fbpx
Laugardagur 01.apríl 2023

Alexander Dan semur við eina þekktustu fantasíuútgáfu heims

Enginn vildi gefa út Hrímland á íslensku en nú kemur hún út hjá breska útgáfufyrirtækinu Gollancz

Kristján Guðjónsson
Mánudaginn 19. febrúar 2018 09:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Þetta er skrýtin tilfinning. Ég var búinn að gefast svo oft upp á þessari bók og hef sveiflast svo mikið til – fundist hún einskis virði og svo algjör snilld,“ segir rithöfundurinn Alexander Dan Vilhjálmsson sem sem hefur skrifað undir samning við breska útgáfufyrirtækið Gollancz um útgáfu á fyrstu skáldsögu sinni, Hrímland, og óskrifaðri framhaldsbók hennar. Stefnt er á að bókin, sem á ensku mun nefnast Shadows of the Short Days komi út í febrúar á næsta ári.

Enginn vildi gefa út

Hrímland kom fyrst út á íslensku árið 2014 en Alexander Dan gaf bókina út sjálfur. Hann hafði lengi reynt að finna íslenskt forlag til að gefa hana út, en allt kom fyrir ekki. „Ég var í mörg ár að vinna að þessari bók, sendi hana til forlaga og fékk alls staðar neitanir en vissi aldrei af hverju – hvort að bókin væri bara ömurleg eða hvað. Seinna hef ég heyrt það hafi kannski verið fyrst og fremst af markaðsástæðum,“ segir Alexander en bókin er dystópísk furðusaga sem sækir áhrif jafnt í vísindaskáldskap, þjóðsagnaarf Íslendinga og pólitík samtímans. Furðusögur ætlaðar fullorðnum hafa hingað til ekki þótt vænlegar til árangurs á íslenskum bókamarkaði.

Bókin fékk hins vegar góðar viðtökur og skipaði Alexander sér sess sem einn helsti furðusagnahöfundur landsins af yngri kynslóðinni. „En það var mikið streð að gefa út sjálfur og ég myndi ekki leggja út í það aftur. Ég vil skrifa á íslensku, en ég var eiginlega tilneyddur til að reyna að finna aðrar leiðir til að gefa út,“ segir hann.

„Ég tók eftir því að Gollancz var með opinn innsendingatíma í janúar 2016. Það er óvenjulegt því yfirleitt þarf maður að vera með umboðsmann sem er svo í sambandi við forlögin. Þar sem Hrímland hafði ekki fundið sér farveg heima ákvað ég að nota þetta innsendingarferli sem spark í rassinn til að byrja að þýða hana yfir á ensku. Ég bjóst ekki við neinu heldur átti þetta bara að vera gulrót fyrir mig til að byrja að þýða – bara góður dagdraumur til að láta sig dreyma.“

Ég var í mörg ár að vinna að þessari bók, sendi hana til forlaga og fékk alls staðar neitanir en vissi aldrei af hverju

Var búinn að gefast upp á bókinni

Yfir 2000 handrit bárust til Gollancz eftir að opnaði fyrir innsendingar, enda er forlagið fornfrægt og vinsælt. Í dag er það hluti af útgáfurisanum Orbit sem er ein allra stærsta útgáfan á sviði vísindaskáldskapar, fantasíubókmennta og furðusagna á hinum enskumælandi bókamarkaði.

„Ég fékk engin svör í eitt og hálft ár eftir að ég sendi handritið inn. Ég bjóst við að svaraleysið væri höfnun og gleymdi þessu bara. Á einhverjum tímapunkti fór ég svo að velta fyrir mér hvað ég væri eiginlega að gera að þýða þessa bók sem enginn vildi gefa út. Ég ákvað að hætta að pæla í þessu og skrifa eitthvað annað, gafst upp og fór að vinna í nýrri bók,“ segir Alexander Dan – en sú bók, Vættir, er nú langt á veg komin.

„Í ágúst fékk ég svo allt í einu póst frá Gollancz þar sem ég var spurður út í handritið. Ég var frekar sjokkeraður og fór í mikið kvíðakast því ég hafði aldrei klárað þýðinguna. Yfirleitt fær maður bara hreint nei ef maður sendir inn óklárað handrit. Ritstjórinn sýndi mér hins vegar ótrúlegan skilning og gaf mér nokkrar vikur til að þýða – ég tók alla morgna fyrir vinnu og öll kvöld í nokkrar vikur í það að klára.“

Verður mikil keyrsla

Eftir að handritið og hugmyndir Alexanders að nokkrum öðrum bókum voru kynntar á stórum fundi hjá Gollancz var ákveðið að bjóða honum tveggja bóka samningur, fyrir Hrímland og óskrifaða framhaldssögu.

Alexander ætlar að þróa bókina áfram með ritstjórum Gollancz – Shadows of the Short Days verður því frekari úrvinnsla en ekki nákvæm þýðing af Hrímlandi. „Um leið og handritið er komið í skikkanlegt form fer ég svo í gang með næstu bók. Þetta verður því mikil keyrsla,“ segir hann. Sú bók mun gerast í sama heimi og Hrímland, nokkrum árum síðar. Bókin mun gerast að hluta til í Vestmannaeyjum, þar munu aðrar persónur verða í aðalhlutverki en þó munu örlög og saga fyrri bókarinnar skipta miklu máli.

