„Ég er ekki að þykjast vera neinn engill en ég hef bara aldrei haft neinn áhuga fyrir því að prófa neitt sterkara en romm í kók,“ segir Magni Ásgeirsson, tónlistarmaður og söngvari hljómsveitarinnar Á móti Sól en hann kveðst ekki vera heillaður af hinu hefðbundna rokkstjörnulíferni sem jafnan er tengt við stífa drykkju og vímuefni. Hann vann hugi og hjörtu íslensku þjóðarinnar þegar hann endaði í fjórða sæti í bandaríska raunveruleikaþættinum Rockstar Supernova fyrir tíu árum en í viðtali við Austurgluggann segir hann það hafa verið erfitt að koma heim til Íslands, í blákaldan raunveruleikann og þurfa að „fúnkera“ aftur eftir rússíbanareið undanfarinna vikna.
Kona Magna er Eyrún Huld Haraldsdóttir og eiga þau þrjá drengi: Marinó Bjarna, Egil Ásberg og Kára Sæberg. Magni kveðst hafa uppgvötvað á foreldrafundi í skóla sonar sínar um daginn að hann væri sennilega orðinn fullorðinn en þar hófst umræðan „hvað eru unglingarnir okkar að gera“
„Ég hef reyndar aldrei haft gaman af því að vera blindfullur og einhvern veginn aldrei staðið mig almennilega í því. Ég hef til dæmis aldrei fengið „blakkát“, tilhugsunin um að muna ekki hvað ég gerði daginn áður hræðir mig,“ segir Magni og bætir við að hann hafi heldur aldrei skilið „hörð efni.“
Þá kveðst Magni í raun muna sáralítið eftir þeim tíma þegar hann tók þátt í Rockstar Supernova en það tímabil spannaði allt í allt fjóra mánuði. Þá kveðst hann lítið hafa orðið var við gífurlegar vinsældir þáttarins á meðan á þáttöku hans stóð. „Við áttuðum okkur ekki á því enda í einhverri lokaðrikúlu og fengum ekkert að vita.“
Þá lýsir Magni því þannig að það hafi verið mikil viðbrigði að koma heim til Íslands sem Magni „okkar“
„Eftir að þessi kúla sprakk varð ég alveg snarruglaður, þetta var svona eins og að fara út í geim, svo langt var upplifunin frá raunveruleikanum. Ég var farinn að finna fyrir þessu síðustu vikurnar úti og labbaði svo algerlega á vegg þegar þessu lauk, var líklega orðinn alveg bullandi þunglyndur. Ég var alveg hálft ár að ná að fúnkera aftur, bara að fara í vinnuna og lifa eðlilegu lífi,“ segir Magni jafnframt og bætir því við að jafnframt hafi þetta haft slæm áhrif á sambandið og slitu hann og Eyrún samvistum um tíma. Magni kveðst ekki hafa verið til staðar og segist hafa „misst á sér hausinn“:
„Við skildum um stund af því ég var fáviti. Ég elti hana og sem betur fer tók hún við mér aftur enda er Eyrún yndislegasta manneskja sem ég þekki og ég hlakka til að eyða ævinni með henni.“