
Sigga skaust fram á sjónarsviðið árið 2023 þegar hún tók fyrst þátt í Söngvakeppni sjónvarpsins. Hún tók aftur þátt ári seinna og komst áfram í úrslit með laginu Um allan alheiminn.
Hún hefur einnig getið sér gott orð sem leikkona og talsetti hlutverk Glindu í kvikmyndunum Wicked og Wicked: For Good.
Sjá einnig: Draumur Siggu Ózk rættist – „Ég hafði bara tvær vikur til að gera allt“
Við ræddum við Siggu Ózk um glæstan feril hennar, ævintýrin að taka þátt í söngvakeppninni og tækifærið að fá að talsetja svona kröftugt hlutverk í stórmynd. Hlustaðu á þáttinn á Spotify og öllum helstu hlaðvarpsveitum. Textabrot úr þættinum má lesa hér að neðan.
Það er ekki auðvelt að vera listamaður á Íslandi, margir tala um að þetta sé mikið hark og tekur Sigga undir.
„Mér finnst mikilvægt líka… það er ekki hægt að vera í þessum bransa og búast við því að eitthvað komi til þín. You‘er on your own,“ segir Sigga og hlær.
„Það er enginn að fara að gefa þér neitt. Þú þarft að fara að sækja það. Þannig að maður þarf að vera go-getter. Þú þarft að krefjast þess sem þú verðskuldar. Búa þér til tækifæri og vona að eitthvað gerist, en á sama tíma bara vera sniðug líka.“
View this post on Instagram
Aðspurð hvort hún leiti til föður síns þegar hana vantar aðstoð, eins og þegar Universal bauð henni samning að talsetja fyrir Glindu í Wicked, svarar hún játandi.
Faðir Siggu er Hrafnkell Pálmarsson, sem gerði garðinn frægan með hljómsveitinni Í svörtum fötum. „Pabbi hjálpar mér alltaf með samninga. Hann er alveg „locked in“ sko, þegar að hann les samninga með mér sko.“
Sigga segir að maður eigi aldrei að skrifa undir fyrstu drög að samningi. „Það má enginn vera svo örvæntingarfullur að skrifa undir fyrstu drög. Þannig að ef maður er sniðugur og maður kannski… þú þarft að finna einhverja leið til þess að þú getir grætt eitthvað.“
View this post on Instagram
Þegar Sigga var í tónlistarskóla úti í Noregi var þeim ekki aðeins kennt sköpunarhliðin heldur einnig um fjármál, samninga og þess háttar, sem hún segir að sé mikilvægur undirbúningur fyrir bransann. Sigga ræðir þetta nánar í þættinum sem má hlusta á hér.
Það er margt spennandi fram undan hjá Siggu Ózk. Hún er að leika í nýjum þáttum, Ljúfa líf, sem fara í loftið næsta haust. Hún er einnig að vinna í plötu og er stefnan að hún komi út í maí 2026.
Fylgdu Siggu Ózk á Instagram og TikTok. Hlustaðu á tónlistina hennar á Spotify.