá. Ef þið hættið þessu endalausa væli í kommentakerfunum, þá er aldrei að vita nema þið sjáið að þó að fólk tjái sig um hluti í fjölmiðlum sem skipta ykkur ekki máli persónulega, þá er algjör óþarfi að ráðast á viðkomandi. Jafnvel þó að einhver tjái skoðun sem ykkur finnst alveg út í hött, þá er hægt að draga andann djúpt, skrifa athugasemdina sem átti að fara í kommentakerfið frekar á miða og troða miðanum djúpt upp í rassgatið á sér.“

Þannig komst Atli Fannar Bjarkason, ritstjóri Nútímans, að orði þegar hann fór yfir fréttir vikunnar í Vikunni með Gísla Marteini á RÚV. Innslag Atla Fannars hefur vakið athygli og var innblásið af umfjöllun Vísis og Nútímans af hrakförum Sólmundar Sólmundarsonar, eða Sóla Hólm eins og hann er gjarnan kallaður. Sóli, sem er starfsmaður RÚV, sat fastur í nokkrar klukkustundir í flugvél Wizz air á Keflavíkurflugvelli fyrir skömmu og sagði að um væri að ræða eina af sínum verstu martröðum. Lesendur Vísis höfðu enga samúð með Sóla og kommentakerfið logaði undir fréttinni. Í umfjöllun Atla Fannars á RÚV sagði að sú hegðun virkra í athugasemdum, að rakka niður viðmælendur hefði gert að verkum að fólk forðist nú jafnvel að fara í viðtöl af ótta við að vera tekið fyrir. Atli Fannar sagði:

„Virkir í athugasemdum eru ekki aðeins að skemma eigið mannorð, þeir eru að skemma internetið.“

Um innslag Atla urðu svo til aðrar fréttir þegar blaðamennirnir Atli Fanndal og Jóhann Páll Jóhannsson gagnrýndu Atla Fannar. Jóhann Páll sagði á Facebook:

„Ef óbreyttir borgarar – kannski fólk sem á erfitt og líður ekki vel – dirfast að halla orði á starfsmenn RÚV á kommentakerfum fréttamiðla, mega þeir þá eiga von á því að vera varpað upp á skjáinn í sjónvarpi allra landsmanna á præmtæm, nafngreindir, sakaðir um „væl“ og sagt að troða hlutum upp í rassgatið á sér?“

Þá gagnrýndi Atli Fanndal nafna sinn fyrir að birta skjáskot og myndir af fólki sem hafði tjáð sig um þessar fréttir og endaði í viðtali á Harmageddon, en hann sagði á Facebook: „Þvílík lágkúra af hálfu RÚV að atast í fólki á prime time fyrir að hafa notað væl til að lýsa væli.“

Atli Fannar birti eins og áður segir myndir og skjáskot af ummælum þriggja einstaklinga sem honum fannst tjá sig með óvarlegum hætti. DV ákvað því að slá tvær flugur í einu höggi. Heyra í þeim sem komu við sögu hjá Atla Fannari sem og ræða við þekkta einstaklinga sem hafa fengið það óþvegið í kommentakerfum fjölmiðla í umdeildum fréttum og kanna hvaða áhrif það hefur haft á þau og þeirra nánustu. Þar kom í ljós að flestir viðmælendur DV sögðu meiðandi innlegg særandi og hefðu ættingjar, þá makar og börn, tekið nærri sér að lesa ljót ummæli í kommentakerfum fjölmiðla.

Jón Viðar Jónsson:

„Það sem fólk mér bláókunnugt lætur út úr sér um mig og mína persónu á dv.is eða öðrum slíkum vefsíðum hefur nákvæmlega engin áhrif á mig, ef ég legg þá yfirleitt á mig að skoða það. Ég kannast reyndar ekki við að hafa nokkurn tímann „fengið fyrir ferðina“ eins og ég skil það orðatiltæki: í mínum huga merkir það að vera að fá duglega ofanígjöf eða vera beittur einhvers konar refsingu fyrir eitthvað sem maður hefur sagt eða gert. Það er áberandi, sérstaklega á dv.is, að þar er mikið um að fólk sem á við sálræn vandamál að stríða og auðsæilega haldið mikilli vanlíðan, sé að fá útrás fyrir reiði, beiskju og aðrar neikvæðar tilfinningar. Maður getur vorkennt slíku fólki, en maður tekur það ekki alvarlega, ekki frekar en raus úr drukknum mönnum. Annars er það á ykkar ábyrgð sem ritstýrið miðlunum að birta svona lagað og ykkur sjálfum til mestrar skammar að láta það koma fyrir augu fólks. En það eigið þið við ykkar eigin samvisku og siðferðiskennd. Persónulega skipta þessar sorprennur og þeir sem oní þær stíga mig sem sagt engu, ég hef ekkert frekar um þær að segja annað en það sem ég hef sagt hér og þér er velkomið að birta.“

Atli Fannar Bjarkason:

Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

Hvað er það versta sem hefur verið sagt um þig?
„Ég hef ekki fengið yfir mig gusur sem eru svo rosalegar að ég muni eftir þeim. Annars skiptir engu máli hvernig fólk talar um mig — það er leiðinlegra þegar fólk sem hefur frá einhverju skemmtilegu að segja nennir því ekki vegna þess að það óttast viðbrögðin.“

Hefur þú sagt eitthvað á netinu um aðra sem þú hefur séð eftir?
„Nei.“

„Ættu fjölmiðlar að loka fyrir kommentakerfi? Nei ekkert endilega. En þeir mega vera miskunnarlausir í að ritstýra þeim. Athugasemd er lesendabréf nútímans og fjölmiðlar ákveða hvað þeir birta.“

Fólkið sem var nafngreint hjá Atla Fannari

Atli Fannar Bjarkason nafngreindi þrjár manneskjur í innslagi í þættinum Vikunni með Gísla Marteini. DV náði tali af tveimur þeirra, Guðbjörgu Maríu Jóelsdóttur og Þorkeli Markússyni. Kolfinna Þorfinnsdóttir svaraði ekki síma.

