fbpx
Föstudagur 23.október 2020

Sigurlaug útvarpsdrottning um listina að njóta – „Það mikilvægasta sem hefur komið fyrir mig.“

Tobba Marinósdóttir
Laugardaginn 10. október 2020 08:00

Silla er sannarlega drottningin í Efstaleitinu. Mynd: Valgarð Gíslason.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Helgarviðtal DV birtist 2. október 2020

Sigurlaug Margrét Jónasdóttir er ein ástsælasta útvarpskona landsins. Hún man ekki eftir því að hafa byrjað á RÚV enda er hún uppalin á göngum Ríkisútvarpsins og vill helst hvergi annars staðar vera.

Sigurlaug er dóttir útvarpsmannsins Jónasar Jónassonar og dagskrárgerðarkonunnar Sigrúnar Sigurðardóttur. Afi Sillu, eins og hún er kölluð, var Jónas Þorbergsson útvarpsstjóri, svo ástríðan fyrir útvarpinu hefur sannarlega gengið í ættir.

Fleira en ástríða fyrir fjölmiðlum hefur þó erfst þar sem samheldni fjölskyldunnar er með eindæmum og virðist það einnig ætla að fylgja næstu kynslóð. Þetta sést einna best á því að tveir afleggjarar fylgja Sillu í dag. Dóttir hennar og dótturdóttir sem er sex mánaða og brosir að öllu sem amma gerir.

„Mörgum finnst þetta örugglega skrítið. Við erum bara eins og ein klessa. Þetta byrjaði með mömmu og pabba. Við unnum saman, bjuggum saman og ferðuðumst saman. Það er kannski dálítið galið en einhvern veginn var þetta stórkostlegt og okkar gæfa. Við keyrðum saman í vinnuna, unnum, komum við í fiskbúðinni á leiðinni heim og settumst við kringlótta eldhúsborðið og fórum að tala um útvarp. Alltaf að tala um útvarp. Þetta var mín æska.“

Foreldrar Sillu létust bæði úr krabbameini, Jónas árið 2011 og Sigrún árið 2017. Silla segist sakna þeirra á hverjum degi. „Það er bara þannig. Ég hélt að það myndi fjara út en ég sakna þeirra á hverjum einasta degi en það er ljúfsárt því við áttum svo gott líf saman.“

Pabbi þinn trúði á líf eftir dauðann. Finnur þú eitthvað fyrir þeim í húsinu?„Nei, og ég er brjáluð yfir því.“
Komast þau bara nokkuð fyrir, eru ekki öll börnin þín enn heima? „Jú, jii – og barnabörn og makar. Þau komast bara ekki fyrir. Þau koma kannski við þegar ég fer að senda börnin mín út í lífið og það léttir á húsinu. Það verður gaman að finna ilmvatnslyktina hans pabba. Ég hlakka til.“

Kynþokki og kakósúpa

Silla hefur lengi þótt ein mest sjarmerandi fjölmiðlakona landsins og rödd hennar þykir umvefja hlustandann hlýju en hún er með vinsæla þætti á Rás 1 sem kallast Segðu mér. Hún hefur starfað á RÚV nánast frá fæðingu að undanskildum sex mánuðum á Stöð 2. Útvarpskonan hljómþýða hefur verið útnefnd ein af kynþokkafyllstu konum landsins en gefur ekki mikið fyrir það og hlær hátt og innilega þegar hún er spurð út í kynþokkann.

Á lista yfir Kynþokkafyllstu konur landsins sem birtist á DV.is fyrir þremur árum er henni lýst sem grískri gyðju sem bætir í kynþokkann hvert ár og segist álitsgjafinn helst vilja láta hana lesa sig í svefn á hverju kvöldi. Annar segir það skyldu að setja hana í sjónvarp og segir hana með einstakan limaburð sem líkist einna helst gasellu sem líður um Útvarpshúsið.

Þegar upplestrinum úr greininni lýkur hlær Silla enn meira. „Þegar ég las þetta á sínum tíma þá las ég gas-eðlu og hugsaði að það væri nú líklega eitthvað hræðilegt,“ segir hún en álitsgjafarnir höfðu nú nokkuð til síns máls.
Þegar nýr útvarpsstjóri, Stefán Eiríksson, tók við embættinu fyrir skemmstu var það eitt hans fyrstu verka að birta 10 ára gamla færslu á Facebooksíðu sinni þar sem hann hafði skrifað: Flottur þáttur hjá Sigurlaugu Margréti Jónasdóttur og spurningin er; af hverju er hún ekki oftar í sjónvarpinu?

