Þessi magnaði tónlistarmaður hefur selt fleiri en 80 milljónir platna á löngum og glæsilegum ferli
Bandaríski tónlistarmaðurinn Michael Lee Aday, betur þekktur sem Meat Loaf, hneig niður á sviði á tónleikum sem hann hélt í Kanada í gærkvöldi. Aðeins nokkrir dagar eru síðan tónlistarmaðurinn aflýsti tónleikum vegna veikinda.
Meat Loaf var í miðjum flutningi á slagaranum I‘d Do Anything For Love þegar hann hneig skyndilega niður. Hann lá hreyfingarlaus á sviðinu um tíma og var hann fluttur á sjúkrahús í kjölfarið. Ekki liggja fyrir nánari upplýsingar um líðan hans.
Meat Loaf þjáist af hjartagalla sem gengur undir heitinu Wolff-Parkinsson-White-heilkenni sem veldur óreglulegum hjartslætti. Meat Loaf hefur áður fallið í yfirlið á tónleikum, fyrst árið 2003 og aftur árið 2011.
Að sögn tónleikagesta virtist Meat Loaf ekki vera alveg heill heilsu áður en hann hneig niður. Hann hafi misst úr orð í lögum og virst vera utan við sig. Meat Loaf, sem er fæddur í Texas, er 68 ára gamall. Fáir tónlistarmenn hafa selt fleiri plötur en Meat Loaf á undanförnum áratugum, en talið er að plötur hans hafi selst í rúmlega 80 milljónum eintaka á löngum og glæsilegum ferli.
[youtube https://www.youtube.com/watch?v=9X_ViIPA-Gc&w=420&h=315]