
Markþjálfinn, einkaþjálfarinn og skemmtikrafturinn Anna Claessen er gestur vikunnar í Fókus, viðtalsþætti DV. Þar fer hún opinskátt yfir kulnunina sem hún lenti í árið 2018, hvernig líkaminn reyndi að stoppa hana en hún hlustaði ekki – og hvers vegna margir hunsa þessi skilaboð. Hún talar einnig um fordóma, sérstaklega eldri kynslóðarinnar, fyrir kulnun, álagið sem fylgir nútímalífi og hvers vegna svokölluð örhlé geti skipt sköpum, sérstaklega í annasömum desembermánuði. Auk þess ræðir Anna um ástina, fjölskyldulífið og erfiða reynslu þegar sonur hennar greindist með flogaveiki aðeins eins og hálfs árs.
Hlustaðu á viðtalið á Spotify og öllum helstu hlaðvarpsveitum. Textabrot úr þættinum má lesa hér að neðan.

Anna rifjar upp þegar hún lenti í kulnun seint árið 2018.
„Þetta er svo áhugavert af því maður finnur fyrst fyrir gleymsku. Maður gleymir rosalega mikið. Svo fer svefninn í hakk. Þegar svefninn fer í hakk fer mataræðið. Þegar svefnleysið kemur, þá bara hrynur allt,“ segir Anna og bætir við að hún hefur áður verið þunglynd en þetta sé allt annað.
„Ég þekki þunglyndi mjög vel. Ég hef verið þunglyndis- og kvíðapési, en þetta var bara annað level af vanlíðan. Svo slæmt að ég komst ekki fram úr rúminu. Vanlíðan er svo mikil, bæði líkamlega og andlega, að það er eins og það sé búið að taka mann úr sambandi.“
Anna segir líkamann reyna að senda okkur skilaboð. „En við erum ekki að hlusta og þá tekur hann bara okkur úr sambandi og setur í skammarkrók.“
Hún segir að of mörg okkar eigum það til að hunsa skilaboð frá líkamanum því við erum með svo mikla truflun. Hún bendir meðal annars á snjalltækin og annríkið í daglegu lífi, og hvetur fólk til að hlusta meira á líkamann, loka augunum og einbeita sér hvernig því líður og virkilega hlusta.

Anna fór í kulnun seinni hluta ársins 2018.
„Þetta byrjaði í seinni hluta 2018 og var áfram alveg yfir í 2019. Þetta var bara samblanda af alls konar dóti sem var í gangi sem lét mig bara algjörlega hrynja,“ segir Anna.
Á þessum tíma var hún einhleyp. „Að vera einn og búa einn og vera ekki með neinn stuðning. Maður fattar þá bara: Vá, ég þarf líka að fá að hlaða mig. Ég var bara ekkert að hlaða mig. Ég var bara að gefa, gefa, gefa og þá auðvitað var ég búin á því.“
Anna segir að eflaust tengi margir við og finni oft fyrir áhrifunum á kvöldin, þegar svefninn kallar en kemur ekki. „Hversu margir eru ekki að sofa á kvöldin? Af því að þá loksins eru þeir að hlusta á sig, og þá er líkaminn og taugakerfið eins og barn sem hefur ekki verið hlustað á allan daginn.“

Sumir eiga það til að ranghvolfa augunum þegar þeir heyra orðið kulnun og segir Anna oft finna frekar fyrir fordómum frá eldri kynslóðinni.
„Já, að þetta sé aumingjaskapur. Við erum alin upp á hörku og dugnaði. Við erum alin upp að gera hluti. Ég skil alveg: Þú ert dugleg, dugleg, dugleg, dugleg. Barnið mitt er fjögurra ára og ég held að það heyri þetta endalaust frá ömmu og afa,“ segir hún.
Anna segir mikinn mun á veruleika kynslóða sem veldur þessari gagnrýni og skilningsleysi. „Við verðum líka að átta okkur á að þeirra líf… það er ekki langt síðan við vorum bara fátæk og til að lifa af þurftum við að vera dugleg,“ segir hún.
„Við kæmumst ekki í hálfkvisti við þeirra erfiðisvinnu af því að við erum ekkert alin upp við hana. Okkur er ekki kennt hana þannig að auðvitað myndum við vera hræðileg í henni. Þau myndu rústa okkur í þessari keppni.
En svo voru þau ekki með þetta áreiti sem við erum með, sem er einmit tölvan og síminn. Að eiga börn í dag, þú ert ekki að grínast, bara allt sem þau þurfa að vera í, allt þetta í vinnunni, heima, þetta er ógeðslega mikið.“
View this post on Instagram
Aðspurð hvaða ráð hún er með fyrir fólk til að komast heilt í gegnum desember segir hún:
„Mér finnst ógeðslega gott að preppa desember. Ég elska að vera tilbúin í nóvember og klára allar jólagjafir. Líka ef þú veist hvernig desember verður, það verður mikið af jólahlaðborðum og öðrum viðburðum, hvernig getur þú hlaðið þig í desember?
Ég mæli með bara svona örhléi. Bara eitthvað smá, sérstaklega foreldrar, við erum ekki með miklar pásur yfir höfuð, hvernig geturðu bætt smá hléi í daginn þinn. Eins og áður fyrr voru teknar sígarettupásur, taka þannig pásu nema bara öndunarpásu í staðinn. Anda inn, anda út. Kannski kíkja út eða tala við vin.“
Anna segir að þetta þurfi ekki að vera flókið, jafnvel bara að fara bara inn á klósett og taka smá öndunaræfingu þar, öskra í kodda eða gráta yfir sorglegri bíómynd. „Bara að losa um tilfinningarnar, því manni mun líða alls konar í desember.“
Hún hvetur fólk til að finna hvað gefur því gleði, hvað færir því ró og passa að gefa sér tíma fyrir það.
„Og að búa til ákveðna rútínu í kringum ró, sama hvernig það er. Hvort þið farið þá bara á TikTok, síðan í bað og róið niður kerfið,“ segir hún og tekur eitt dæmi hvernig hún tekur svokallað örhlé yfir daginn.
„Áður en ég sæki barnið í leikskólann þá tek ég alltaf pásu, ég kalla þetta mömmupásu. Ég nenni ekki að fara inn í leikskólann alveg strax. Ég bíð í bílnum, bara aðeins að anda. Því ég er að fara að ná í barnið og það er í alls konar ástandi og ég vil nálgast það á yfirveguðum stað. Ég finn að stundum þarf ég að heyra í vinkonu áður, eða eiga bara smá svona ró og þögn, vera með eitthvað skemmtilegt lag til að peppa mig í gang.“
Hún segir að þessar fáu mínútur hjálpi henni að núllstilla sig og gera hana tilbúna fyrir restina af deginum.
Anna fer nánar yfir þetta allt saman í þættinum sem má hlusta á hér. Hún gefur einnig fólki sem vill byrja nýja árið af krafti ráð og kemur með fleiri einfaldar lausnir til að bæta líðan sem er hægt að tileinka sér á nýju ári, eða bara strax núna í desember. Anna ræðir einnig um ástina og son sinn, sem greindist með flogaveiki þegar hann var eins og hálfs árs. Hlustaðu á þáttinn á Spotify og á öllum helstu hlaðvarpsveitum.