fbpx
Laugardagur 06.september 2025
Fókus

Rýnt í skjáinn: Þversagnir karlmennskunnar og alræði markaðsvæðingarinnar

Jakob Snævar Ólafsson
Laugardaginn 6. september 2025 17:30

Skjáskot úr kynningarstiklu fyrir heimildarþættina America´s Team: The Gambler and His Cowboys.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Í annað skiptið sem að leikurinn um Ofurskálina, úrslitaleikinn í ameríska fótboltanum, var sýndur beint á Íslandi, árið 1996, bar lið Dallas Cowboys sigur úr býtum. Þetta var þriðji meistaratitill liðsins á fjórum árum. Titlarnir urðu ekki fleiri en síðan þá hefur lið Dallas frá þessum tíma öðlast sess sem eitt hið besta í sögu íþróttarinnar. Liðið hefur verið kallað lið 10. áratugarins og tryggði félaginu enn frekar nafnbótina Lið Ameríku (e. America´s Team) sem félagið hafði öðlast áður en hópurinn, sem skipaði þetta lið, kom til sögunnar.

Nýlega var frumsýnd á Netflix 8 þátta röð um þetta lið Dallas Cowboys en þættirnir bera titilinn America´s Team: The Gambler and His Cowboys. Í þáttunum er farið nokkuð djúpt í sögu liðsins og baksvið atburða. Áhorfendur verða ýmis vísari um atburðina í kringum liðið og fá kynnast vel helstu leikmönnum, þjálfurum og eigandanum en í raun skilur þátturinn eftir stórar spurningar sem ná langt út fyrir raðir kúrekanna frá Dallas. Spurningar sem lúta ekki síst að karlmennsku og markaðsvæðingu

Fjárhættuspil

Fjárhættuspilarinn, The Gambler, sem vísað er til í titlinum er hinn eilítið skrautlegi athafnamaður og eigandi Dallas Cowboys síðan 1988, Jerry Jones. Hann kemur við sögu í hverjum þætti og rætt er ítarlega við hann. Ljóst er að þættirnir varpa nokkrum aðdáunarblæ á Jones og bregða upp mynd af ósköp venjulegum manni sem efnaðist af eigin rammleik en af slíkum sögum eru Bandaríkjamenn yfirleitt hrifnir. Þó er alls ekki um einskæra hetjudýrkun að ræða. Jones viðurkennir sjálfur að hann sé ekki fullkominn en er hins vegar ekki tilbúinn að viðurkenna mistök í öllum þeim tilvikum sem bent hefur verið á og þar spilar eflaust inn í hið risastóra egó hans sem verður frekar minnst á síðar.

Jerry Jones: Skjáskot/Youtube

Jones auðgaðist upphaflega í olíubransanum og miðað við þættina er ljóst að hann hefur gert það aðallega til græða nógu mikla peninga að eignast lið í NFL-deildinni, stærstu deild íþróttarinnar, og til að geta stjórnað því dags daglega en reglulega í þáttunum furða viðmælendur sig á því að Jones hafi skipað sjálfan sig framkvæmdastjóra félagsins í stað þess að gera eins og aðrir eigendur í deildinni og ráða einhvern annan til að sinna starfinu.

Stjörnurnar

Auk Jones eru í forgrunni í þáttunum helstu stjörnur liðsins á þessum tíma og áhorfendur fá að kynnast þeim nánar. Fyrst ber að nefna leikstjórnandann Troy Aikman, sem grefur tilfinningar sínar og óþrjótandi sigurvilja undir stóísku yfirborði, hlauparinn lipri og úrræðagóði Emmit Smith, sem virkar einna heilsteyptastur af þeim öllum, og útherjinn Michael Irvin sem stundaði skemmtanalífið af jafnmiklum krafti og hann spilaði íþróttina en það líferni virðist hafa sett mark sitt á hann.

Troy Aikman. Mynd: Skjáskot/Youtube.
Michael Irvin. Mynd: Skjáskot/Youtube.
Emmit Smith. Mynd: Skjáskot/Youtube

Þessir þrír unnu alla titlana þrjá en síðan bættist í hópinn fjórða stórstjarnan, þegar þriðji titillinn vannst, hinn afar fjölhæfi og svolítið skrautlegi Deion Sanders sem var nánast jafnvígur á vörn og sókn en í amerískum fótbolta spila leikmenn yfirleitt ekki í bæði vörn og sókn.

Deion Sanders. Mynd: Skjáskot/Youtube.

Rætt er þó einnig við aðra leikmenn þótt mest fari fyrir þessum fjórum en af hinum stendur einna helst upp úr varnarmaðurinn Charles Haley sem á nánast skilið sinn eiginn heimildaþátt en hann glímir við geðhvarfasýki og átti af þeim sökum oft erfitt með að falla í hópinn og stunda hið agaða líferni sem oftast er krafist af íþróttafólki í fremstu röð. Hann ræðir af einlægni um áhrif sjúkdómsins á ferilinn, en þó frá sinni hlið, og um nokkur skipti þegar hann lenti upp á kant við liðsfélaga sína og þjálfara sem sumir ræða einnig erfið samskipti sín við hann, en það á þó ekki við í öllum tilfellum. Einn af hápuktum þáttanna er einmitt þegar rætt er um einlægt og sterkt vináttusamband Haley við þann þjálfara sem stýrði liðinu til þriðja titilisins, Barry Switzer, en þar hafði harmleikur í fjölskyldu þjálfarans töluvert að segja.

