Skemmtileg en ótrúleg tilviljun átti sér stað í Bjarnabúð í Bolungarvík. Þann 29. desember síðastliðinn kom ung kona, Li, í búðina til að versla inn fyrir áramótin. Þar hitti hún verslunareigandann, Stefaníu Birgisdóttur. Konurnar höfðu aldrei hist áður en tengjast á óbeinan hátt, líkt og fram kemur á Pressunni.
Stefanía segir:
„Við fengum ótrúlega skemmtilegan gest í Bjarnabúð í dag en það var hún Li frá Kína. Eftir smá spjall kom í ljós að Li er á fjórða ári við konunglega listaháskólann í Amsterdam. Þar er einmitt yngsti sonur okkar Olgeirs við nám og á fjórða ári, líkt og Li.“
Og ef þessi heimsókn var ekki nógu tilviljanakennd fyrir, að hitta foreldra samnemanda yst við Ísafjarðardjúp á Vestfjörðum, þá kom í ljós að Li og yngsti sonur hjónanna býr í sömu stúdentablokkinni í Amsterdam.
„Li var jafn hissa á þessu og við, en hún átti allra síst von á því að finna foreldra samnemanda síns í Bjarnabúð í Bolungarvík,“ segir Stefanía og bætir við að lokum: „Svona er heimurinn nú lítill, en jafnframt svo skemmtilegur.“