Á sýningunni verða málverk og skúlptúrar úr tré
Laugardaginn 6. ágúst kl. 15 verður opnuð sýningin ,,In the Storm“ í Pakkhúsi Hróksins, Geirsgötu 11 við Reykjavíkurhöfn, þar sem málverk og skúlptúrar Guðjóns Kristinssonar frá Dröngum verða í öndvegi. Guðjón, sem fæddist 1954 og ólst upp í Árneshreppi á Dröngum hefur lengi verið meðal okkar helstu listamanna á sviði grjót- og torfhleðslu, jafnframt því að fást við útskurð og myndlist.
Auk Guðjóns eiga verk á sýningunni myndlistarmennirnir Inga María Brynjarsdóttir, Karin Reichmuth frá Sviss og Robo IVecchio frá Ítalíu, sem bæði sýna málverk og skúlptúra.
Guðjón hefur lengi verið liðsmaður Hróksins og m.a. gefið listaverk í vinninga á stórmótum félagsins. Þá var hann meðal leiðangursmanna til Kulusuk á þessu ári, þar sem hann kenndi börnum í þorpinu útskurð.
Í samtali við DV segir Guðjón að á sýningunni verði málverk og skúlptúrar úr tré. Nokkuð er síðan að Guðjón fór að fást við höggmyndir og eru sumar þeirra tíu ára gamlar. Þá eru einnig málverk eftir Guðjón á sýningunni sem hann málaði á Íslandi og á Grænlandi. Stutt er síðan Guðjón hóf að mála myndir. Aðspurður hvert hann sæki innblástur segir Guðjón hugmyndirnar koma að sjálfu sér.
„Þetta er bara eitthvað sem gerist.“
Sýningin opnar eins og áður segir á morgun, laugardag.