Stundar nám í Bristol – Kom í tilefni afmælis móður sinnar
Elísabet Ýr Guðjónsdóttir, 25 ára Akureyringur, kom móður sinni heldur betur á óvart á dögunum. Elísabet er búsett erlendis, í Bristol á Englandi nánar tiltekið, þar sem hún stundar nám.
Elísabet var stödd í Afríku í sumar þar sem hún var í starfsnámi og segir hún í samtali við DV að móðir hennar hafi alls ekki átt von á því að sjá hana strax. Þar sem móðir hennar, Bryndís Arna Reynisdóttir, verður 55 ára í næstu viku ákvað Elísabet að kíkja í stutta heimsókn til Íslands og það án þess að láta móður sína vita.
Í myndbandi sem hún birti á Facebook-síðu sinni má sjá þegar Elísabet er komin til Akureyrar og er í þann mund að fara að birtast óvænt. Óhætt er að segja að Elísabetu hafi tekist ætlunarverkið og var móður hennar eðlilega skemmtilega brugðið að sjá dóttur sína.
„Já, hún kom mér svo sannarlega á óvart þessi elska. Yndislegt að fá hana í nokkra daga,“ segir Bryndís Arna undir myndbandinu sem DV fékk leyfi til að birta. Elísabet verður hér á landi fram á miðvikudag en þá heldur hún aftur út til að halda námi sínu áfram.
Myndbandið skemmtilega má sjá hér að neðan: