fbpx
Föstudagur 04.júlí 2025

Snjallt verðlaunaverk

Kristján Guðjónsson
Þriðjudaginn 24. janúar 2017 15:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Höfundur: Bryndís Loftsdóttir.

Nýjum erlendum verkum hefur ekki beinlínis rignt á svið stóru leikhúsanna á liðnum misserum og því ástæða til að draga fram sparifötin áður en haldið er á bandarískt verk í Borgarleikhúsinu. Höfundur verksins, Annie Baker, var aðeins 27 ára þegar fyrsta verk hennar var frumsýnt í New York. Sex árum og nokkrum leikritum síðar, árið 2014, hlaut hún Pulitzer-verðlaunin fyrir Ræmuna. Það má geta þess að síðan hún fékk verðlaunin hafa tvö verk til viðbótar unnið til Pulitzer-verðlaunanna og tæpt ár er síðan Ræman var sýnd í Þjóðleikhúsinu í London. Þær mættu gjarnan vera tíðari, handritaferðirnar hingað til lands.

Óvænt plön í gömlu kvikmyndahúsi

Verkið stendur undir öllum væntingum, það er fyndið, sárt og satt en þó fyrst og fremst fyndið. Sögusviðið er gamalt kvikmyndahús þar sem þeir Siggi og Andrés sjá um að þrífa salinn á milli sýninga og hin dyntótta Rósa stjórnar sýningarvélinni. Undir óspennandi yfirborðinu krauma óvænt plön, plott og örlög. Umfram allt opinberar verkið þó takmarkaða samskiptahæfileika söguhetjanna með grátlega hlægilegum hætti. Handritið er sennilega svolítið stytt, en maður saknar einskis og hefði ekki viljað hafa sýninguna mikið lengri. Þýðing Halldórs er skemmtileg og vel lukkuð sem slík, en það vantaði svolítið upp á að leikararnir tryðu á íslensku staðfærsluna.

Það má svo í framhjáhlaupi geta þess, að manni finnst eins og þetta sé eitt fárra verka stóru leikhúsanna þessa dagana, þar sem aðstandendur hafa sleppt því að bera fram pólitískar yfirlýsingar úr íslenskum samtíma. Það er skiljanlegt að listamenn vilji tjá sig um málefni líðandi stundar en rannsóknarefni hvort nálgun þeirra að undanförnu hafi haft einhver áhrif á áhorfendur. Þá má þakka aðstandendum Ræmunnar fyrir að gefa áhorfendum smá hvíld frá þeirri hugmynd að láta sviðsmynd verksins teygja sig út úr salnum og fram í anddyri leikhússins eins og algengt hefur verið að undanförnu. Poppvél á barnum hefði verið svo fyrirsjáanleg.

Gulltryggð kvöldskemmtun

Leikritið stendur og fellur með frammistöðu leikaranna og þeir standa vel undir væntingum og töfra fram allan þann húmor sem finna má í verkinu. Hjörtur Jóhann fer á kostum í hlutverki Sigga, strekktur, kappsamur og fyndinn en samt einlægur og sannur. „Sigginn“ hans Hjartar er í raun svo vel heppnaður að mann langar gjarnan til þess að fylgjast áfram með lífi hans, eftir að handritinu sleppir.

Davíð Þór Katrínarson stígur hér sín fyrstu spor í íslensku leikhúsi, eftir nám í Los Angeles. Það er mikilvægt fyrir unga leikara að fá tækifæri til þess að stíga á svið stóru leikhúsanna og ekki síður ánægjulegt fyrir áhorfendur að fá að kynnast nýjum listamönnum. Davíð Þór fór vel með vandasamt hlutverk Andrésar, en þyrfti að slípa betur bæði framsögn og raddbeitingu.

Kristín Þóra er frábær gamanleikkona og nýtti þá hæfileika sína vel í verkinu. Helst mætti setja út á að hún hafi á köflum verið svolítið yfirborðsleg í hlutverki sínu sem Rósa, einlægnin ekki alveg trúverðug. Kannski vantaði svolítið íslenskari grunn í karakterinn til þess að staðfærslan gengi betur upp.

Texti verksins er svo fyndinn að hann bætir að mestu leyti upp tilbreytingalausa sviðsmynd og síendurteknar poppkornssópanir leikaranna. Leikstjóri verksins, Dóra Jóhannsdóttir, hefði ef til vill getað kokkað upp hugmyndaríkari útfærslu á því hvernig tveir íslenskir strákar þrífa bíósal en henni tókst vel að koma inntaki verksins til skila ásamt auðvitað húmornum.

Leikmyndin er ekki mjög frumleg, áhorfendur sitja á svæði þar sem sýningartjaldið ætti að vera og horfa beint fram í lítinn bíósal. Það hefur hins vegar verið nostrað ágætlega við smáatriðin, það má t.d. sjá fitubletti á veggnum fyrir aftan síðustu sætaröð, þar sem sviti og fjölbreyttar hárvörur hafa safnast saman í höfuðlaga bletti á vegginn. Lýsingin var vel unnin, skapaði einmitt þessa rómantísku stemningu sem einkennir sýningarsali með sál.

Ræman er einstaklega fyndið verk og frábært sýnishorn bandarískrar handritagerðar. Flottir leikarar sem fara á kostum og skapa áhorfendum gulltryggða kvöldskemmtun.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 10 klukkutímum

Leikarinn Michael Madsen látinn

Leikarinn Michael Madsen látinn
Fréttir
Fyrir 10 klukkutímum

Harmleikurinn á Edition-hótelinu – Gæsluvarðhald framlengt um fjórar vikur

Harmleikurinn á Edition-hótelinu – Gæsluvarðhald framlengt um fjórar vikur
Eyjan
Fyrir 12 klukkutímum

Deilir kostulegri ræðu Ingibjargar til að sýna fáránleika málþófsins – „Eeee…hvaða umsögn var ég að fara yfir?“

Deilir kostulegri ræðu Ingibjargar til að sýna fáránleika málþófsins – „Eeee…hvaða umsögn var ég að fara yfir?“
433Sport
Fyrir 12 klukkutímum

Halla heimsótti hótel Stelpnanna okkar – Hrósað fyrir að lyfta liðinu upp

Halla heimsótti hótel Stelpnanna okkar – Hrósað fyrir að lyfta liðinu upp
Fréttir
Fyrir 14 klukkutímum

Hundur Magnúsar talinn hafa farist með honum í sjóslysinu

Hundur Magnúsar talinn hafa farist með honum í sjóslysinu
433Sport
Fyrir 14 klukkutímum

United sagt setja meiri kraft í Watkins – Gengur lítið með Gyokeres og Mbeumo

United sagt setja meiri kraft í Watkins – Gengur lítið með Gyokeres og Mbeumo
Fókus
Fyrir 15 klukkutímum

Katrín segist ekki geta starfað eðlilega eftir krabbameinsmeðferðina – „Mjög erfitt“

Katrín segist ekki geta starfað eðlilega eftir krabbameinsmeðferðina – „Mjög erfitt“
Fókus
Fyrir 15 klukkutímum

Útgáfuteiti á föstudag: Hugmyndir um Ísland og Grænland í gegnum tíðina

Útgáfuteiti á föstudag: Hugmyndir um Ísland og Grænland í gegnum tíðina