

Sif Sigmarsdóttir er löngu landsþekkt fyrir pistla sína, fyrst í Fréttablaðinu, síðar í Heimildinni og á Vísi. Fyrir nokkrum árum fór Sif að skrifa ungmennabækur, bæði á ensku og í íslensku, en nú í jólabókaflóðinu kom út fyrsta skáldsaga hennar fyrir fullorðna: Allt sem við hefðum getað orðið. Bókin hefur fengið fínar viðtökur og ummæli og er uppseld hjá útgefanda.
Í viðtali við DV segir Sif okkur frá bókinni sem er lengsta meðgangan hennar, en bókin var yfir áratug í smíðum, mikilvægi varðveislu íslenskunnar og hverdagslífinu í London sem hún segir alls ólíkt túristayfirbragði stórborgarinnar.
Sjá einnig: „Vildi sýna að það þarf ekki að vera framið subbulegt morð til að lífið sé spennandi“
TúristaLondon ekki sama og London
Eftir sagnfræðina fór Sif árið 2002 í framhaldsnám til Bretlands, í bókmenntafræði. Þáverandi kærasti hennar, sem nú er orðinn eiginmaður flutti með henni.
„Mér fannst skemmtilegt að lesa bækur og skráði mig í framhaldsnám í bókmenntun. Ég er að reyna að gera það sem mér finnst gaman að gera og það hefur yfirleitt verið mjög gaman en hvort þetta sé skynsamlegasta leiðin í lífinu veit ég ekki. Dóttir mín kom til mín um daginn og sagði: „Ég ætla að gerast rithöfundur eins og þú.“ Og ég hugsaði: „Nei hver andskotinn.“ Mig langaði svo að banna henni að gera það af því þetta er ekki beinasta brautin, en þetta hefur verið skemmtileg braut. Bara mæta í vinnunna og hlakka til, ég held að það séu forréttindi. Ég er að skrifa bækur og skrifa pistla, svo tek ég að mér alls konar verkefni þannig að þetta er mikið pússluspil.“
Sif segir þau aldrei hafa flutt til baka og hún hafi verið að uppgötva að hún er búin að vera hálfa ævina í Bretlandi.
„Sem mér finnst skrýtið af því ég er svo mikill Íslendingur. Fólk var mikið að spyrja: Ætlið þið ekki að flytja heim með börnin? Okkur finnst bara gaman að búa í London og létum aldrei til skarar skríða og svo finnst mér hálfpartinn að það sé að verða of seint, þau eru 12, níu og fimm ára. Á einhverjum tímapunkti er maður orðinn of seinn að rífa alla upp, láta þau kveðja vini sína og allt sem þau þekkja.“
Aðspurð um hvort það sé erfitt að ala börn upp í stórborginni London svarar Sif neitandi.
„Það er alls ekkert púl. Fólk heldur oft að það sé ekki barnvænt að vera með börn í stórborg, en mér finnst það gott. Hverfi í London er eins og lítill smábær, hér er allt í göngufæri, við eigum ekki bíl, löbbum með börnin í skólann, allar verslanir, alla þjónustu. Það er allt svo nálægt okkur, við erum ekki neinu skutli eins og við heyrum af heima. Þó þetta sé stór borg þá er hún lítil frá okkar sjónarhorni séð. Ég er bara í mínu hverfi, póstburðarmaðurinn býður þér góðan daginn, þetta er eins og í krúttlegum Morse þætti. Fólk þekkist og heilsast á götu. Ég get skotist niður í bæ í leikhús á 20 mínútum. London er ekki sama og London, túristaLondon er allt annar staður. Ég fer ekki oft að versla á Oxford-stræti. Ferðamenn fá aðra sýn á borgina en þeir sem búa hérna,“ segir Sif og heldur áfram.
„Sem dæmi í Islington þá er skemmtilegt leikhús. Ástæðan fyrir að ég endaði hér er að uppáhaldsleikhúsið mitt er hér. Þegar túristar fara í leikhús fara þeir á West End, stór stykki og fræg og söngleikir, en í hverfisleikhúsunum, og hvert hverfi er með leikhús, þar finnurðu nútímaverk, verk sem eru ádeila a samtímann, ungu leikskáldin, oft rosa flottir leikarar og þau leikrit sem ganga vel í hverfisleikhúsinum þau enda á West End.“
Sif og fjölskylda hennar hafa einnig haft áhrif á nærumhverfi sitt eins og eftirfarandi dæmi sanna:
„Íslenskari en Ora baunir, við Íslendingarnir í London eru miklir Íslendingar. Við erum stundum dálítið eins og fjölskyldan í My Big Fat Greek Wedding, íslenskari en dós af grænum Ora baunum. Við dreifum íslenskum áhrifum víða, stundum alveg óvart. Þegar fyrsta barn mitt hóf leikskólagöngu fyrir meira en tíu árum í London þar sem ég bý var ég spurð að því hverju fjölskyldan fagnaði. Ég sagði það fyrsta sem mér datt í hug: „17. júní og Júróvisjón.“ Án þess að blikna skrifaði leikskólastýran svarið niður. Það var ekki fyrr en löngu síðar að ég áttaði mig á að spurningin var líklega leið hinna ofur kurteisu og menningarlega nærgætnu Breta til að falast eftir því hverrar trúar við værum. En í tíu ár var 17. júní og Júróvisjón fagnað í breskum leikskóla með íslenska fánanum, pylsum og íslenskri skúffuköku. Það var magnað að sækja krakkana í leikskólann á 17. júní og sjá öll bresku börnin streyma út með íslenska fánann málaðan á kinnina,“ segir Sif og hlær.
Þar sem nú er aðventa þá er tilvalið að deila einnig skemmtilegri sögu af breskri aðventu:
„Sumir kveikja á kertum á aðventunni. Hér í London eigum við fjölskyldan hins vegar þann aðventusið að setja geisladiskinn Pottþétt jól 3 á fóninn, sem er af einhverjum ástæðum eini jóladiskurinn sem ég á. Breskir vinir mínir elska diskinn og veltast um af hlátri þegar hann er spilaður því þar fá þeir að heyra jólalög sem mörg hver eru alþjóðleg flutt á hinni fögru íslensku tungu. Þar tekur Helga Möller til að mynda slagarann „Jólin þín og mín“ sem hjartaknúsarinn Cliff Richard er þekktur fyrir að syngja hér í Bretlandi og Kristján Jóhannsson syngur klassíkerinn „Heims um ból“. Sumir vinanna hafa meira að segja fengið að afrita þennan stórgóða disk til að spila í eigin jólaveislum og vekur hann alls staðar jafnmikla kátínu.“

Lesa má viðtalið við Sif í heild sinni hér: „Vildi sýna að það þarf ekki að vera framið subbulegt morð til að lífið sé spennandi“