Stefán endurbirti færsluna eftir að hann tók við sem útvarpsstjóri og skrifar: Óskandi að ég þekkti einhvern sem gæti gert eitthvað í þessu. Og nú spyr ég Sillu, er verið að gera eitthvað í þessu? Hún kímir. „Ég er eitthvað að fara að gera.“
Hvað þýðir það? „Ég á mér drauma. Það er þetta með matinn. Ég er alltaf með hann á heilanum,“ segir hún.

Og það er rétt. Marinn hvítlaukur og gott rauðvín eru hluti af þeim lífsgæðum sem hún heldur fast í. „Mataráhuginn er kominn frá ömmu Sillu. Hún bjó við hliðina á okkur í Eskihlíðinni og ég borðaði alltaf heitan mat í hádeginu hjá henni. Mér fannst hún gera besta mat í heimi og svo var alltaf kakósúpa eða hrísgrjónagrautur á eftir.“

Sigurlaugu M Jónasdóttir. Mynd: Valgarð Gíslason


Grátið af gleði

Hún segist snemma hafa áttað sig á að hún hefði tilfinningu fyrir matargerðarlistinni. „Ég var mjög þakklát þegar ég áttaði mig á að ég get búið til góðan mat, svo þegar við fluttum til Flórens í eitt ár þegar Torfi fór í gullsmíðanám, þá bara gerðist eitthvað. Það var eins og ný vídd. Upplifunin að versla á matarmarkaðnum og fá alltaf gefins rucola (kletta-salat) með var stórkostlegt. Ég vissi ekki hvað það var þegar við fluttum þarna út. Og lyktin af því. Dásamleg. Við áttum ekki mikinn pening en alltaf nóg fyrir pasta og smá rauðvíni. Það var bara grátið af gleði hvern dag. Þetta var svo stórkostlegt.

Sonur okkar var þá tveggja ára og ég keypti ís handa honum alla daga. Hann hafði ekkert sérstaklega mikinn áhuga á ísnum – en ég hafði það. Ég sleppti ekki úr degi. Ís alla daga. Mér fannst þetta svo stórkostlegt. Þetta er að njóta lífsins. Þetta er það mikilvægasta sem hefur komið fyrir mig. Að kynnast nýrri menningu, það verða allir að upplifa það að búa í öðru landi.“

Silla segist hafa fylgst náið með nágrannakonunum sem voru alltaf með tuskuna á lofti að þrífa stigana, viðra hitt og þetta. Hún tók því fljótlega upp á því sjálf að vera alltaf að viðra eitthvað út um gluggann, vera með matinn tilbúinn klukkan sex og sjúga í sig menninguna og hefðirnar í kring.

„Þetta var svo skemmtilegt. Svo hjóluðum við um, hristum mottur og drukkum rauðvín. Það var þarna eitt kvöld sem við ákváðum að fá okkur ekki rauðvínsglas með kvöldverðinum og ég man að við vöknuðum og horfðum á hvort annað og ákváðum að þetta myndum við ekki gera aftur. Bara aldrei,“ segir hún og hlær og undirstrikar að lífið sé til þess að njóta.
„Það er bara eitthvað við það að merja hvítlauk og fá sér eitt rauðvínsglas.“

Að þora að þegja

Hún segir að enn þann dag í dag, áratugum eftir að hafa stýrt sínum fyrsta útvarps-þætti, sé græna útsendingar-ljósið það besta í heimi. „Mér líður best í beinni útsendingu. Græna ljósið og allt er gott. Það er ekki sjálfsagt að finnast alltaf jafn gaman að ganga inn í húsið og vita ekki hvernig þátturinn verður, hvað ég fæ út úr mínum viðmælanda. Hvað ætlar hann að segja mér? Hverjir hlusta, ekki það að ég hafi nokkurn tímann hugsað mikið um það.“

Það sést langar leiðir að starfið er órjúfanlegur hluti af Sillu og samofið flestu sem skiptir hana máli. Arfleifðinni og fjölskyldunni. Áhuginn á fólki og sögum þess. „Almennt hef ég mestan áhuga á því hvernig fólk lifir af. Hvernig það lifir erfiðleika og já, lífið, af. Þegar fólk gefst ekki upp. Ég er sjálf þannig. Ég heimta það ekki að vera hamingjusöm en maður reynir. Og það er frábært. Fólk sem notar húmorinn, það finnst mér líka geggjað. Að því sögðu hef ég fengið ábendingar um að ég hlæi of mikið í útsendingu,“ segir Silla og hlær.

