Hafdís er gestur vikunnar í Fókus, viðtalsþætti DV. Fókus snýr aftur eftir sumarfrí og í fyrsta þætti ræðir Hafdís einlæg um fæðingarþunglyndi, vinkonumissi, að verða fyrir netníði og að finna sig aftur eftir erfiða tíma.
Hafdís á að baki glæsilegan að feril í atvinnufitness og kynntist yndislegu samfélagi og góðum vinum í kjölfarið. Hún gleymir því ekki þegar hún og Hrönn hittust fyrst.
DV tók viðtal við Hrönn nokkrum vikum áður en hún lést. Hún barðist eins og ljón fram á síðustu stundi, eins og henni einni var lagið.
„Við kynntumst á æfingu hjá Konna þjálfara. Hann eiginlega púslaði okkur saman á æfingu og […] á fyrstu æfingunni okkar voru bara fíflalæti og eftir það vorum við límdar saman,“ segir Hafdís brosandi.
„Sama hvað ég var að díla við í lífinu þá var alltaf punkturinn æfingin með henni. Þetta núllstillti mann og gaf manni peppið sem maður þurfti og bensín á tankinn. Við vorum mjög gott dúó.“
Vinkonumissirinn reyndist Hafdísi afar þungbær. „Ég týndi sjálfri mér, því hún var svo mikill partur af mér. Maður heyrir það frá fólki sem þekkti hana ekki neitt og var bara að fylgjast með henni, því leið eins og það væri að missa ástvin. Hún var svo ótrúlega mögnuð manneskja og ég var ótrúlega lengi að meðtaka að hún væri farin. Þetta var óraunverulegt fyrir mér því hún var þannig týpa að hún sigraði allt. Það var aldrei neitt vesen, bara „we got this“, það var okkar mottó. Þannig ég sætti mig ekki við þetta, ég var í bullandi afneitun. Ég týndi mér.“
Aðspurð hvernig hún fann sig aftur segir Hafdís: „Ég er eiginlega að því ennþá.“
„Að hafa misst hana er bara… einmitt að koma mér aftur á æfingar, að vera aftur í kringum fólkið sem við vorum í kringum og fara aftur í aðstæður [sem minna mig á hana], eins og að fara í búðina hennar. Ég fæ bara.. ég get það ekki. Þetta er vont. En ég finn það núna að mig langar að gera það, mig langar að finna hana aðeins nær mér, þannig ég er farin að fara á æfingar aftur án þess að hlaupa grátandi út.“
Hafdís opnar sig nánar um þetta og margt fleira í þættinum sem má hlusta á Spotify og öllum helstu hlaðvarpsveitum.
Fylgdu Hafdísi á Instagram.