fbpx
Fimmtudagur 22.maí 2025
Fókus

Linda Pé opnar sig um ástarsambandið við Jaime – „Hann var ekkert af því sem var á þessum lista sem ég var búin að skrifa upp og lesa upp í nokkur ár“

Ragna Gestsdóttir
Fimmtudaginn 22. maí 2025 20:30

Linda Pétursdóttir. Mynd/Instagram

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Linda Pétursdóttir, lífsþjálfi og fyrrverandi Ungfrú Ísland og Ungfrú Heimur, fjallar um samband sitt, vinslit, LMLP prógrammið sitt og margt fleira áhugavert í nýjasta hlaðvarpsþætti sínum, Podcastið með Lindu Pé. Linda talar opinskátt um sambönd, fordóma, breytingar og hvernig sumir vinir þola illa velgengni annarra. 

„Og þá langar mig kannski að koma aðeins inn á ástarsambandið mitt, að kærastinn minn hann Jaime, við erum núna búin að vera saman í rétt um tvö ár. Og þegar ég kynntist honum þá var ég nú alls ekki á leið í samband þó að mig hafði langað í samband og ég var búin að vera að undirbúa þetta og skrifa um þetta í dagbókina mína. Ég hafði gert eins og margir gera svona lista um hvernig þú vilt að makinn þinn verði og alls kyns eiginleika og hvernig hann átti að vera og aldur og útlit og menntun og þú veist, allur þessi pakki sem að þið hafið örugglega margar gert.“

Segir Linda þar sem hún talar til kvenna, þó orð hennar eigi við um alla sem leita að ástinni. Linda hvetur þá sem hafa gert slíkan lista að henda honum, mikilvægara sé að gera slíkan lista um sjálfan sig.

„Hverjar viljum við vera í sambandinu? Og fókus er á okkur af því að við getum aldrei stjórnað öðrum. En við getum stjórnað okkur og hvernig við komum, mætum í sambandið. Og þessi listi, ég hafði gert svona lista fyrir hvernig ég vildi hafa manninn sem ég myndi hitta. Það er kærasta. Og þegar ég hitti Jaime, sem ég ætlaði nú alls ekki að fara á stefnumót með, ég ætlaði nú alls ekki að fara að hitta svona yngri mann. En hann gafst ekki upp og það endaði með að ég sagði bara við sjálfa mig: 

„Linda góða besta live a little. Þú veist, hvað ertu eitthvað að láta það stoppa þig þó hann sé yngri en þú? Farðu bara og njóttu þess, farðu á stefnumót. Þú ert ekki að fara að giftast honum strax. Farðu bara á stefnumót og live a little.“

Og ég fór á stefnumót og við erum búin að vera saman síðan, nánast upp á dag. Við erum búin að vera mjög mikið saman. Við erum saman næstum því í tuttugu og fjóra tíma á sólarhring. Það eru ekki margir dagar sem að við höfum ekki verið saman. Og það verða tvö ár núna í sumar. En hann var ekkert af því sem var á þessum lista sem ég var búin að skrifa upp og lesa upp í nokkur ár fyrir mig. En að sama skapi þá var hann bara allt sem ég þurfti á að halda. Ég bara vissi það ekki. En ég var búin að fókusera á að vinna í sjálfri mér og hvaða manneskja ég ætlaði að vera í sambandi og ég mæli með því að gera það. Þannig hentu bara listanum hvernig makinn á að vera og fókuseraðu á þig, hvernig þú ætlar að vera.“

Var efins um að blanda sambandi og vinnu saman

Linda segist aldrei hafa unnið svona áður með kærasta sínum, allavega ekki svona náið, og hafi verið efins um það í upphafi að blanda sambandi og vinnu saman. Jaime er meðal annars menntaður viðburðastjóri og svo er hann líka með skipstjóraréttindi. Hann er búinn að vinna sem viðburðastjóri hjá Lindu tvö ár í röð.

„Og okkur gengur svo vel að vinna saman og erum frábært teymi svona faglega líka.“

Fær alltaf skilaboð um aldur kærastans

Linda segir að í hvert sinn sem hún pósti myndum af þeim saman fái hún skilaboð frá nokkrum einstaklingum sem spyrji hvað Jaime sé gamall.

„Ég hef bara alltaf verið hrifnari af eldri mönnum til dæmis barnsfaðir minn er einhverjum þrettán fjórtán árum eldri en ég. Og ég er alla vega ekki þekkt fyrir að vera með yngri mönnum nema honum núna í fyrsta sinn og ég ætla bara að segja það hér að það er átján ára aldursmunur á okkur og þá var vonandi hættir fólk að senda mér skilaboð og spyrja mig. Ég hef ekkert svarað því af því að mér finnst það bara engum koma við. En þá er ég bara búin að koma því fram hérna, það er átján ára aldursmunur. Þannig að þá veit fólk það bara, en aldursmunurinn skiptir bara engu máli.“

