

Í dag er aðfangadagur og á heimilum flestra Íslendinga verður jólamáltíðin snædd í kvöld. Miðað við könnun DV verður aðalrétturinn víðast hvar með hefðbundnu sniði. Flestir sem svöruðu könnuninni sögðu að hamborgarhryggur yrði á boðstólum en næst flest atkvæði fékk lambakjöt, annað en hangikjöt. Það voru þó 53 prósent sem völdu þessa flokka svo að einhver fjölbreytni er til staðar. Matarhefðir á jólunum víða um heim eru hins vegar sumar hverjar gerólíkar hinum íslensku en hér verða nefnd þrjú dæmi um jólamáltíðir í öðrum löndum sem gætu komið einhverjum Íslendinum spánskt fyrir sjónir. Ein þessara jólamáltíða ætti þó að vera einhverjum íbúum hér á landi kunnugleg.
Gvæjana er land í norðausturhluta Suður-Ameríku. Það á landamæri að Venesúela, Brasilíu og Súrinam og meirihluti íbúa þar eru kristnir svo að jólahald á sinn sess í landinu.
Einn helsti rétturinn sem reiddur er fram á heimilum landsins á jóladag, þegar aðal jólamáltíðin er snædd, heitir á ensku pepperpot sem líklega mætti kalla á íslensku piparpott eða piparpottsteik.
Piparpottsteik er undirbúin á töluverðum tíma og segja má að með henni fari gvæjana-búar með hægeldamennsku (e. slow food) í hæstu hæðir. Kjötið í réttinn er tekið fram nokkrum vikum fyrir jól og látið vera fyrst í stað standa við stofuhita.
Saga réttarins er löng og á rætur sínar að rekja til hefða innfæddra íbúa landsins, áður en fyrstu Evrópumennirnir námu þar land á 17.öld.
Piparpottsteik er í raun strangt til tekið ekki steik heldur kássa sem samanstendur af ýmsum kryddum eins og t.d. pipar og kanil og líkamspörtum af nautgripum sem ættu að vera harðir undir tönn; hækill sem ku vera efsti og harðasti hluti fótleggja, klaufir og halar.
Það virkar vel að beita hægeldun á þessa hluta nautgripa og kjötið í piparpottinn er eldað dögum saman, með hléum og á milli stendur rétturinn á eldavélum landsmanna við stofuhita.
Þetta hljómar í eyrum margra eflaust eins og gróðrastía fyrir bakteríur. Til að forðast það er hins vegar bætt við Cassareep sem er þykkur safi sem minnir á síróp og kemur úr jurtinni Cassava. Safinn er soðinn niður þar til hann verður nánast að sírópi og í þannig ástandi myndar hann vörn gegn bakteríum en þessi blanda er einnig notuð í lyfjaframleiðslu. Eftir niðursuðuna er þessu blandað við réttinn og ef vel tekst til á bragð kryddsins, kjötsins og sírópsins að renna saman og skapa marglaga jólamáltíð.

Í Eþíópíu er kristið fólk sem heldur upp á jólin, í samræmi við júlíanska tímatalið, þann 7. janúar. Þar á meðal er fólk í eþíópísku rétttrúnaðarkirkjunni sem er ein elsta kristna kirkja heims.
Í kirkjunni eins og raunar í fleiri kristnum kirkjudeildum er fastað fyrir jól og þá í 40 daga. Fastan felur í sér að helst er aðeins neytt einnar máltíðar á dag og þá forðast að neyta kjöts, mjólkurvara, eggja, víns og hvers kyns olía. Meðlimir kirkjunnar lifa því í raun á jólaföstunni á grænkerafæði þótt þessi hefð þeirra sé miklu eldri en hugtakið grænkeri.
Svo þegar jólin renna upp þá er slegið upp jólaveislu. Þá má gæða sér aftur á kjöti og þá er í fyrirrúmi hefðbundinn jólaréttur Eþíópíu en líklega er leitun að táknþrungnari jólamáltíð. Rétturinn heitir Doro Wat og samanstendur af hana sem skorinn er í 12 hluta sem eiga að tákna lærisveinana 12. Bætt er við 12 harðsoðnum eggjum sem að sögn eiga að tákna eilífiðina. Rétturinn er síðan fullkomnaður með sósu sem tekur nokkra klukkutíma að búa til en hún samanstendur af aðallega af söxuðum lauk og kryddi sem heitir berbere.
Segja má því að rétturinn sé táknrænn fögnuður fæðingar krists en um leið rof á grænkeraföstunni.

Í Slóvakíu, Póllandi og fleiri löndum Mið- og Austur-Evrópu er kjöt ekki alls ráðandi sem aðal jólamáltíðin. Fisktegundin vatnakarpi gegnir stóru hlutverki í jólahaldi í þessum löndum en tegundina er einkum að finna í ám og vötnum. Þetta er því matur sem íbúar hér af landi af pólskum uppruna ættu að kannast við.
Samkvæmt hefðum í þessum löndum veiðir fólk vatnakarpann og heldur honum á lífi í baðkeri heimilisins í 1-2 daga þar til fiskurinn er aflífaður, hreinsaður og svo matreiddur. Hugmyndin á bak við þetta er sögð sú að með þessu sé hægt að skola leðju, af botni vatna og áa, úr meltingarvegi fisksins en í raun tekur það lengri tíma. Þessi hefð á líka rætur sínar að rekja til þeirra tíma þegar ísskápar voru ekki inni á hverju heimili.
Það hefur þó aukist á undanförnum árum að fólk kaupi vatnakarpa tilbúin til eldunar úti í búð í stað þess að slátra þeim sjálft heima.
Algengt er að eftir aflífun og hreinsun sé vatnakarpinn baðaður upp úr mjólk til að deyfa lyktina og bæta bragðið. Svo er hann skorinn í stykki sem eru í laginu eins og skeifur. Það á að boða gæfu og vatnakarpinn sjálfur sem heild á að boða gæfu og þá ekki síst með vísan til þess að fiskar hafa frá því í árdaga kristninnar verið ein af helstu táknmyndum hennar og krists.
Sumir segjast bara borða vatnakarpann á jólunum af því það sé hefð en ekki af því hann sé neitt sérstaklega góður. Velta má fyrir sér hvort þetta eigi við um fleiri jólarétti víðar um heim. Borðum við besta matinn á jólunum eða borðum við hann fyrst og fremst vegna hefðanna?