Charles Haley. Mynd: Skjáskot/Youtube

Þjálfarnir

Barry Switzer tók við þjálfun liðsins af Jimmy Johnson sem hafði lyft liðinu upp úr því að vera versta liðið í deildinni í að vinna tvo titla. Þeir eru skemmtilega ólíkir. Johnson þjálfari af lífi og sál sem hefur óbilandi sigurvilja og keyrir liðið áfram af fullum krafti og er með puttana ofan í öllu sem snýr að þjálfuninni. Hann heldur uppi nánast heraga og líður engin látalæti. Switzer er nánast andstaðan. Afslappaður, lætur aðstoðarþjálfarana um smáatriðin og er ekki að skipta sér af lífi leikmanna utan vallar. Hann ætlast til þess að leikmenn séu tilbúnir til leiks en þeir komast þó upp með að mæta með timburmenn á æfingar og fá þá jafnvel að sleppa við þær.

Barry Switzer. Mynd: Skjáskot/Youtube

Switzer tók við starfinu eftir að það kastaðist í kekki á milli Jerry Jones, eigandans, og Jimmy Johnson.

Jimmy Johnson. Skjáskot: Youtube

Áhorfendur fá þannig að kynnast mönnunum á bak við velgengnina og hvað varð til þess að þetta lið varð jafn sigursælt og raun bar vitni. Það er helsti styrkur þáttanna og er ekki annað hægt að segja en að um sé að ræða áhugaverða einstaklinga með mismunandi baksögur, menn sem hafa bæði góðar og slæmar hliðar. Galli þáttanna er hins vegar þær stóru spurningar sem eftir sitja og engin tilraun er gerð til að svara enda er það svo sem ekki umfjöllunarefni þáttanna.

Karlmennskan

Í þáttunum eru karlmenn í fyrirrúmi sem er svo sem ekkert undarlegt þar sem umfjöllunarefnið er hópur karlmanna. Rætt er við fáar konur og ekki gerð tilraun til að varpa mjög skýru á ljósi á vafasöm samskipti sumra leikmanna liðsins við konur á þeim tíma þegar liðið var upp á sitt besta. Ekki er þó gerð tilraun til að fela neitt. Það er minnst á að sérstakt hús hafi verið á bak við æfingasvæðið þar sem leikmenn gátu meðal annars stundað kynlíf með konum, sem voru oft aðrar en unnustur þeirra og eiginkonur, en skautað er yfir hvers vegna það þótti eðlilegt að félagið reddaði leikmönnum slíkri aðstöðu.

Það er einnig minnst í mýflugumynd á kynferðisbrot einhverra leikmanna en þar var þó ekki um neina af stærstu stjörnum liðsins að ræða. Eitt mál er þó kafað eilítið ofan í sem varðar furðuleg samskipti Michael Irvin, sem þá var giftur, við erótískan dansara en þar virtust hótanir hafa gengið á báða bóga og deilt var um hvort þeirra hefði útvegað eiturlyf í partýi sem þau voru bæði viðstödd en Irvin slapp naumlega við þungan fangelsisdóm vegna eiturlyfjanna. Það virðist þó ýmislegt vera skilið eftir ósagt um það mál í þáttunum.

Þarna var augljóslega mjög karlægt umhverfi og oft virðist sem að það hafi verið hluti af verðlaununum fyrir að standa sig svona vel á vellinum að fá að komast í náin kynni við fjölda kvenna. Þetta skilur eftir áhugaverðar spurningar um stöðu kvenna gagnvart svona hópi sem lítil tilraun er gerð til að svara í þáttunum. Er það eðlilegt að konur eigi lítið erindi í svona umhverfi nema þá helst til að verðlauna leikmenn með blíðuhótum eins og virðist hafa verið viðtekið, að minnsta kosti á þessum tíma? Hvaða segja svona lýsingar á samskiptum karla og kvenna eins og eru í þáttunum um karlmennskuna?

Tilfinningar og vinátta

Þeir menn sem hér hafa verið nefndir virðast ekkert feimnir við að sýna tilfinningar í þáttunum og gráta, í mismiklum mæli þó. Hjá þeim virðast það því vera eðlilegur hluti þess að vera karlmaður að gráta og vera í tengslum við tilfinningar sínar en á móti kemur að flestir þeirra eru bersýnilega með það stór egó að þeir eiga stundum bágt með að viðurkenna að þeir geti haft rangt fyrir sér.