„Kannski hlæ ég of mikið. Ég veit það ekki.“

En hefur þú aldrei fengið einhvern í viðtal sem hafði enga sögu? Ekkert að frétta?
Einu sinni. Á öllum þessum tíma bara einu sinni. Ég var farin að íhuga að spyrja viðkomandi út í skóstærð. Það var bara ekkert að frétta. Annars hefur fólk alltaf eitthvað að segja. Pabbi var minn kennari og þegar hann var búinn að sannfæra mig um að maður ætti ekki að óttast þögnina, þá held ég að ég hafi fyrst orðið þokkaleg útvarpskona. Að þora að taka viðtöl við fólk og þora að þegja. Því þá veit maður að fólk heldur áfram. Því það hugsar, vá, hún ætlar ekki að segja neitt í beinni útsendingu. Og þá talar fólk áfram og segir það sem það ætlaði ekki að segja. Það er málið,“ segir Silla.

Hún segir að þó að það sé allt að fara til fjandans þá mæti hún alltaf til vinnu og græna ljósið kviknar og lífið heldur áfram. „Ég hef mætt til vinnu á erfiðum degi með grátstafinn í kverkunum en það er ekki hægt að hætta við útsendingu. Maður gerir þetta bara. Ég hef gengið í gegnum alls konar erfiðleika, missi og erfiðleika innan fjölskyldunnar eins og annað fólk. En ég mæti alltaf í vinnuna. En svo kemur kannski að því að maður þurfi að passa sig. Hjördís systir mín hringir stundum í mig og segir það. Silla, þú verður að passa þig.“

Að því sögðu segir Silla það skipta máli að leyfa sér að gráta. „Ég mæli með því að gráta á milli ljósa. Þá er maður búinn þegar komið er á áfangastað. Ég notaði það mikið þegar pabbi var á líknardeild. Grét á milli ljósa og snýtti mér áður en ég fór inn á spítalann.“

Sigurlaugu M. Mynd: Valgarð Gíslason.

Níu manns í mat

Sigurlaug og Torfi kynntust í MH og eiga saman tvær stúlkur og einn dreng en þetta er allt orðið fullorðið fólk að hennar sögn en þau búa þó öll heima og gott betur. Makar og barnabörn fylla nú húsið sem þau hjónin keyptu með foreldrum Sillu og bjuggu þau hvor á sinni hæðinni. Því má að vissu leyti segja að Silla hafi aldrei flutt að heiman. „Hugmyndin kom eiginlega frá Torfa þegar við komum heim frá Ítalíu, uppfull af rómantík yfir stórfjölskyld-unni. Við fundum þá þetta hús með tveimur íbúðum og höfum búið þar öll síðan.“ Var það aldrei vesen? Allir að skipta sér af öllum? „Nei, aldrei nokkurn tímann. Það var venjuleg klassísk fýla og pabbi að leita að kornfleks-pakkanum sem við höfðum tekið en aldrei neitt meira.“

Eftir að foreldrar Sillu létust kom þó aldrei til greina að selja íbúðina þeirra á neðri hæðinni heldur tók húsið það aftur að sér að safna afkomendum. Í dag búa börnin þeirra þrjú heima með maka og barnabörn. „Húsið er vant þessu. Það bara andar eins og við viljum. Sonur minn er með son sinn hjá okkur, dóttir mín með sína litlu og kærastann og þessi yngsta 22 ára með kærastann.“

Ert þú þá ekki bara föst í að elda ofan í alla?„Jú, jú, stundum, og sonur minn er líka duglegur að elda. Við eigum líka sumarbústað og erum mikið þar eða þau. Þetta dreifist bara vel. Þetta eru allt krakkar sem eru að reyna að koma undir sig fót-unum og mér dettur ekki í hug að segja þeim að fara að leigja fyrir tvö hundruð þúsund á mánuði.“

Hún viðurkennir þó að hún verði alveg pirruð við skarann ef illa er gengið um. „Það er tvennt sem ég vil að sé í lagi. Að það sé ryksugaður stiginn og hreint eldhúsið – jú, og stofan. Ég get alveg alveg látið í mér heyra. Skellt skápum og svona en þetta gengur almennt bara vel. Við erum í takt,“ segir Silla sem heldur fast í jákvæðnina.