„Ég er orðin heimsfræg,“ segir Guðbjörg María Jóelsdóttir og kveðst ekki hafa gengið of langt þegar hún tjáði sig um Sóla Hólm. „Hann getur þakkað fyrir að vélin lenti. Það var brjálað veður og hann að kvarta undan því að þurfa að hanga í vélinni þegar hann var hólpinn, ég var aðallega að gera grín að þessu og það voru fleiri en ég sem gerðu það. Að kvarta undan þessu, ég get ekki orða bundist. Mér finnst líka óþarfi að tjá sig svona en hann er kannski þekktur þessi maður og því leyfilegt að segja allt mögulegt. Ég var eiginlega að gera gys að honum. Þetta var flipp hjá mér. Mér fannst asnalegt hjá honum að tjá sig svona, ég hef lent í svipuðu en ég er ekkert að kvarta. Ef ég á að taka þetta aftur get ég alveg eins gert það og látið eins og ég hafi ekkert verið að segja þetta, ef ég hef verið að særa hann. Mér finnst ekki gaman ef maðurinn er sárþjáður yfir þessu.“

Ertu sátt við að enda hjá Gísla Marteini?

„Ég sá þetta ekki strax sjálf. Ég er búin að sjá þetta núna og það hefur verið hringt í mig út af þessu. Ég passa mig héðan í frá að vera ekki skrifa eitthvað ef þetta verða afleiðingarnar.“

„Þetta var djúpt innlegg hjá mér og ég er sáttur, sérstaklega þar sem ég fæ athygli út á þetta,“ segir Þorkell Markússon sem staddur er í Madeira í Portúgal. „Ég er upp með mér.“

Sérðu eftir að hafa skrifað þetta?

„Nei, það geri ég ekki. Ég hefði ekki skrifað þetta nema ég hefði meint það. Ég sé ekkert eftir þessu. Hann (Sólmundur) hafði unnið fyrir þessu. Annars hef ég ekkert fylgst með þessu. Ég er bara í sólinni hér á Madeira.“

Margrét Friðriksdóttir:

Mynd: © DV / Kristinn Magnússon

Hvað er það versta sem hefur verið sagt um þig?

„Það er svo margt: t.d. ógeðsleg, heimsk, fáviti, viðbjóðslegur trúarnöttari o.s. frv.“

Tókstu það nærri þér?

„Já, til að byrja með, í dag blokka ég bara svona netníðinga, það virðast líka vera sömu einstaklingarnir oftar en ekki sem stunda þetta, fleiri en ég, sem ég þekki, hafa lent í þeim.“

Hefur breyst hvernig þú tekur niðrandi athugasemdum í dag?

„Já, ég er búin að búa til vissan skjöld gagnvart þessu, leiðinlegast finnst mér þó að venjulegt fólk og jafnvel í fjölskyldunni skuli taka mark á þessu, því þetta er ekkert annað en rógburður og tilraun til þöggunar, þetta fólk hefur ekki nein rök til að styðjast við, ekki má gleyma að mannorð er dýrkeypt og svona hegðun stangast líka á við lög.“

Hefur þú sagt eitthvað á netinu um aðra sem þú hefur séð eftir?

„Já eflaust lenda flestir í því, ég bið líka fólk afsökunar og sé að mér, ef ég segi eitthvað sem ég sé eftir, held að flestir ættu að vera færir um það, við gerum öll mistök, enginn er fullkominn.“

Hafa þær jafn mikil áhrif?

„Einelti fullorðins fólks gagnvart börnunum mínum hefur vissulega áhrif, og mig undrar að fullorðið fólk geti látið skoðanir foreldra bitna á börnum, það særir mig, það er skoðana- og tjáningarfrelsi hér á landi, og þeir sem beita börn andlegu ofbeldi fyrir skoðanir foreldra ættu að líta í eigin barm, þetta er fólki sem virðir ekki skoðana- og tjáningarfrelsið en vill samt láta kalla sig frjálslynt. Ofbeldi er aldrei réttlætanlegt, og hvað þá gegn börnum.“

Hafa þær breytt þér á einhvern hátt?

„Já, maður hugsar stundum hvort maður eigi að hætta að tjá sig, en er þá ekki þöggunarsinninn (fasistinn) búin að vinna, viljum við skerða skoðana- og tjáningarfrelsi fólks í lýðræðislegu samfélagi?“

Ættu fjölmiðlar að loka fyrir kommentakerfi?

„Stundum hef ég velt því fyrir mér, en er það samt sem áður ekki hefting á tjáningarfrelsinu?“

Hefur þú orðið fyrir áreiti eða aðkasti annars staðar en á netinu eftir umdeildar fréttir, úti á götu til dæmis?

„Já, hef fundið fyrir andúð fólks úti á götu og víðar og tengi það beint við skoðanir mínar, og þykir miður hve margir kaupa upplognar fréttir og áróður sem á ekki við nein rök að styðjast, má þar nefna sandkassinn.com.“

Hver er þín skoðun á virkum í athugasemdum?

„Er ekki öllum frjálst að tjá sig.“

Telur þú að fólk forðist viðtöl vegna virkra í athugasemdum.

„Já held það sé mjög algengt.“

Hafa ættingjar tekið athugasemd um þig nærri sér?

„Já, ættingjar hafa misskilið upploginn málflutning sem er settur fram til að reyna að þagga niður í mér. Þá hefur mér ekki verið svarað varðandi atvinnuumsóknir, sem er eitthvað alveg nýtt og ég lenti ekki í áður.“


Freyja Haraldsdóttir:

Mynd: © DV ehf / Sigtryggur Ari

Hvað er það versta sem hefur verið sagt um þig?

