

Móðir sem kýs að vera nafnlaus til að vernda dóttur sína segir kerfið verða að bregðast fyrr við vanda barna. Konan verður kölluð hér eftir Ólöf, hún er gestur vikunnar í hlaðvarpinu Sterk saman.
Ólöf á sextán ára dóttur með fjölþættan vanda en sá vandi var orðinn mikill þegar hún var aðeins sjö ára gömul.
„Ég byrjaði að kalla á hjálp strax þegar hún var sjö ára en það vildi enginn hlusta á mig eða trúa mér,“ segir hún.
Ólöf reyndi hvað hún gat til að fá aðstoð en segir að vandinn hafi aldrei verið nógu stór eða slæmur fyrir BUGL, ekki einu sinni eftir að dóttir hennar reyndi að enda líf sitt, aðeins 13 ára.
„Hún var sett í Brúarskóla í 8. bekk en þar kynntist hún krökkum í neyslu og ofan á hennar áhættuhegðun tók hún tímabil í neyslu,“ segir hún.
Dóttir Ólafar fór á neyðarvistun Stuðla og í meðferð á Stuðlum.
„Það var ekki fyrr en þá sem kerfið trúði því sem ég hafði sagt í mörg ár, hún þurfti sólarhringsgæslu og mikla aðstoð,“ segir Ólöf.
Þegar hún var í tíunda bekk var hún komin í búsetuúrræði með starfmenn allan sólarhringinn. Í úrræðinu var einnig skólaúrræði sem hún tók öll grunnfög en fékk að mæta í sinn heimaskóla í fög sem byggðu hana upp, hún var sterk í og einnig tók hún virkan þátt í uppsetningu leikrits, söfnun fyrir vorferð og var lengri skóladaga til að taka þátt í ýmsum viðburðum.
„Aðstoðarskólastjóri sat alla fundi með teyminu hennar, allt að tíu manns, allt skólaárið til að undirbúa vorferðina, ræða námið og útskrift frá hennar heimaskóla,“ segir hún.
Þegar vorferð skólans nálgaðist fór þessi aðstoðarskólastjóri í veikindafrí og enginn innan skólans tók við keflinu.
Ólöf segir frá ömurlegum samskiptum við skólastjóra skólans sem leyfði dóttur hennar ekki að fara með í ferðina og einnig frá útskriftinni sem endaði á afar leiðinlegan hátt.
„Hún hefur upplifað höfnun alla tíð og var loksins að ná að klára. Sat undir sögum úr félagslífi og ferð sem hún fékk ekki að taka þátt í og stóð sig eins og hetja, að mínu mati. Í lokin var kennarinn að deila út árbókum til nemenda og dóttir mín rétti út höndina en þá segir kennarinn: „Já, vilt þú líka? Þú ert sko ekki í bókinni!“
Ólöf er foreldri sem vill leggja orð í belg í umræðunni því dóttir hennar er á lífi og segir hún mjög ákveðin: „Ég ætla ekki að jarða dóttur mína!“
Hlustaðu á þáttinn hér að neðan.