Þetta verður allt í lagi

„Jákvæðnin og það að vera hláturmild, mér finnst gaman að hlæja, það er það sem ég er svo ánægð með. Það hefur gert lífið mitt betra. Ég er ekki langrækin eða verð mjög reið. Ég æpi ekki eða öskra. Eða kannski jú. Ekki mikið. Ég þegi yfirleitt ef ég verð reið. Það er þungt í mér og ég skelli skápum. Þá er kannski enginn búinn að vaska upp og ég skelli öllu með látum í vaskinn. Já, og ég blóta. Krakkarnir mínir myndu segja það. Ég blóta alveg hrikalega og mér finnst það geggjað. Skápa skellingarnar skila engu og ég veit það en ég geri það samt.“

Silla segist almennt ekki vera reið týpa né langrækin. „Ég verð frekar hrædd en reið. Þú veist, hugsa um hvort börnin mín og barnabörn séu örugg og hvort þau séu hamingjusöm. Það er fáránlegur frasi en þetta snýst allt um það.“

En með COVID. Ertu að fylla á frystinn og undirbúa heilt hús undir sóttkví?
„Nei. Ég er ekkert að hugsa um það. Og ég er almennt ekkert hrædd. Ég hugsa bara, þetta verður allt í lagi. Kannski fáránlegt og barnalegt en ég segi það samt. Þetta verður allt í lagi.“

Gleymdi pilsinu

Silla er meinfyndin og óhrædd við að deila sögum af óförum sínum. „Ég er oft að flýta mér og á það til þegar ég klæði mig að vinna hratt. Þá fer ég í mínar 80 den sokkabuxur, bol og skóna og þramma um. Svo einn morgun er ég að verða sein, Torfi kominn út í bíl, ég stekk í úlpuna og kem mér upp í RÚV.  Nú, þegar ég klæði mig úr kápunni tek ég eftir að ég er ekki í pilsinu. Ég trúi þessu varla, geng um og hugsa: Guð, ég get ekki sagt neinum frá þessu! Svo byrja ég að hlæja, og er farin að tárast úr hlátri, geng fram á gang og hitti þar Helga Seljan og Jónatan Garðarsson og held fyrir munninn og tárin leka og ég segi við þá: Þið verðið að hjálpa mér.“

Á þessum tímapunkti segir Silla að þeir félagar hafi hrokkið í kút og gert ráð fyrir hinu versta. „Ég sýndi þeim að ég var ekki í pilsinu undir kápunni, þeir þögðu aðeins og Helgi sagði: Bíddu aðeins, náði í myndavélina og tók af mér mynd, og sagði „ég bara verð“. Jónatan keyrði mig svo heim, ég klæddi mig í pilsið, fór aftur upp eftir og tók brosandi á móti gesti mínum eins og ekkert hefði gerst,“ segir hún og hlær. Næstu daga hrósuðu vinnufélagarnir Sillu í hvert sinn sem hún mætti fullklædd.

Hamingjan býr í draslskúffunni

Það er einhver ró sem einkennir útvarpskonuna með góðu röddina þó að hún segist sjálf alltaf vera að flýta sér þó að hún þurfi ekki að vera mætt neins staðar. Gangi hratt frá og geri flest á fullum hraða og sé lítið í excel-hugsunum, eiginmaðurinn sjái um það. „Ég er til dæmis ekki með bókhaldið á hreinu og er í raun nokkuð hrædd við bókarann minn. Hann horfir alltaf á mig með nettri fyrirlitningu því hann veit að ég er ekki með þetta á hreinu. Svo er ég líka með draslskáp og skúffur sem ég treð í og loka svo bara hratt og vona það besta. Ég bara ýti.“