En hvernig er með launin, gerir þessi samningur þér kleift að einbeita þér algjörlega að skrifunum?

„Stórar fyrirframgreiðslur eru bara í boði fyrir einhverjar sleggjur og stóra metsöluhöfunda – hjá mér skiptist greiðslan niður á langt tímabil. Það sem blasir við hjá mér núna er tveggja ára vinna og það sem ég fæ er engan veginn nóg fyrir það – þó að þetta væri bara eins árs vinna þá væri þetta samt ekki nóg. Það væri ekki fræðilegur möguleiki að ég gæti klárað þetta verkefni nema vegna þess að ég fékk úthlutuðum 6 mánuðum í listamannalaun. Það var mjög erfitt að bíða eftir fréttunum í janúar, hvort ég fengi nokkuð yfirhöfuð,“ segir Alexander, en hann var einn af þremur rithöfundum undir þrítugu sem fengu úthlutað starfslaunum rithöfunda í ár.

Það væri ekki fræðilegur möguleiki að ég gæti klárað þetta verkefni nema vegna þess að ég fékk úthlutuðum 6 mánuðum í listamannalaun.

Íslenska furðusagan fæðist

Alexander segir að þó hann sé búinn að skrifa undir samning um útgáfu nýrrar bókar á ensku muni hann ekki segja skilið við íslenskan bókamarkað eða skrifa á íslensku. Hann leitar að útgefanda fyrir bókina Vættir sem er á lokametrunum en svo segist hann ætla að skrifa áfram á íslensku, jafnvel þó að samningurinn tryggi aðeins að bækurnar komi út á ensku. „Ég mun frumskrifa framhaldsbók Hrímlands á íslensku og svo þýða hana jafnóðum yfir á ensku. Ég verð að skrifa hana á íslensku til að það sé ákveðið flæði í henni,“ segir Alexander.

Hann segir mikla grósku vera í íslenskri furðusagnagerð, þróun sem hann er og vill vera hluti af. „Ég vil meina að þetta sé ennþá algjörlega ónýttur vettvangur í íslenskum bókmenntum. Íslenska furðusagnasenan er hins vegar að verða til, það eru margir höfundar að stíga fram og gera ótrúlega magnaða hluti – Hildur Knútsdóttir og Emil Hjörvar til dæmis. Þetta er svolítið eins og þegar glæpasagan var að byrja hér. Þá var fólk óvisst hvort það væri yfirhöfuð hægt að skrifa íslenskar glæpasögur en núna er norræna glæpasagan orðin þekkt undirgrein í glæpasagnageiranum. Þetta sama er að gerast með íslensku furðusöguna.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Edda Falak braut lög

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 2 klukkutímum

Hopp stofnar leigubílaþjónustu – „Næsta skref í byltingunni gegn einkabílnum“

Hopp stofnar leigubílaþjónustu – „Næsta skref í byltingunni gegn einkabílnum“
433Sport
Fyrir 2 klukkutímum

Fékk sér húðflúr af vini sínum eftir sigurinn í fyrra – Sjáðu verkið magnaða

Fékk sér húðflúr af vini sínum eftir sigurinn í fyrra – Sjáðu verkið magnaða
433Sport
Fyrir 3 klukkutímum

Segir að Manchester United þurfi að losa tíu leikmenn í sumar – Nöfnin koma verulega á óvart

Segir að Manchester United þurfi að losa tíu leikmenn í sumar – Nöfnin koma verulega á óvart
Fréttir
Fyrir 4 klukkutímum

Héraðsdómari kærir Margréti Friðriks fyrir meiðyrði – „Hvað varð um tjáningarfrelsið?“

Héraðsdómari kærir Margréti Friðriks fyrir meiðyrði – „Hvað varð um tjáningarfrelsið?“
Pressan
Fyrir 15 klukkutímum

Báru loks kennsl á konuna með sporðdreka tattúið

Báru loks kennsl á konuna með sporðdreka tattúið
433Sport
Fyrir 15 klukkutímum

Staðfestir það að hann væri í erfiðleikum með að hafna Bayern Munchen

Staðfestir það að hann væri í erfiðleikum með að hafna Bayern Munchen
Fókus
Fyrir 17 klukkutímum

Myndband: Barn reiðinnar – Beth var aðeins sex ára þegar hún kom fram í sjónvarpi og sagðist vilja myrða fjölskyldu sína

Myndband: Barn reiðinnar – Beth var aðeins sex ára þegar hún kom fram í sjónvarpi og sagðist vilja myrða fjölskyldu sína
433Sport
Fyrir 17 klukkutímum

FH áfrýjar dómnum – ,,Knattspyrnudeild FH hefur staðið skil á öllum greiðslum til leikmannsins“

FH áfrýjar dómnum – ,,Knattspyrnudeild FH hefur staðið skil á öllum greiðslum til leikmannsins“