„Ég legg mig fram um að forðast það að lesa það sem er sagt um mig í athugasemdakerfum vegna þess að ég óttast að það myndi bæði draga úr hugrekki mínu til þess að stunda aktivisma og eyða of miklu af minni dýrmætu orku. Ég treysti því bara að fólk hafi samband við mig beint ef það á eitthvað mikilvægt ósagt við mig. Hins vegar kemst ég ekki hjá því að sjá sumt og stundum benda aðstandendur mér á það sem þau upplifa að geti ekki verið látið kyrrt liggja. Eitt af því ljótasta sem ég hef séð um mig er að mér hefur verið óskað að verða fyrir sýruárás. Allar aðfarir að mínum líkama og líkamsverund, þá sérstaklega beint að fötlun minni og óhefðbundnu útliti, hafa líka verið mjög ljótar.“

Tókstu það nærri þér?

„Já, sem betur fer særir það mig þegar fólk óskar mér lífshættulegs ofbeldis og smánar mig á grundvelli fötlunar. Ég segi sem betur fer vegna þess að það ber að mínu mati vott um að ég hafi sjálfsvirðingu og þyki vænt um lífið mitt og líkama. Svo er ég auðvitað manneskja með tilfinningar og það er einfaldlega sárt að fá hatursfull viðbrögð við því að nota tjáningarfrelsið sitt til þess að gagnrýna fötlunarfordóma og kvenfyrirlitningu og gölluð kerfi sem undirskipa jaðarsetta hópa.“

Hefur breyst hvernig þú tekur niðrandi athugasemdum í dag? Hafa þau jafn mikil áhrif? Hafa þau breytt þér á einhvern hátt?

„Ég hef verið í aktivisma í áratug og auðvitað hef ég sjóast að ákveðnu leiti og fundið leiðir til þess að takast á við hatur og óvægin viðbrögð í athugasemdakerfum, t.d. með því að lesa þau ekki nema nauðsynlega. Ég hef þó verið meðvituð um að byggja ekki upp alltof harðan skráp vegna þess að ég vil einfaldlega ekki verða of köld gagnvart þessu. Þetta er ákveðin tegund af andlegu ofbeldi og það er mikilvægt að ég takist á við þær tilfinningar sem ég upplifi í tengslum við þetta. Fyrir mig er til dæmis ómetanlegt, sérstaklega ef mikil fyrirlitning brýst fram, að finna fyrir samstöðu, bæði innbyrðis og opinberlega, frá fötluðu fólki, öðru jaðarsettu fólki, samverkafólki og vinum og ættingjum. Það getur skipt sköpum að einhver burðist með afleiðingar af hatursorðræðu með manni. Að vera ekki ein. Athugasemdakerfin hafa vissulega breytt mér, bæði til hins verra og betra. Ég er orðin varari um mig og hræddari við það hvað ég segi og hvernig. Það finnst mér ekki gott og það getur ýtt undir kvíða í mínu lífi. Í hvert skipti sem ég skrifa grein eða stöðuuppfærslu á facebook um umdeild mál er það í raun ekki léttvæg ákvörðun. Hinsvegar hafa þessar athugasemdir, eins öfugsnúið og það nú er, líka stundum gefið mér byr undir báða vængi í mannréttindabaráttu því þau eru afhjúpun og staðfesting á því að það sem ég og annað fólk sem tjáir sig mikið opinberla erum að segja er nauðsynlegt, sérstaklega jaðarsettir hópar. Viðbrögð eru oft tákn um áhrif.“

Hefur þú sagt eitthvað á netinu um aðra sem þú hefur séð eftir?

„Ég hef nokkrum sinnum sett eitthvað frá mér sem ég hef séð eftir framsetningunni á en þegar það gerist legg ég mig fram um að viðurkenna það, draga það til baka og/eða biðjast afsökunar. Hitt er svo annað, sökum þess að ég bý að mörgu leiti við mikil forréttindi sem hvít og gagnkynhneigð millistéttarmanneskja, að ég hef líklega oft sagt eitthvað óviðeigandi en ekki haft hugmynd um það.“

Forðast þú viðtöl vegna virkra í athugasemdum?

„Ég reyni að gera það ekki en ég finn samt að mér finnst oft orðið erfiðara og kvíðvænlegra að fara í viðtöl og tjá mig opinberlega en áður. Það tekur líka frá mér svo mikla orku ef virkir í athugasemdum fara á flug að stundum sleppi ég því oft að tjá mig. Ég hef líka fundið fyrir því í auknum mæli að aktívisminn og athugasemdakerfin eru farin að hafa tilfinnanleg áhrif á ýmsa möguleika mína, t.d. á vinnumarkaði. Fólk virðist því sjá mig eingöngu með augum fjölmiðla eða virkra í athugasemdum en hunsa hæfni mína og álit þeirra sem raunverulega þekkja mig sem manneskju.“

Ættu fjölmiðlar að loka fyrir kommentakerfi?

„Eins og með margt annað er ekkert eitt rétt svar við þessu og margar hliðar á. Mér finnst mikilvægt að fjölmiðlar almennt vandi sig og sýni fagmennsku í framsetningu á sínu efni, því það sem slíkt getur haft mjög mótandi áhrif á hvernig umræður verða í athugasemdakerfum. Jafnframt tel ég mikilvægt að fjölmiðlar séu reiðubúnir að loka fyrir athugasemdakerfi ef viðmælendur óska eftir því og ef efni er augljóslega viðkvæmt eða staða viðmælenda. Þá held ég að auka þurfi eftirlit með athugasemdakerfum, þótt það geti verið umfangsmikið og flókið í framkvæmd kannski, og fylgjast með því ef umræður verða ofbeldisfullar. Ég held hins vegar að svo sé ljóst að við sem manneskjur erum ekki alveg að höndla frelsið sem fylgir netinu og því þurfi að auka fræðslu og umræðu til allra, einkum barna, um hvernig við komum fram við aðra, bregðumst við því ef okkur er bent á og séum fús til þess að biðjast afsökunar. Líkt og annars staðar. Það getur ekki verið gott fyrir tjáningarfrelsið ef við höfum öll frítt spil á netinu til þess að meiða aðra í nafni „skoðanaskipta“.“

Hver er þín skoðun á virkum í athugasemdum?

