fbpx
Miðvikudagur 12.ágúst 2020
Fréttir

66°Norður sótti 186 milljónir til Möltu

– Fataframleiðandinn fær greitt vegna dómsmáls sem fyrrverandi forstjóri þess vann í Hæstarétti

Ritstjórn DV
Þriðjudaginn 22. mars 2016 07:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Maltverska félagið Molden Enterprises Limited var á föstudag dæmt til að greiða 66°Norður alls 186 milljónir króna vegna dómsmáls sem fyrrverandi forstjóri fataframleiðandans vann gegn því. 66°Norður höfðaði málið á þeirri forsendu að Molden Enterprises, sem hét áður Egus Inc. og var þá í eigu kvikmyndaframleiðandans Sigurjóns Sighvatssonar, hefði lofað að greiða félaginu kostnað af starfslokum forstjórans. Héraðsdómur Reykjavíkur féllst á það og dæmdi maltverska félagið til að bæta fataframleiðandanum tjónið.

Sigurjón Sighvatsson átti Egus Inc., nú Molden Enterprises Limited, þegar SF II keypti 51% í 66°Norður af maltverska félaginu.
Seldi sig út Sigurjón Sighvatsson átti Egus Inc., nú Molden Enterprises Limited, þegar SF II keypti 51% í 66°Norður af maltverska félaginu.

Mynd: Mynd DV / Róbert Reynisson

Lofaði skaðleysi

Málshöfðun 66°Norður (Sjóklæðagerðarinnar hf.) á hendur Molden Enterprises er í dómi héraðsdóms rakin til kaupa samlagshlutafélagsins SF II á 51% hlut í fataframleiðandanum af maltverska félaginu í júní 2011. Molden var þá eigu Sigurjóns Sighvatssonar en hann og tryggingafélagið Sjóvá-Almennar yfirtóku 66°Norður í janúar 2005. Í samningi Molden og 66°Norður var ákvæði um að fyrrnefnda félagið ábyrgðist að kaupréttur sem Halldór Gunnar Eyjólfsson, fyrrverandi forstjóri 66°Norður, átti samkvæmt ráðningarsamningi væri fallinn úr gildi. Halldór ætti engar kröfur á hendur félaginu. Ef til málaferla um kaupréttinn kæmi myndi maltverska félagið bæta íslenska fyrirtækinu allan kostnað sem væri umfram það sem leiddi af uppgjöri ráðningarsamnings forstjórans.

Halldór Gunnar höfðaði mál á hendur 66°Norður í mars 2012 og rúmum tveimur árum síðar staðfesti Hæstiréttur að fyrirtækið þyrfti að greiða honum 110 milljónir króna vegna kaupréttarins. Lögmenn Molden önnuðust málareksturinn í nafni 66°Norður í samræmi við ákvæði kaupsamningsins frá júní 2011. Í október 2014, einu og hálfu ári eftir að Sigurjón sagði alfarið skilið við fataframleiðandann, krafði 66°Norður síðan maltverska félagið um 186 milljónir króna. Staðfesti Héraðsdómur Reykjavíkur eins og áður segir greiðsluskyldu þess í lok síðustu viku.

Helgi Rúnar Óskarsson var ráðinn forstjóri fataframleiðandans í febrúar 2011.
Eigandi 66°Norður Helgi Rúnar Óskarsson var ráðinn forstjóri fataframleiðandans í febrúar 2011.

Keyptu Sigurjón út

DV hefur ekki upplýsingar um hvort Sigurjón Sighvatsson sé enn eigandi Molden Enterprises. Hann sagði skilið við 66°Norður í mars 2013 þegar hann seldi 49% hlut sinn í fyrirtækinu til SF II sem var þá að fullu í eigu Helga Rúnars Óskarssonar, núverandi forstjóra og eiganda fataframleiðandans, og Bjarneyjar Harðardóttur, eiginkonu hans. Nokkrum mánuðum áður en sú sala gekk í gegn hafnaði Héraðsdómur Reykjaness kröfu félags Sigurjóns um að sýslumaðurinn í Hafnarfirði yrði fenginn til að setja lögbann á að Bjarney fengi að starfa fyrir fyrirtækið. Samkvæmt frétt mbl.is um deilurnar innan eigendahópsins, sem birtist 19. september 2012, var krafan tilkomin vegna meintra starfa Bjarneyjar fyrir Sjóklæðagerðina eftir að ráðningarsamningur við hana rann út.

Einkahlutafélagið Hrós, sem Helgi Rúnar er í forsvari fyrir, var í byrjun mars dæmt til að greiða sjóðastýringarfyrirtækinu Stefni, dótturfélagi Arion banka, 86 milljónir króna ásamt dráttarvöxtum. Héraðsdómur Reykjavíkur staðfesti þá að SÍA I, framtakssjóður í stýringu Stefnis, ætti rétt á viðbótargreiðslu vegna 327 milljóna króna leiðréttingar á gengistryggðum lánum 66°Norður. Eins og kom fram í frétt DV lásu starfsmenn Stefnis um leiðréttinguna í fjölmiðlum í október 2014 eða rúmum tveimur árum eftir að félag Helga keypti SÍA I út úr eigendahópi 66°Norður. SÍA I átti 74% hlut í SF II þegar félagið keypti 51% hlutinn í 66°Norður af félagi Sigurjóns í júní 2011.

Hrós gagnstefndi Stefni fyrir héraðsdómi þar sem þess var krafist að félagið ætti rétt á afslætti af 582 milljóna kaupverðinu sem það greiddi fyrir hlut SÍA I í 66°Norður. Ástæðan væri meðal annars dómsmálið sem Halldór Gunnar Eyjólfsson vann fyrir Hæstarétti. Héraðsdómur Reykjavíkur sýknaði Stefni af kröfu Hróss.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Í vikunni

Fréttir
Í gær

Einstaklingur með lítil einkenni getur verið bráðsmitandi

Einstaklingur með lítil einkenni getur verið bráðsmitandi
Fréttir
Í gær

Uppruni hópsmits í Vestmannaeyjum enn óljós – sjáðu aðferðir smitrakningateymisins

Uppruni hópsmits í Vestmannaeyjum enn óljós – sjáðu aðferðir smitrakningateymisins
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Þýskur ferðamaður endurheimti stolið mótorhjól á síðustu stundu

Þýskur ferðamaður endurheimti stolið mótorhjól á síðustu stundu
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Ekkert smámál að fórna ferðaþjónustunni – Jóhannes segir epli og appelsínur borin saman í umræðunni

Ekkert smámál að fórna ferðaþjónustunni – Jóhannes segir epli og appelsínur borin saman í umræðunni