fbpx
Miðvikudagur 12.nóvember 2025
Fókus

Goretex á daginn en varalitur og dansskór á kvöldin

Sandra er á leið í spennandi siglingu um verslunarmannahelgina

Ritstjórn DV
Mánudaginn 1. ágúst 2016 11:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Um verslunarmannahelgina verður skip frá National Geographic með 150 ferðamenn á siglingu umhverfis Ísland. Um borð verður einnig úrvalslið íslenskra kvenna sem ætlað er að kynna íslenskt samfélag fyrir ferðamönnunum og svara öllum þeim spurningum sem kunna að koma upp. Ein þeirra er jarðfræðingurinn Sandra Ósk Snæbjörnsdóttir.

Úrvalslið kvenna um borð

„National Geographic er upprunalega tímarit sem fjallar um náttúrufræði og fjarlægar slóðir og er skreytt með fallegum og oft og tíðum ótrúlegum ljósmyndum. Í dag er fyrirtækið orðið miklu stærra og meira, og auk tímaritsins er það meðal annars virkt á samfélagsmiðlunum, heldur úti frábærri heimasíðu, rekur sjónvarpsstöð og ferðaskrifstofu. Ferðaskrifstofan býður upp á ævintýrasiglingar og um helgina verður skip frá henni á Íslandi. Þau sérhæfa sig í ferðum á óhefðbundnar slóðir til þess að skoða náttúruperlur. Ísland er náttúrlega heimsfrægt fyrir sína náttúru og þess vegna fullkominn áfangastaður á þeirra vegum. Í ferðinni verður meðal annars boðið upp á kajakferðir, fuglaskoðun, plöntuskoðun, jarðfræðileiðsögn og fleira.“

En hvers vegna verður þú með um borð?

„Lögð er áhersla á að kynna lífið í landi fyrir ferðamönnum. Þó svo að þeim gefist ekki kostur á að kynnast samfélaginu frá fyrstu hendi þá verðum við, nokkuð fjölbreytt lið íslenskra kvenna, um borð og okkur er ætlað að kynna land og þjóð og svara helstu spurningum. Á kvöldin verða pallborðsumræður þar sem við sitjum fyrir svörum. Auk mín, sem er jarðfræðingur, verður Silja Bára Ómarsdóttir stjórnmálafræðingur, Ragna Árnadóttir, aðstoðarforstjóri Landsvirkjunar og fyrrverandi dómsmálaráðherra, og Hrund Gunnsteinsdóttir, frumkvöðull og framkvæmdastjóri Krád consulting. Boðið verður upp á mat úr íslensku hráefni um borð og Sigríður Thorlacius og Valdimar Guðmundsson munu taka lagið fyrir gesti á kvöldin. Það verður sem sagt reynt að varpa ljósi á fjölbreyttar hliðar samfélagsins.“

Spennandi tækifæri

Skipið siglir frá Reykjavíkurhöfn á föstudagseftirmiðdegi og kemur í höfn aftur á þriðjudagsmorgun. Viðkomustaðir í ferðinni eru meðal annars Látrabjarg, Flatey og Hornstrandir. Þetta hlýtur að teljast nokkuð óvenjulegt verkefni fyrir jarðfræðing. Ertu spennt fyrir ferðinni?

„Já mjög! Ég er að prófa eitthvað nýtt því ég hef aldrei verið lengur á báti en nokkra klukkutíma í senn. Ég er þokkalega að stökkva út fyrir þægindarammann en hlakka til að sjá Ísland frá sjó. Svo er þetta fullkomið tækifæri fyrir jarðfræðinginn í mér sem líkar að klæðast Goretex á daginn en vera í hælum með varalit á kvöldin.“

Þarftu að undirbúa þig fyrir ferðina og við hvaða spurningum máttu búast?
„Já, mér bauðst að taka þátt í þessu verkefni í kjölfar umfjöllunar um doktorsverkefnið mitt sem fjallar um kolefnisbindinguna á Hellisheiði. Mín vitneskja ætti að geta bætt einhverju við það sem hinar konurnar um borð geta varpað ljósi á. Ég kem með þennan eiturhressa raunvísindavinkil og býst við spurningum um til dæmis loftlagsmálin og áhrif loftslagsbreytinga sem sjást einna mest í náttúru Íslands.“

En ertu stressuð eða kvíðin fyrir einhverju?
„Ég vona að ég verði ekki mjög sjóveik og að ég geti svarað flestum þeim spurningum sem ég fæ. Nú svo er ég með einn lítinn brjóstamjólkurdreng heima og vona að ég tryllist ekki úr söknuði í hans garð. En fyrst og fremst hlakka ég ótrúlega mikið til. Þetta verður bara spennandi.“

Segir Sandra að lokum og það leynir sér ekki að þarna býður National Geographic íslenska jarðfræðingnum upp á ótrúlega spennandi og skemmtilegt tækifæri.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Í gær

Svona hafði hún efni á „dýra“ Íslandi

Svona hafði hún efni á „dýra“ Íslandi
Fókus
Í gær

Ráðherra á von á barni

Ráðherra á von á barni
Fókus
Fyrir 2 dögum

Ekki gera þetta áður en þú eldar kjúkling: „Bjóða hættunni heim“

Ekki gera þetta áður en þú eldar kjúkling: „Bjóða hættunni heim“
Fókus
Fyrir 2 dögum

8 hlutir sem Sara hefði viljað vita áður en hún hóf heilsuvegferð sína – „Trúðu mér, ef ég gat þetta þá getur þú það líka“

8 hlutir sem Sara hefði viljað vita áður en hún hóf heilsuvegferð sína – „Trúðu mér, ef ég gat þetta þá getur þú það líka“
Fókus
Fyrir 3 dögum

Matvörurnar sem eru hættar í framleiðslu en Íslendingar sakna

Matvörurnar sem eru hættar í framleiðslu en Íslendingar sakna
Fókus
Fyrir 3 dögum

Helena hættir við þátttöku í Miss Universe í Tælandi vegna veikinda

Helena hættir við þátttöku í Miss Universe í Tælandi vegna veikinda
Fókus
Fyrir 4 dögum

Fyrrum hertogaynjan sögð með peningaáhyggjur – Ætlar að afhjúpa leyndarmál konungsfjölskyldunnar

Fyrrum hertogaynjan sögð með peningaáhyggjur – Ætlar að afhjúpa leyndarmál konungsfjölskyldunnar
Fókus
Fyrir 4 dögum

Alveg kominn með nóg af þessu eftir tónleika Mugison og Sinfó: „Svo mikil tilgerð“

Alveg kominn með nóg af þessu eftir tónleika Mugison og Sinfó: „Svo mikil tilgerð“