„Ég held að virkir í athugasemdum sé engin „tegund“ af manneskjum og geti mögulega verið hverjir sem eru. En það virðist einkenna þennan hóp mikill ótti við breytingar, fjölmenningu, sterkar konur og þróun mannréttinda. Þegar fólk viðhefur fordóma og fyrirlitningu í athugasemdakerfum þarf það að átta sig á að um er að ræða ofbeldi, t.d. andlegt, sem hefur tilfinnanleg áhrif á líf brotaþola, öryggistilfinningu, heilsu og lífsgæði, alveg eins og hvert annað ofbeldi.“

Hefur þú orðið fyrir áreiti eða aðkasti annars staðar en á netinu eftir umdeildar fréttir, úti á götu til dæmis?

„Ég hef fengið ónotaleg símtöl og SMS sem lögregla hefur þurft að hafa afskipti af. Ég hef hins vegar stundum upplifað mig óörugga í mannfjölda eftir umdeildar fréttir, kosið að halda mig heima eða yfirgefið staði, þó svo að ekkert hafi gerst nema mögulega augngotur og fyrirlitningarsvipur.“

Telur þú að fólk forðist viðtöl vegna virkra í athugasemdum. Forðast þú að fara í viðtöl?

„Margt fatlað fólk og annað jaðarsett fólk í mínu umhverfi forðast að tjá sig opinberlega vegna virkra í athugasemdum. Sögur þess eru því ekki sagðar, tjáningarfrelsi þess er skert og samfélagið missir af því að njóta þekkingar þess og reynslu sem svo sannarlega gæti oft nýst til umbóta.“

Hafa ættingjar tekið athugasemd um þig nærri sér?

„Já, mín persónulega reynsla er sú að oftast eru ljótar athugasemdir um mig ekki síður sárar fyrir ættingja og vini. Ég hef átt mörg erfið samtöl við börn og unglinga í kringum mig sem særast af umræðum um mig í athugasemdakerfum og þurft að útskýra og réttlæta fyrir nánustu aðstandendum af hverju ég geti ekki hætt í mannréttindabaráttu vegna þess ofbeldis sem ég hef oft orðið fyrir á netinu. Ég skil vel löngun fólks til þess að binda enda á það og biður mig þess vegna að hætta í aktívisma eða hvetur mig til þess. Mér líður svipað þegar ég less óþverra í athugasemdakerfum um fólk sem ég elska. Það er hins vegar engin lausn enda fólk í mannréttindabaráttu ekki ástæðan fyrir því ofbeldi sem virkir í athugasemdum sýna, heldur þeir sjálfir.“

Bubbi Morthens:

„Þetta er orðið svo langvinnt og rennur allt saman,“ segir Bubbi Morthens sem margoft hefur fengið yfir sig fúkyrðaflaum í kommentakerfum fjölmiðla.

„Það hafa alls konar hlutir verið sagðir, sumir verulega ljótir. Þetta fer inn í þig og tekur frá þér orku ef þú sérð ummælin. Ég forðast ekki viðtöl en ég er hættur að tjá mig um ákveðna hluti.“

Ættu fjölmiðlar að loka fyrir kommentakerfi?

„Ég hef ekki skoðun á því hvort fjölmiðlar ættu að loka fyrir ummæli en það myndi gera lífið skemmtilegra hjá öllum ef svo yrði.“

Hefur þú orðið fyrir áreiti eða aðkasti annars staðar en á netinu eftir umdeildar fréttir, úti á götu til dæmis?
„Það er langt síðan. Fólk er hætt að áreita mig úti á götu.“

Hver er þín skoðun á virkum í athugasemdum?

„Ég hef ekki lengur skoðun á virkum í athugasemdum en tek eftir því að það er mikið til sama fólkið sem er orðljótast.“

Hafa ættingjar tekið athugasemd um þig nærri sér?
„Börnin mín hafa tekið hluti inn á sig vegna þess sem hefur verið sagt um mig.“

Ásmundur Friðriksson:

Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

Hvað er það versta sem hefur verið sagt um þig?

„Ég veit það ekki enda les ég nær aldrei kommentakerfi blaðanna en margt hefur verið sagt sem er ömurlegt. Fólk hefur sagt mér ljóta hluti og ekki hægt að ímynda sér að heilbrigt fólk segi slíkt um persónu fólks sem það er ekki sammála. En mér og fjölskyldunni hefur verið hótað ýmiss konar leiðindum og sumu alvarlegu. Barnabarn hringdi í mig eftir lestur á kommentakerfinu og spurði. „Afi, af hverju vill karlinn að við öll fjölskyldan drukknum í jólasúpunni“.“

Tókstu það nærri þér?

„Það er ljóst að illmælgi og árásir á persónu mína hafa áhrif á sálina. Ég er bara mannleg sál, einstaklingur sem er svo fjarri þeim lýsingum sem um mig hafa verið viðhafðar.“

Hefur breyst hvernig þú tekur niðrandi athugasemdum í dag? Hafa þær jafn mikil áhrif? Hafa þær breytt þér á einhvern hátt?

„Maður hefur einhverja brynju fyrir því en illt umtal á mann á bak og ósannindi snerta mann alltaf. En þau halda ekki lengur fyrir mér vöku. Þau breyta manni ekki, heldur herða mig í því að standa fastari fótum á skoðunum mínum. Þá hafa ummælin haft þau áhrif að ég vorkenni fólki sem er fullt af reiði og ég bið fyrir því.“

Hefur þú sagt eitthvað á netinu um aðra sem þú hefur séð eftir?

„Já, og ég hringdi í viðkomandi og bað hann afsökunar á því.“

Forðast þú viðtöl vegna virkra í athugasemdum?

