Gabríel Gíslason og Kristófer Bruno eru ungir hárgreiðslunemar sem hafa ákveðið að láta gott af sér leiða nú fyrir jólin. Bjóða þeir heimilislausum og fólki sem er að reyna að vinna bug á alkóhólisma ókeypis klippingu fyrir jólin. Í samtali við Pressuna segjast þeir piltar hafa viljað láta gott af sér leiða:
„Við ákváðum það báðir að við vildum gefa eitthvað til baka. Það var alltaf eitthvað sem stoppaði okkur, við þurftum að kaupa vélar sjálfir og vörur fyrir þetta. Svo loksins ákváðum við það bara núna fyrir jólin að það væri fínn tími til að byrja á þessu.“
Fer allur frítími piltanna í þetta og er stefnan að halda eitthvað áfram eftir áramót og halda áfram að láta gott af sér leiða.
„Ástæðan fyrir því að við erum að gera þetta er það þegar algjörlega ókunnug manneskja snýr sér til baka að okkur og þakkar okkur og kyssir og segir guð blessi þig, það er það sem við fáum út úr þessu. Að upplifa þessa yfirþyrmandi gleði og ánægju og fólkið finnur að það sé hugsað um það. Það spyr okkur ,hvernig datt ykkur þetta í hug‘ og ,af hverju við.“
Að endingu hvetja þeir aðra sem tök hafa á að fylgja í fótspor þeirra með einhverjum hætti.