Fréttakonan ástsæla Edda Andrésdóttir var að byrja að skrifa fimmtu bókina sína fyrir rúmu ári þegar hún lenti í bakslagi og þurfti að setja skrifin á ís. Ástæðan var sú að hún veiktist af alvarlegum augnsjúkdómi.
Edda prýðir forsíðu janúar tölublaðs MAN sem kemur í verslanir á morgun, fimmtudag og í viðtali sem þar birtist greinir hún meðal annars frá þessari reynslu sinni.
„Ég fékk það sem heitir sjónhimnulos, augnsjúkdóm sem ég hafði aldrei heyrt um og held að enginn viti af nema þeir sem lenda í þessu. Þetta getur verið alvarlegur sjúkdómur og orsakað blindu ef ekkert er að gert.“
Edda þurfti að undirgangast tvær aðgerðir á auganu og hélt sirka hálfri sjón á því. Hún viðurkennir að hafa haft áhyggjur og var frá vinnu í rúma tvo mánuði.
„En þetta var reynsla og ég er þeirrar skoðunar að þegar maður verður fyrir einhverju kynnist maður sjálfum sér best. Það lenda allir í einhverju einhvern tíma, sérstaklega þegar fólk er komið yfir sextugt og allt getur gerst en ég held að maður viti ekki hver maður er fyrr en maður lendir í einhverju. Hvaða bein er í manni og hversu sterkur maður er. Ég kom sjálfri mér á óvart.“
Edda fagnar á árinu 45 ára starfsferli í fjölmiðlum og hefur þar komið viða við auk þess að skrifa bækur. Hún man eftir fyrstu útsendingu Rúv stendur enn vaktina í fréttatímum Stöðvar 2 og hefur fyrir löngu skapað sér sess sem ein virtasta fréttakona landsins.
„Sjónvarpsvinna í fréttum verður aldrei rútína. Maður veit aldrei fyrir víst hvað gerist í beinni útsendingu. Þú ert með augnablikið í hendi þér, eins og þú haldir eitt andartak um tímann og finnir hann streyma í gegnum lófa þér.“