„Nei, þau hafa engin áhrif á það. En fjölskyldan hefur beðið mig að taka ekki þátt í ákveðnum umræðum en þau vita að það er engin leið.“

Ættu fjölmiðlar að loka fyrir kommentakerfi?

„Það er mikil ábyrgð sem fjölmiðlar takast á hendur og gera með því að opna leið fyrir fólk sem vill meiða einstaklinga sem gegna opinberum störfum eða eru í forystu í samfélaginu. Það eru takmörk fyrir því í hvaða mæli fjölmiðlar geta beint ábyrgð á þann sem skrifar sóðaskapinn, því það er fjölmiðillinn sem opnar leiðina og er vettvangurinn. Ef fjölmiðill telur sig geta verið svo lítilmótlegan að leyfa slíkan óhróður um saklausa einstaklinga þá uppsker hann samkvæmt því.“

Hefur þú orðið fyrir áreiti eða aðkasti annars staðar en á netinu eftir umdeildar fréttir, úti á götu til dæmis?

„Nei, aldrei.“

Hver er þín skoðun á virkum í athugasemdum?

„Mínar skoðanir hafa komið fram. Ég vil þó taka fram að það sem ég hef sagt á ekki við þá sem standa í eðlilegum skoðanaskiptum eða ábendingum og koma fram opinberlega undir nafni.“

Telur þú að fólk forðist viðtöl vegna virkra í athugasemdum. Forðast þú að fara í viðtöl?

„Ég get bara svarað fyrir mig. Það hefur ekki áhrif á mig eða mínar skoðanir.“

Hafa ættingjar tekið athugasemd um þig nærri sér?

„Já, og valdið þeim vanlíðan.“

Tara Margrét Vilhjálmsdóttir

Mynd: Kristinn Magnússon

Hvað er það versta sem hefur verið sagt um þig?

„Það versta sem hefur verið sagt um mig kom fram í sérstöku níðbloggi um mig þar sem bloggarinn „tók mig fyrir“ eins og hann orðaði það sjálfur. Þar viðraði bloggarinn þá skoðun sína að ég væri aumingi sem væri að fremja hægt sjálfsvíg og ýjaði að því að ég væri þannig að koma verulega illa fram við ástvini mína. Eins og oftast, þegar um fitufordóma er að ræða, setti viðkomandi þessi orð fram í skjóli heilsufarsáhyggna af mér, hann væri að gera þetta svo ég myndi nú „taka mig á“ og gerast heilsuhraustari. Eins og sést draup umhyggjan alveg af honum.“

Tókstu það nærri þér?

„Ég tók það nærri mér já. Þetta var svo einbeittur brotavilji gegn mér, öðruvísi en þegar einhverju er slengt fram í kommentakerfunum. Innihald athugasemda í kommentakerfum fjölmiðla eru yfirleitt ekki svona rosalega hatursfull, þar hefur fjöldi athugasemdanna mest áhrif. Ég er ýmsu vön í kommentakerfunum en eftir viðtalið mitt við Sindra um daginn varð fjöldi kommentanna svo mikill, á öllum miðlum, að það varð yfirþyrmandi og áhrifin að lokum miklu meiri en af áðurnefndu níðbloggi.“

Hefur þú sagt eitthvað á netinu um aðra sem þú hefur séð eftir?

„Að sjálfsögðu. Það hefur þó aldrei legið að baki illvilji heldur frekar fáfræði. Ég hef alveg verið frontuð með að fara óvarlega með orð mín og þá hef ég séð að mér og beðist afsökunar. Við gerumst öll sek um að segja eitthvað óvarlega og að mínu mati þurfum við ekki að skammast okkur mikið fyrir það nema við neitum að læra af því og hlusta á upplifun hins aðilans. Netið gerir okkur svo auðvelt fyrir að koma skoðun okkur á framfæri hratt og örugglega án þess að við þurfum að staldra við og virkilega hugsa um áhrif orða okkar. Þessvegna þurfum við að læra af mistökum okkar og verða vandvirkari. Virðing er meginstoð heilbrigðra samskipta og þessvegna finnst mér hugmyndin um pólitíska rétthugsun svo sérstök, þ.e. að hún sé slæm. Það er eingöngu verið að gera kröfu á fólk um að það beri virðingu fyrir öllum á jafnan hátt og að þeir komi fram við aðra eins og þeir vilja að aðrir komi fram við þá. Hvað getur mögulega verið slæmt við það?“

Forðast þú viðtöl vegna virkra í athugasemdnum?

„Ég hef ekki forðast viðtöl vegna virkra í athugasemdum, allavega ekki hingað til. Þeir verða alltaf þarna. Hinsvegar ég forðast viðtöl við ákveðið fjölmiðlafólk sem ég treysti ekki til að fara vel með orðin mín. Það er ömurlegt að vera notuð sem click-bait af fjölmiðlafólki og upplifa fyrir vikið að enginn les eða hlustar á það sem ég hef fram að færa vegna leiðandi fyrirsagnar.“

Hefur þú orðið fyrir áreiti eða aðkasti annarstaðar en á netinu eftir umdeildar fréttir, úti á götu til dæmi?

„Nei. Sem sýnir kannski best hvað fólk leyfir sér margt á bak við tölvuskjáina sem það myndi ekki voga sér að segja ef það stæði fyrir framan mann.“

Telur þú að fólk forðist viðtöl vegna virkra í athugasemdum?

Ekki spurning. Fólk forðast ekki bara viðtöl núorðið heldur einfaldlega að tjá sig um umdeild málefni yfirhöfuð, hvort sem það er á facebook, í fjölskylduboðum eða í partýum.

Hver er þín skoðun á virkum í athugasemdum?

„Ég hef svo sem enga sérstaka skoðun. Kannski bara að þeir séu margir hverjir frekar markalausir og hvatvísir og átti sig ekki alveg á áhrifamætti orða sinna. En það má heldur ekki gleyma að virkir í athugasemdum eru ekki bara rotin epli og margir koma með málefnalega umræðu. Umræðan á kommentakerfunum hefur alveg náð að fræða mig um ýmis málefni sem ég veit lítið um, þ.e. ef hún er málefnaleg. Kommentakerfin geta þannig dýpkað umræðuefnið verulega fyrir lesandann og er ekkert nema gott um það að segja.“

Ættu fjölmiðlar að loka fyrir kommentakerfi?

„Nei. Ég hef alveg séð fjölmiðla loka fyrir kommentakerfi þegar um mjög viðkvæm mál er að ræða og mér hefur fundist það takast vel til. Enda er það gert í undantekningartilvikum með allra viðkvæmustu málin. Hef ég hugsað með mér að fjölmiðill ætti að loka fyrir kommentakerfi þegar gróft persónuníð er í gangi, eins ég varð fyrir um daginn? Já, auðvitað. En stundum verður maður bara að standa storminn af sér því oft gegna athugasemdirnar því hlutverki að varpa betra ljósi á ákveðin málefni eins og t.d. fitufordóma og hvernig orðræðan um feitt fólk, sérstaklega feitar konur, birtist í samfélaginu. Umræðan var mjög afhjúpandi og ég held að margir hafi lagt aðra merkingu í orðið „fitufordómar“ eftir að hafa gluggað í kommentakerfin.“

Hafa ættingjar tekið athugasemd um þig nærri sér?

„Mjög. Stormurinn um daginn reyndist mínum nánustu afskaplega erfiður. Bæði að horfa upp á hvernig hann hafði áhrif á mig en líka beinu áhrifin á þau, þau gátu ekki farið á Facebook í heila viku án þess að sjá einhvern drulla yfir mig og holdafar mitt.“

Sema Erla

Hvað er það versta sem hefur verið sagt um þig?

„Verst af öllu þykir mér þegar fjölskyldu minni er blandað inn í hatrið gegn mér og skrifuð eru ummæli um foreldra mína. Það þykir mér vera mesta lágkúra sem til er. Annars koma ummæli eins og „vona að Sema Erla Serðir farist í næstu hryðjuverkaárás skítmenna af hennar tagi (múslimaskítmenna)“ og „Adios réttdræpa hundtyrkja hóra“ fast á hælana á slíku. Þar á eftir koma ummæli eins og að „Sema Erla er hættuleg íslenskri menningu og lífsstíl Íslendinga“ og að „svona lið sem fær að þrífast óáreitt verður samt hættulegt fullveldi Íslands þegar það fær að fjölga sér án mótspyrnu.“ Að það eigi að endurvirkja Tyrkjalögin, að ég sé „íslamisti og isisisti“ og „frænka Erdogans“ er líka ansi vinsælt. Annað er ekki prenthæft.“

Tókstu það nærri þér?

„Ég væri að ljúga ef ég segði að þetta hefði engin áhrif á mig, enda getur enginn búið við nánast daglega hatursorðræðu án þess að það hafi áhrif, og sumt sem er skrifað ristir djúpt. Mér finnst sárt að foreldrar mínir þurfi að lesa svona hræðilega hluti um barnið sitt, sérstaklega þar sem þessir hlutir eru oftar en ekki skrifaðir af öðru fullorðnu fólki sem eflaust á börn og jafnvel barnabörn sjálft.“

Hefur breyst hvernig þú tekur niðrandi athugasemdum í dag? Hafa þau jafn mikil áhrif? Hafa þau breytt þér á einhvern hátt?

„Ég lærði fljótt að láta þetta styrkja mig frekar en veikja í minni baráttu og ég minni mig á það á hverjum degi að svona ummæli segja ekkert um mig heldur allt um þá sem láta þau frá sér.“

Hefur þú orðið fyrir áreiti eða aðkasti annars staðar en á netinu eftir umdeildar fréttir, úti á götu til dæmis?

„Já. Sumir láta sér ekki duga kommentakerfin eða endalaust áreiti á samfélagsmiðlum. Sumir senda tölvupóst og einkaskilaboð, aðrir hringja, og enn aðrir áreita mann úti á götu.“

Hefur þú sagt eitthvað á netinu um aðra sem þú hefur séð eftir?
„Ég hef vanið mig á að skrifa ekkert á netið sem ég myndi ekki segja við manneskjuna ef hún stæði fyrir framan mig. Ég tel það vera ágætis samskiptareglu fyrir netið sem margir mættu tileinka sér. Það gerir mannleg samskipti heilbrigðari og betri. Ég hef líka vanið mig á að vera ekki að tala um annað fólk á netinu, ég tala frekar við fólk, og auðvitað hef ég sagt eitthvað sem ég hef séð eftir (þó það sé ekkert sambærilegt við það sem sagt er um/við mig), hvort sem það er á netinu eða í raunheimum, og þá biðst ég afsökunar á því strax.“

Forðast þú viðtöl vegna virkra í athugasemdnum?
„Nei. Boðberar haturs og öfga munu ekki þagga niður í mér og ýta mér ú túr umræðunni, sama hvað þeir reyna.“

Ættu fjölmiðlar að loka fyrir kommentakerfi?
Nei, ég er ekki viss um að það leysi nokkurn vanda. Kommentakerfin geta verið góð leið fyrir fólk til þess að skiptast á skoðunum og eiga góða umræðu um málefni samfélagsins. Umræðan þarf þó að snúast um málefnin en ekki persónur en því miður snýst hún oftar en ekki um fólk og verður fljót hatrömm og öfgafull. Það er á ábyrgð þeirra sem taka þátt í umræðunni að breyta því og það er ekki erfitt, fólk þarf bara að tileinka sér siðaða og yfirvegaða umræðu. Ég tel það einnig vera á ábyrgð miðlanna sem eru með kommentakerfi að sjá til þess að á þar þrífist ekki hatur og öfgar. Fjölmargir miðlar í Evrópu og víðar eru með skýra ritstjórnarstefnu er varðar nettröll og þá sem nota kommentakerfin til þess að dreifa út hatri. Miðlarnir á Íslandi mættu standa sig betur þegar kemur að því.

