fbpx
Þriðjudagur 11.nóvember 2025
Fókus

„Djöfull tókstu hann!“

Kolbrún Bergþórsdóttir
Laugardaginn 16. júlí 2016 19:10

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Páll Magnússon íhugar að bjóða sig fram til þings í næstu kosningum. Þetta kemur fram í viðtali sem Kolbrún Bergþórsdóttir tók við hann. Í viðtalinu er víða komið við, rætt um viðskilnað hans við RÚV, heimildamyndagerð, ný verkefni hans í útvarpi og einnig um pólitík og andrúmsloftið í íslensku samfélagi.

Páll Magnússon er á nýjum vettvangi sem umsjónarmaður þáttarins Sprengisands á Bylgjunni og viðtöl hans þar hafa vakið athygli og iðulega ratað í fréttir enda er Páll laginn við að laða það besta fram úr viðmælendum sínum, þar á meðal fréttnæma hluti. Páll er þaulvanur fjölmiðlamaður, var meðal annars fréttastjóri Stöðvar 2 og útvarpstjóri RÚV á árunum 2005–2013.

Talið berst fyrst að Sprengisandi og Páll er spurður af hverju hann hafi ákveðið að slá til og taka að sér umsjón þáttarins. „Ég var svosem ákveðinn í að þessu skeiði á mínum ferli eða ævi væri lokið. Þegar það var ámálgað við mig fyrst að taka að mér þennan þátt tók ég því fálega. Svo vaknaði ég einn daginn og hugsaði sem svo að þetta yrði kannski bara skemmtilegt. Ég hugsaði með mér: Ef þeir spyrja aftur í dag þá segi ég bara já. Svo var spurt aftur.
Ég hef verið að bisa við það síðustu misserin að gera bara það sem mér þykir skemmtilegt. Þarna reyndist hugboð mitt rétt; mér finnst þetta skemmtilegt. Þetta hefur líka gengið ágætlega, margir eru að hlusta og þá finnst einhverjum fleirum en mér þetta skemmtilegt, sem betur fer.“

„Djöfull tókstu hann!“

Hver er munurinn á því að vera með þátt eins og þennan í útvarpi eða sjónvarpi?

„Fyrir samfélagsumræðu af þessu tagi þá er útvarp að mörgu leyti betri vettvangur en sjónvarp. Útvarpið er ótruflað af öðru en samtalinu, það eru ekki ljóskastarar, myndatökumenn og fyrirgangur í stúdíói. Það er ekkert þarna annað en efni samtalsins. Að þessu leyti er útvarpið einlægari miðill. Samtalið stendur fyrir sjálft sig, ótruflað af ytri umbúnaði. Svo er Sprengisandur tveggja tíma þáttur og það er hægt að dvelja lengur við þá hluta samtalsins sem manni finnst vera áhugaverðastir, maður þarf ekki að flýta sér í næsta atriði.“

Mér sýnist að þú kjósir í þessum þáttum að fara mjúku leiðina að viðmælendum. Ferðu þessa leið mjög meðvitað og hverjir eru kostirnir við hana?

„Á sínum tíma var ég mikið með viðtalsþætti í sjónvarpi, fyrir fleiri árum en ég kæri mig um að muna. Þetta voru svona yfirheyrsluþættir, ekki síst á Stöð 2, Í návígi hét meira að segja einn þeirra. Á þessum tíma var mælikvarðinn á það hvort slíkur þáttur hefði tekist vel eða ekki að sagt væri við mann eftir þáttinn: Djöfull tókstu hann! Og þá var maður ánægður og fannst þátturinn hafa verið góður.

Svo þegar hégóminn lak af manni með árunum, vonandi mjög mikið, þá áttaði maður sig á því að þetta var ekki réttur mælikvarði á það hvort þátturinn hefði tekist vel, heldur það hvort áhorfendur eða hlustendur væru einhverju nær um efni málsins.

Ég hef fylgst með viðtalsþáttum af þessu tagi mjög lengi og minn uppáhaldsmaður þar er breskur, Sir Robin Day, sem vann bæði hjá ITV og BBC. Hann hækkaði aldrei róminn, skipti aldrei skapi, var alltaf yfirmáta kurteis, stundum vandræðalega kurteis. En enginn spyrill í sjónvarpi náði meiru út úr viðmælendum sínum en hann. Stundum stóðu menn upp úr þessum viðtölum og ruku út en hann sjálfur skipti aldrei skapi.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Í gær

Svona hafði hún efni á „dýra“ Íslandi

Svona hafði hún efni á „dýra“ Íslandi
Fókus
Í gær

Ráðherra á von á barni

Ráðherra á von á barni
Fókus
Fyrir 2 dögum

Ekki gera þetta áður en þú eldar kjúkling: „Bjóða hættunni heim“

Ekki gera þetta áður en þú eldar kjúkling: „Bjóða hættunni heim“
Fókus
Fyrir 2 dögum

8 hlutir sem Sara hefði viljað vita áður en hún hóf heilsuvegferð sína – „Trúðu mér, ef ég gat þetta þá getur þú það líka“

8 hlutir sem Sara hefði viljað vita áður en hún hóf heilsuvegferð sína – „Trúðu mér, ef ég gat þetta þá getur þú það líka“
Fókus
Fyrir 3 dögum

Matvörurnar sem eru hættar í framleiðslu en Íslendingar sakna

Matvörurnar sem eru hættar í framleiðslu en Íslendingar sakna
Fókus
Fyrir 3 dögum

Helena hættir við þátttöku í Miss Universe í Tælandi vegna veikinda

Helena hættir við þátttöku í Miss Universe í Tælandi vegna veikinda
Fókus
Fyrir 4 dögum

Fyrrum hertogaynjan sögð með peningaáhyggjur – Ætlar að afhjúpa leyndarmál konungsfjölskyldunnar

Fyrrum hertogaynjan sögð með peningaáhyggjur – Ætlar að afhjúpa leyndarmál konungsfjölskyldunnar
Fókus
Fyrir 4 dögum

Alveg kominn með nóg af þessu eftir tónleika Mugison og Sinfó: „Svo mikil tilgerð“

Alveg kominn með nóg af þessu eftir tónleika Mugison og Sinfó: „Svo mikil tilgerð“