Ha? Það má ekki. Internetið vill að þú sért með allt í röð og reglu. Þú getur fengið ráð og myndir á Pinterest!
„Nei. Guð, nei. Mér dettur það ekki til hugar,“ segir hún og um leið er hugsanlega komin útskýringin á hamingjunni sem einkennir hana. Það er þessi sátt og gleði yfir því sem hún á. Yfir fólkinu sínu, samvistum við börnin og að halda fókus á stóru hlutunum – og leyfa ruslskápnum að vera eins og hann er. Vera með eldhúsinnréttingu sem er á svipuðum aldri og hún sjálf. Sjá fegurðina í því að þroskast og eldast með reisn og elska hluti og fólk fyrir söguna sem það segir.

Silla verður 57 ára í nóvember og segist fagna hverju ári innilega. „Tíminn er dýrmætur. Ég pæli aldrei í því hvort ég sé orðin eitthvað gömul og hef aldrei gert. Af hverju á ég að gera það? Ég vil hafa heilsu en ég fer ekki í leikfimi. Ég hugsa stundum um það en þá deyr eitthvað inni í mér. Ég hef reyndar aldrei fengið pensilín þannig að ég hef haft góða heilsu. Ég lita á mér hárið, ég held ég muni alltaf gera það, en ég myndi aldrei láta breyta mér.“

Hefurðu aldrei farið í megrunarkúr?„Nei, ég held ekki. Ég myndi bara deyja ef ég þyrfti að fara í megrun. Ég hef alveg farið í föt og hugsað: Voðalegt vansnið er á þessu, og svo áttað mig á að ég þarf aðeins að tóna niður átið. Ég hugsa vel um mig en nei, aldrei megrun. Það er svo hræðilegt. Borðum bara matinn, bara ekki of mikið, en nei, ekki megrun. Ég vil bara njóta lífsins.“ Að því sögðu liggur það beinast við að Silla eigi eftir að endurnýja kynni sín við Flórens og matarmarkaðinn. „Mig dreymir um það einhvern tímann. En hvað geri ég þá við alla krakkana?“ segir Sigurlaug og skellihlær, þessum hlátri sem hlustendur Rásar 1 þekkja svo vel.

Silla kann að njóta lífsins. Mynd: Valgarð Gíslason
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 klukkutímum

Stefán Máni um heimsendaástina og heitu pottana

Stefán Máni um heimsendaástina og heitu pottana
Pressan
Fyrir 3 klukkutímum

Helmingur kórónuveirusjúklinga í Noregi er af erlendum uppruna

Helmingur kórónuveirusjúklinga í Noregi er af erlendum uppruna
Pressan
Fyrir 5 klukkutímum

Trump og Biden tókust á í kappræðum í nótt – Mun betri en þær síðust en breyta litlu

Trump og Biden tókust á í kappræðum í nótt – Mun betri en þær síðust en breyta litlu
Fókus
Fyrir 12 klukkutímum

Segir fyrrverandi kærastann og poppstjörnuna vera eins og tvíbura Trump – „Þeir eru bókstaflega sama manneskjan“

Segir fyrrverandi kærastann og poppstjörnuna vera eins og tvíbura Trump – „Þeir eru bókstaflega sama manneskjan“
433Sport
Fyrir 14 klukkutímum

Sjáðu ótrúlegan bílaflota Cristiano Ronaldo: Metinn á um 3 milljarða

Sjáðu ótrúlegan bílaflota Cristiano Ronaldo: Metinn á um 3 milljarða
433Sport
Fyrir 15 klukkutímum

Vandræðin halda áfram hjá Barcelona – Fjórar stjörnur sætta sig ekki við launalækkun

Vandræðin halda áfram hjá Barcelona – Fjórar stjörnur sætta sig ekki við launalækkun
Fréttir
Fyrir 16 klukkutímum

Tilnefning Amy Coney Barrett afgreidd úr nefnd

Tilnefning Amy Coney Barrett afgreidd úr nefnd
Fréttir
Fyrir 16 klukkutímum

Ákærður fyrir misnotkun stúlku – Brotin sögð spanna sex ár

Ákærður fyrir misnotkun stúlku – Brotin sögð spanna sex ár