Hver er þín skoðun á virkum í athugasemdum?
„Engin.“

Telur þú að fólk forðist viðtöl vegna virkra í athugasemdum. Forðast þú að fara í viðtöl?
„Nei, það geri ég ekki, en ég skil vel þá sem kjósa að sleppa því.“

Hafa ættingjar tekið komment um þig í athugasemdum nærri sér?
„Auðvitað.“

Arnþrúður Karlsdóttir

Hvað er það versta sem hefur verið sagt um þig?

„Það versta er að vera ranglega sökuð um hatursorðræðu.“

Tókstu það nærri þér?

„Já, ég hef gert það og það er mjög alvarlegt að saka fólk um slíkt og mjög erfitt að leiðrétta slíkan rógburð.“

Hefur breyst hvernig þú tekur niðrandi ummælum um þig í dag?

„Ég sætti mig ekkert við niðrandi ummæli. Ég hef t.d. verið með aðila á eftir mér í eitt ár, sem haldin er þráhyggju og það líður varla sá dagur að viðkomandi skrifi ekki eitthvert níð um mig á netinu og það fer versnandi. Nú er sá hinn sami farin að ógna velferð minni og hóta velferðamissi með alvarlegum hætti. Ég hef reynt að kæra viðkomandi en það er ekki hægt, fyrst ég tilheyri ekki minnihlutahópi. Við hin, erum gjörsamlega berskjölduð fyrir svona ofsóknum og rógburði og njótum ekki réttarverndar á sama hátt og minnihlutahóparnir, eins og framkvæmdin er í dag.“

Hafa þau breytt þér?

„Já, að einhverju leyti. Þetta hefur leitt til þess að ég vantreysti sumu fólki og það er vont að upplifa það.“

Hefur þú sagt eitthvað á netinu um aðra sem þú hefur séð eftir.

„Ég hef þurft að svara fyrir mig og svör mín hafa ekki farið út fyrir þann ramma sem telst eðlilegur miðaða við tilefnið. ÉG svara lítið fyrir mig á netinu en ég hef orðið svo reið yfir einhverjum ósannindum að ég hef séð ástæðu til að svara viðkomandi af fullum þunga. Það er mjög andstyggilegt að verða fyrir lygum og illkvittni. Sumir eru svo óánægðir með sjálfa sig og með lágt sjálfsmat að þeir verða að rífa aðra í sig, sérstaklega þá sem láta hendur standa fram úr ermum, vinna og framkvæma hugmyndir sínar.“

Forðast þú viðtöl vegna virkra í athugasemdum?

„Nei, ekki get ég sagt það en ég tala ekki við alla fjölmiðla.“

Ættu fjölmiðlar að loka fyrir athugasemdakerfið?

„Nei, það tel ég ekki og mér finnst mjög mikilvægt að fólk geti tjáð skoðanir sínar á sem flestum stöðum. Netmiðlarnir þurfa hins vegar að vera óhræddir við að henda út þeim sem sýnilega eru með rógburð og illmælgi um aðra. Sumir virðast nota athugasemdakerfin til þess að ráðast að fólki. Venjulega stendur að viðkomandi fjölmiðill áskilji sér rétt til þess að fjarlægja óviðunandi ummæli og þeir eiga ekki að hika við að gera það. Sama gerum við hér á Útvarpi Sögu, við endurflytjum ekki ummæli sem okkur finnast vera á gráu svæði og klippum þau hiklaust út.“

Hefur þú orðið fyrir áreiti vegna frétta um þig á netinu?

„Já, sannarlega hafa ósannar fréttir og ósönn ummæli valdið mér miklu tjóni.“

Hver er þín skoðun á virkum í athugasemdum?

„Þetta er mikið til sama fólkið sem virðist fá útrás fyrir eigin óhamingju og vansæld í lífinu og ræðst á aðra fyrir bragðið. Þetta er jafnvel fólk sem virðist ekki vinna neitt. Ég hef t.d. sagt það stundum að það væri æskilegt að sakavottorðið væri við hliðina á myndinni af þeim sem eru að tjá sig. Síðan er annar hópur sem tjáir sig málefnalega og skynsamlega og það er einmitt vandinn fyrir lesandann að nota gagnrýna hugsun og greina þarna á milli.“

Telur þú að fólk forðist að fara í viðtöl vegna virkra í athugasemdum?

„Ég veit það ekki en það kæmi mér ekki á óvart ef svo væri eða að taka þátt í umræðu á opinberum vettvangi. þetta getur verið eins og að lenda í hakkavél. Það er til einhver furðuleg kenning um það að opinberar persónur eigi ekki að njóta æruverndar, sem er hvergi lögfest heldur aðeins tilbúin kenning.“

Hafa ættingjar tekið kommentum um þig í athugasemdakerfinu nærri sér.

„Auðvitað, fólk sem þekkir mig sættir sig alls ekki við þetta. Ég á fjölmarga vini og kunningja sem hafa þekkt mig í gegnum lífið og sumir hverjir eru miður sín, því þeir vita betur og sjá hvað ósannindin og illkvittnin eru ekki í samræmi við veruleikann.“

Ingólfur Þórarinsson / Ingó veðurguð

Mynd: Mynd: Gunnar Gunnarsson

Hvað er það versta sem hefur verið sagt um þig?

„Það versta sem ég hef lesið um mig var eiginlega það ljótt að eg myndi ekki einu sinni vilja rifja það upp.“

Tókstu það nærri þér?

„Í kannski fyrstu 4 til 5 skiptin sem maður las eitthvað um sig varð maður súr og vonsvikinn en eftir það var maður eiginlega búinn að brynja sig fyrir því. Það sem gerist svo eftir kannski að hafa lesið eitthvað ljótt 20-30 sinnum er að maður fer að taka fólki með meiri fyrirvara.“

Hefur breyst hvernig þú tekur niðrandi ummælum um þig í dag?