Segir hún að Jaime gæti ekki verið meira sama um aldursmuninn. Hann segir: „Vinir mínir, þeir bara virða að ég er ástfanginn af þér. Þú ert konan mín, þú ert kærastan mín og þeir pæla heldur ekkert í því. Og pabbi hans sagði einmitt við hann þegar hann var að segja honum frá mér í upphafi, þá sagði einmitt pabbi hans við hann: Jaime minn aldur skiptir engu máli þegar kemur að ástarsamböndum og þegar þú ert kominn á þennan aldur. Það eina sem skiptir máli, það er bara tengingin og samskiptin ykkar og ástin. Og pabbi hans var einmitt allavega tíu árum yngri en mamma hans þannig að honum finnst þetta bara allt svo eðlilegt. Þannig að ef að einhvern tímann hefur eitthvað komið svona upp í sambandinu okkar varðandi aldurinn, þá hefur það frekar verið frá mér. Það er þá bara eitthvað svona gamalt úr samfélaginu sem að ég kannski er ennþá að burðast með, þó ég sé búin að vinna mjög mikið í að láta mig bara vera alveg sama.“

Linda segir að annars slagið komi upp neikvæð rödd hjá henni sem segi henni að hafa áhyggjur af aldursmuninum. Segist hún ekki sjá inn í framtíðina hvort þau verði að eilífu saman. 

„Ég veit alla vegana að við erum saman í dag. Og við erum mjög ástfangin og hamingjusöm. Og við erum líka vinnufélagar og við erum bestu vinir. Það er líka svo gott að ég er mjög sterk kona. Ég er metnaðarfull, ég er mjög vinnusöm, ég læt ekkert stoppa mig. Ég ól dóttur mína upp ein. Ég fór ein í gegnum gjaldþrotið og byggði upp nýtt fyrirtæki og er búin að koma mér á betri stað fjárhagslega en ég hef nokkru sinni verið áður þannig að ég er sterk. Já, ég er bara mjög sterk kona. Og það sem er svo frábært að hann hræðist það ekki á nokkurn hátt. Honum finnst æðislegt að vera baksviðs og standa með mér og styrkja mig og leyfa mér að skína. Hann hræðist það ekki á nokkurn hátt og það er líka alveg nýtt fyrir mér.“

Kærastinn hennar stærsta klappstýra

Segir Linda að í fyrri samböndum hennar hafi sumir karlmenn átt erfitt með að hún sé sterk kona. Segir hún Jaime styðja hana og vilja að henni vegni vel, engin öfund eða afbrýðismeni sé af hans hálfu.

„Hann er bara mín stærsta og mesta klappstýra. Hann hefur kennt mér að hægja aðeins á mér því að ég myndi örugglega vinna sextán tíma á dag sjö daga vikunnar ef ég væri ein og sérstaklega náttúrulega þegar stelpan er farin að utan.. Ég trúi því að æðri máttur sendi hann til mín. Og hann hefur kennt mér að slaka á og njóta meira, og ég er einmitt með orð ársins hjá mér sem er orðið að njóta. Þannig að hann hefur fengið mig til baka til þess að slaka meira á, til þess að hvíla mig, til þess að njóta og kúpla mig meira frá. 

Að sama skapi þá styður hann mig líka þegar það er vinnutörn og mikið að gera hjá mér. Þá að sjálfsögðu reynir hann ekkert að stoppa mig, en hann hefur hjálpað mér aðeins í þessu að njóta einföldu hlutanna í lífinu. Og svo er bara svo gaman að gera það líka með honum af því að hann er svo jarðbundinn og hann er svo rólegur. Þannig að við náum vel saman þar. En svo náttúrulega líka eins og ég er að segja, hann er svona á bak við, leyfir mér að skína. Hann er rólegur, mín helsta klappstýra, en svo er hann náttúrulega líka viðburðastjóri hjá mér þar sem hann þarf að sjá um alla samninga.“

Jaime sér þannig um samninga við hótelin, tæknimenn, veitingaaðila, birgja, samstarfsfólk  og aðra slíka. Í mörg horn er að líta og Jaime sér um það allt. Parið er svo með sitt eigið vídeóteymi og ljósmyndateymi, spænska stráka sem hafa unnið með þeim í tvö ár og framúrskarandi að sögn Lindu. Linda segir Jaime mjúkan og rólegan, en ekki láta neinn vaða yfir sig þegar kemur að samningum og uppgjöri eins og hann sér nú um eftir ráðstefnu sem Linda hélt nýlega fyrir konurnar sem hjá henni í LMLP prógramminu.

„Þetta langar mig bara aðeins að segja þér frá ástarsambandinu mínu, aldursmuninum, hvernig það er að vinna með maka sínum. Þannig að ég segi bara: „Stígðu aðeins út úr þægindarammanum ef þú ert núna einhleyp og langar að hitta mann eða konu. Ekki vera með þennan lista, fleygðu honum bara og eins og ég sagði við mig: „Linda, lifa lífinu.“ Farðu og hittu einhverja manneskju sem að þú mundir ekkert vanalega hitta og það gæti bara endað svona eins og hjá mér. Ég fór á eitt stefnumót, ég skráði mig á svona stefnumótaapp þegar ég fór til Mallorca. Ég fór á eitt stefnumót og það var með honum og við erum búin að vera saman síðan. Þannig að það er bara alls kyns sem að getur gerst þegar maður bara veðjar á sjálfan sig og slakar aðeins á og lifir lífinu.“

Linda heldur áfram með góð ráð:

„Ef þú finnur að það er eitthvað sem nærir sál þína, skapaðu þá rými fyrir það í lífi þínu. Þannig að ef þú finnur eitthvað sem er nærandi fyrir sál þína, opnaðu þá á möguleikana.“

Nánari upplýsingar um lífið með Lindu P prógrammið finnur þú á heimasíðunni lindap.com.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt