Í væntanlegri ævisögu, Gwyneth: The Biography eftir Amy Odell, er fjallað um vináttu leikkonunnar Gwyneth Paltrow og söngkonunnar Madonnu og hvernig slitnaði upp úr á milli þeirra.
„Vinátta þeirra náði ákveðnu stigi þegar Madonna birtist á eyju þar sem Gwyneth og þáverandi maður hennar, Chris Martin voru í fríi,“ fullyrðir Odell í bókinni sem kemur út 29. júlí. „Madonna virtist vita að Gwyneth yrði þar, sem Gwyneth fannst skrýtið,“ hefur Odell eftir vini Paltrow.
Samkvæmt Odell krafðist Madonna þess að hjónin sem voru gift frá 2003 til 2016, færu með henni í kvöldmat. Við matarborðið á Madonna að skammast illilega í dóttur sinni, Lourdes, sem varð til þess að hjónin fengu „viðbjóð á hegðun hennar“.
„Ég get ekki verið nálægt þessari konu lengur,“ á Martin að hafa sagt við Paltrow. „Hún er hræðileg.“ Paltrow mun hafa verið sammála eiginmanninum og sleit hún tengslin við Madonnu í kjölfarið.
Vinátta Paltrow og Madonnu hófst á tíunda áratugnum og dásömuðu þær hvor aðra ítrekað opinberlega þar til vináttunni lauk.
„Allt sem ég hef gengið í gegnum, hún gekk í gegnum tífalt verra og tífalt lengra,“ sagði Paltrow árið 2006 í viðtali við Us Weekly. „Hún gefur mér góð ráð um hvernig ég á að segja nei og hugsa vel um sjálfa mig.“
Árið 2009 hafði Page Six eftir heimildarmanni að Paltrow væri farin að verja meiri tíma á tvöföldum stefnumótum með eiginmanni sínum og Jay-Z og Beyoncé.
„Börn Gwyneth kalla hann Jay frænda og hún og Chris voru sérstakir gestir í brúðkaupi Jay-Z,“ sagði heimildarmaður. Vísaði hann þar til barna Paltrow og Martin: Apple, 21 árs, og Moses, 19 ára.
Árið 2010 sagði heimildarmaður við Us Weekly að Madonna og Paltrow töluðust ekki lengur við þó að engar frekari upplýsingar væru gefnar upp. Sama ár staðfesti Paltrow í viðtali að einkaþjálfari hennar, Tracy Anderson, ynni ekki lengur með Madonnu. Vinkonurnar sem ítrekað voru myndaðar saman hafa ekki verið myndaðar saman síðan árið 2009.