„Því miður hefur þetta allt þau áhrif að maður fer ekki að gefa af sér til hvers sem er og auk þess dregur þetta örugglega þrótt úr mörgum til að skapa eða tjá skoðanir sínar. Eftir sem maður hrærist lengur i þessum heimi verður maður í ónæmari þó svo að þeim sem þykir vænt um þig taka svona oftar nærri sér.“

Hafa þau breytt þér?

„Ég forðast að ráðast að einstaklingum eða verkum þeirra a netinu, mer finnst í góðu lagi að gagnrýna kerfi eða hópa en að ráðast að einstaklingum reyni ég að gera aldrei. Gullna reglan er að bera virðingu fyrir fólki þó maður beri ekki endilega virðingu fyrir því sem það segir. Fólk getur haft milljón mismunandi ástæður fyrir sinni sýn á lifið og listina.“

Forðast þú viðtöl vegna virkra í athugasemdum?

„Nei alls ekki, ég er alltaf tilbúinn að segja mína skoðun. Fólki er svo frjálst að ræða hana.“

Ættu fjölmiðlar að loka fyrir athugasemdakerfið?

„Mér finnst kommentakerfi frábær. Ég les yfirleitt komment við fréttir og oft myndast uppbyggilegar umræður í kommentakerfum sem er hægt að læra af. Inn á milli er fólk sem hagar sér fáránlega en maður þarf ekki að taka mark á ómálefnalegum persónuárásum.“

Hefur þú orðið fyrir áreiti vegna frétta um þig á netinu?

„Ég verð yfirleitt alltaf fyrir aðkasti ef ég fer út um helgar stundum neikvæðu, á móti hitti ég líka fólk sem er kurteist og vill oft bara spjalla. Svona áreiti venst þó maður nenni reyndar síður að fara mikið út um helgar eftir gigg til dæmis.“

Hver er þín skoðun á virkum í athugasemdum?

„Mer finnst þeir sem eru virkir i athugasemdum eins og fólk almennt, sumir frábærir aðrir ekki. Mer finnst aldrei ástæða til að skerða frelsi fólks til að tjá sig. Heimskulegar árásir dæma sig sjálfar.“
Telur þú að fólk forðist að fara í viðtöl vegna virkra í athugasemdum?

Eflaust forðast sumir svona viðtöl en eg hvet fólk eindregið til að gera það ekki. Það versta sem gæti gerst er að allir hætti að tjá sig vegna ofstækis háværs minnihluta. Slíkt er svo platform fyrir populista sem tala þá inn í þögla meirihlutann og reynir að segja allt sem sá hópur þorir ekki að segja.

Hafa ættingjar tekið kommentum um þig í athugasemdakerfinu nærri sér.

„Ættingjar gera það alltaf upp að vissu marki, ég varð einu sinni miklu svekktari að sjá bróður mínum úthúðað heldur en mér nokkurn tímann.“

„Vonandi munu fleiri síður bjóða upp á kommentakerfi með tímanum og vonandi munu fleiri vera óhræddir að tjá sínar skoðanir. Við þurfum öll að hætta þessari meðvirkni og taka ábyrgð á tjáningarfrelsi okkar þannig að við leyfum öllum að tjá sig sem mest en tökum ekki nærri okkur þegar einhver snjókorn á samfélagsmiðlunum ætla að reyna að stjórna umræðunni með því að ráðast að persónum.“

Brynjar Níelsson:

Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

„Ég minnist ekki sérstaklega ónotalegra kommenta um mig á netinu og hef ekki tekið nærri mér athugasemdir. Ég svara þeim sem eru svaraverðar en hreyti léttum ónotum þegar þær eru ekki svaraverðar.

Ég hef ekkert breyst vegna niðrandi ummæla um mig og þau hafa nánast engin áhrif á mig. Hef ekki verið svo harðorður sjálfur að ég sjái eftir einstökum ummælum. Hef enga skoðun á því hvort fjölmiðlar eigi að loka fyrir kommentakerfi sín. Þeir meta það sjálfir.“

Hefur þú orðið fyrir áreiti eða aðkasti annars staðar en á netinu eftir umdeildar fréttir, úti á götu til dæmis?

„Ég hef ekki orðið fyrir aðkasti á förnum vegi. Hef enga sérstaka skoðun á virkum í athugasemdum. Þeir sem fara yfir mörkin eru sjálfum sér verstir. Ég er ekki þekktur fyrir að forðast viðtöl og flestir segja að ég sé of mikið í viðtölum. Veit ekki með aðra.“

Hafa ættingjar tekið athugasemd um þig nærri sér?

„Ættingjar mínir hafa ekki haft á orði að þeir taki svívirðingar í minn garð nærri sér. Sennilega finnst þeim ég eiga þær stundum skilið.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 14 klukkutímum

Hera Björk tjáir sig um gagnrýnina – „Ég átti kannski ekki von á því að það yrði legið ofan í öllum viðtölum“

Hera Björk tjáir sig um gagnrýnina – „Ég átti kannski ekki von á því að það yrði legið ofan í öllum viðtölum“
Fréttir
Fyrir 15 klukkutímum

Kemur Baldri til varnar eftir nærgöngular spurningar Morgunblaðsins – „Má spyrja homma að öllu?“

Kemur Baldri til varnar eftir nærgöngular spurningar Morgunblaðsins – „Má spyrja homma að öllu?“
Fréttir
Fyrir 20 klukkutímum

Réttað verður yfir móðurinni á Nýbýlavegi fyrir luktum dyrum

Réttað verður yfir móðurinni á Nýbýlavegi fyrir luktum dyrum
Fréttir
Fyrir 21 klukkutímum

Lögreglan sögð brjóta reglur um einkennismerki – Merki sérsveitarinnar eigi sér enga stoð

Lögreglan sögð brjóta reglur um einkennismerki – Merki sérsveitarinnar eigi sér enga stoð