
Körfuboltakonan Sylvía Rún Hálfdánardóttir greindist með áráttu- og þráhyggjuröskun (OCD) þegar hún var sautján ára gömul. Hún var fárveik um tíma og þurfti að leggja skóna á hilluna til að einbeita sér að bata. Í dag er hún á góðum stað og er með ýmis tæki og tól til þess að glíma við röskunina.
Sylvía er gestur vikunnar í Fókus, viðtalsþætti DV. Hún fer um víðan völl í viðtalinu sem má hlusta á á Spotify og öllum helstu hlaðvarpsveitum. Textabrot upp úr þættinum má lesa hér að neðan þar sem hún ræðir um ákvörðunina að opna sig um lífið með OCD á TikTok.
Það var ekki auðvelt að stíga fyrsta skrefið að opna sig um baráttuna við áráttu- og þráhyggjuröskun á samfélagsmiðlum en það var þess virði þegar Sylvía sá hvernig hennar saga hjálpaði öðrum.
„Mér fannst óþægilegt og krefjandi að tala um þetta […] En ég hugsaði að það væru krakkar og fólk sem væri að glíma við það sama og liði eins og þau væru ein. Að þau væru að berjast við hausinn á sér, berjast við OCD og vita ekkert hvað er í gangi,“ segir hún.
Sylvía hugsaði hvað hún hefði þurft á því að halda, sautján ára gömul, að sjá einhvern tala opinskátt um þetta, en hún þurfti sjálf að leita sér upplýsinga á ensku á Google.
„Ég fór og henti skömminni í ruslið. Ég hef alltaf skammast mín, skömmin hefur alltaf verið til staðar,“ segir Sylvía sem ákvað að það væri mikilvægara að tala um þetta en að leyfa skömminni að vinna. Hún birti fyrsta myndbandið í sumar og boltinn fór fljótlega að rúlla.
@silly_ocd Persónulegt spjall frá manneskju sem er greind með OCD (Áráttu og þráhyggjuröskun) 💕Stórt knús á ykkur sem eru greind með OCD sendi ykkur allar mínar baráttukveðjur og ég skil hversu ólýsanlega erfitt þetta er💕 #ocd #ocdawareness #ocdísland #íslenskt ♬ original sound – silly_ocd
Hún hugsaði að ef hún gæti hjálpað einni manneskju þá væri það þess virði. Hún hefur nú fengið skilaboð frá fullt af fólki sem er að berjast við það sama. „Og ég er þakklát fyrir að þau vilji segja mér sína sögu, því ég er að gera þetta fyrir þau,“ segir Sylvía.
@silly_ocd 💔Raunveruleg OCD barátta VS Staðalímyndin af OCD💔 #ocd #ocdawareness #ocdísland #íslenskt ♬ Last Hope (Over Slowed + Reverb) – Steve Ralph
Það kom henni líka á óvart hvað hún fékk mikinn stuðning, jákvæð skilaboð og athugasemdir. Hún segir að það hafi ekki bara skipt hana máli að fá jákvæð viðbrögð, heldur hjálpi það líka fólki sem er að glíma við það sama, sem sér myndböndin hennar og sér fallegu orðin.
@silly_ocd Ég að gefa gjöf með OCD…💔 #ocd ##ocdawareness#ocdísland #íslenskt #andlegheilsa ♬ original sound – silly_ocd
Fylgdu Sylvíu á TikTok. Hún er dugleg að birta myndbönd um lífið með OCD.
Sylvía ræðir um sína baráttu í þættinum, sem má hlusta á á Spotify og öllum helstu hlaðvarpsveitum.
Einnig er hægt að lesa meira um sögu Sylvíu hér: Sylvía Rún um baráttuna við OCD:„Ég fór úr því að vera fúnkerandi yfir í að vera fárveik“