

Bandaríski leikarinn Liev Schreiber var lagður inn á sjúkrahús í New York á sunnudag eftir að hafa sagt lækni sínum að hann væri með „mikinn höfuðverk“.
Læknirinn fyrirskipaði að hann færi tafarlaust í skoðun og væri yfir nótt á sjúkrahúsinu, þar sem Schreiber gengst nú undir röð prófana. Fjölmiðlar vestanhafs greina frá að leikarinn geti talað og gengið án erfiðleika. Engar aðrar læknisfræðilegar upplýsingar hafa verið gefnar upp að svo stöddu.
„Af mikilli varúð fór Liev á sjúkrahús til prófana og frá og með deginum í dag hefur honum verið leyft að snúa aftur til vinnu,“ sagði fulltrúi hans við fjölmiðla á mánudagskvöld.
Schreiber er þekktur fyrir hlutverk sín í Scream, Isle of Dogs, Spotlight, A Small Light og sjónvarpsþáttum eins og Ray Donovan, sem gengu í sjö þáttaraðir frá 2013 til 2020.
Schreiber giftist Taylor Neisen í júlí 2023 eftir um sex ára samband, mánuði síðar eignuðust þau sitt fyrsta barn saman, Hazel Bee.
Schreiber á einnig Söshu, 18 ára, og Kai, 16 ára, með leikkonunni Naomi Watts. Þau skildu í september 2016.