Skýrasta dæmið um það er samband eigandans Jerry Jones við þjálfarann Jimmy Johnson. Þeir voru gamlir vinir og þegar Jones keypti Dallas Cowboys kom ekki annað til greina en að ráða Johnson sem þjálfara. Eftir titlana tvo var sambandið milli þeirra hins vegar orðið svo slæmt að Johnson vék fyrir Barry Switzer. Miðað við þættina virðist rifrildið milli Jones og Johnson einkum hafa snúist um hvor þeirra bar ábyrgð á árangursríkum leikmannaskiptum og hvorugur virtist viljugur til að ýta sínu stóra egói eilítið til hliðar. Í 30 ár var stirt á milli þeirra þar til loks voru borin klæði á vopnin.

Eftir þetta er óhjákvæmilegt að álykta að karlmennskan geti verið ansi þversagnakennd. Í tilfelli þessa hóps er í lagi að sýna tilfinningar en síður í lagi að ýta egóinu eilítið til hliðar en slíkar hugleiðingar er eitthvað sem áhorfendum er látið eftir og ekki gerð tilraun til að greina þetta frekar í þáttunum.

Markaðsvæðingin

Í þáttunum er einnig nokkuð mikið gert úr því að Jerry Jones hafi með harðfylgi náð að koma því í gegn að liðin í NFL-deildinni tóku sjálf að mestu leyti yfir markaðsmál sín af deildinni. Hann kom því í gegn að eðlilegt þótti að markaðsvæða nánast allt sem viðkemur liðunum og það er líklega ekki síst fyrir hans áhrif sem að nánast allir leikvangar í deildinni heita í dag eftir fyrirtækjunum sem hafa borgað fyrir að fá að hafa nafn sitt á þeim. Það sviptir óneitanlega leikvanganna ákveðnum karakter og íþróttaleikvangar geta sannarlega haft karakter eins og unnendur þeirrar íþróttar sem í Evrópu og víðar er kölluð fótbolti vita mæta vel.

Í þáttunum er aldrei dregið í efa að það sé eðlilegt að markaðsvæða nánast allt sem viðkemur íþróttinni og þar kristallast kannski að í Bandaríkjunum virðast íþróttir fyrst og fremst vera neysluvara. Þær snúast um skemmtun fremur en ástríðu fyrir leiknum og áhugann fyrir því að styðja sitt heimalið og vera hluti af einhverju stærra en maður sjálfur. Sá sem þetta ritar telur þetta vera stóran galla. Það er ekki sérstaklega spennandi tilhugsun að vera stuðningsmaður fyrirtækis en ekki íþróttafélags. Flestir íþróttaunnendur hljóta að vilja frekar vera stuðningsmenn síns liðs en ekki eins og hver annar kaupandi hjá stórfyrirtæki.

Einn viðmælandi í þáttunum veltir upp þeirri spurningu hvort lið eins og Dallas Cowboys sem gerir út á markaðsvæðingu og kaupsýslu eigi skilið að vera kallað lið Ameríku frekar en lið sem sé betri táknmynd fyrir vinnu og strit þess alþýðufólks sem hafi byggt landið upp. Sú skoðun virðist þó ekki njóta mikillar hylli.

Kannski hefur þetta hálfgerða alræði markaðsvæðingarinnar áhrif á að Dallas Cowboys er, miðað við mælingar, vinsælasta liðið í NFL-deildinni þrátt fyrir að hafa ekki unnið titilinn í 30 ár eða síðan þetta lið sem er umfjöllunarefni þáttanna lauk sigurgöngu sinni. Þegar horft er á þættina virðist markaðsvæðingin þó ekki hafa gert alveg út af við ástríðuna. Kannski er hægt að halda henni á lífi þótt íþróttirnar hverfi í sífellt meira mæli inn í heim neysluhyggjunnar eða kannski er það bara óskhyggja.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Nanna hlaut barnabókaverðlaun Guðrúnar Helgadóttur fyrir sína fyrstu barnabók

Nanna hlaut barnabókaverðlaun Guðrúnar Helgadóttur fyrir sína fyrstu barnabók
Fókus
Fyrir 2 dögum

Ragnhildur með neglu í umræðu vikunnar – „Gagnkynhneigða tussan þín, af hverju ertu hérna“

Ragnhildur með neglu í umræðu vikunnar – „Gagnkynhneigða tussan þín, af hverju ertu hérna“
Fókus
Fyrir 3 dögum

„Hver hefði haldið að dag einn sæti ég með haglabyssu innanklæða við dómþing í Héraðsdómi Reykjavíkur?” – Lestu fyrstu kafla Hyldýpi

„Hver hefði haldið að dag einn sæti ég með haglabyssu innanklæða við dómþing í Héraðsdómi Reykjavíkur?” – Lestu fyrstu kafla Hyldýpi
Fókus
Fyrir 3 dögum

Talað um að The Rock gæti fengið Óskarinn – Felldi tár eftir ótrúlegar viðtökur

Talað um að The Rock gæti fengið Óskarinn – Felldi tár eftir ótrúlegar viðtökur