
Körfuboltakonan Sylvía Rún Hálfdanardóttir greindist með áráttu- og þráhyggjuröskun (OCD) þegar hún var sautján ára gömul. Hún var fárveik um tíma og þurfti að leggja skóna á hilluna til að einbeita sér að bata. Í dag er hún á góðum stað og er með ýmis tæki og tól til þess að glíma við röskunina.
Sylvía er gestur vikunnar í Fókus, viðtalsþætti DV. Hún fer um víðan völl í viðtalinu sem má hlusta á Spotify og öllum helstu hlaðvarpsveitum. Textabrot upp úr þættinum má lesa hér að neðan.
Af vef Heilsuveru:
Áráttu-og þráhyggjuröskun (e. obsessive-compulsive disorder, OCD) er algeng kvíðaröskun sem einkennist af endurteknum hugsunum eða ímyndum (þráhyggju) sem valda vanlíðan og endurtekinni hegðun (áráttu) sem ætlað er að minnka óþægindin eða fyrirbyggja skaða.
Birtingarmynd OCD á samfélagsmiðlum er oft allt öðruvísi en raunveruleikinn. Það fer því í taugarnar á Sylvíu þegar fólk greinir sig sjálft með OCD á samfélagsmiðlum því það vilji hafa snyrtilegt í kringum sig, hlutina í beinni röð og lætur eins og þetta sé einhver krúttlegur ávani. Hún segir að þetta geti verið skaðlegt fyrir þá sem raunverulega þjást af röskuninni og orðið til þess að fólk vanmeti röskunina og alvarleika hennar. Hún þurfti að berjast fyrir lífi sínu þegar hún var sem veikust og myndi ekki óska neinum að ganga í gegnum þetta.
„Mér finnst mikilvægt að minna okkur á hvað þetta er og að fólk viti hvað þetta er. Þetta er ekki eitthvað eitt klippt og skorið að manneskja vill hafa hreint í kringum sig, sem er ekki ég. Það er eitt af því sem var sagt við mig, að ég gæti ekki verið með OCD því það var drasl í herberginu mínu, eða því ég væri ekki að raða hlutum,“ segir Sylvía og bætir við að skaðsemin liggi einnig í því að þetta gefi fólk ranga hugmynd um hvað OCD er og getur þá verið erfiðara fyrir fólk að átta sig á hvað er að hrjá það og leita sér viðeigandi aðstoðar.
Sylvía ræðir þetta nánar í þættinum, sem má hlusta á hér, en hún heldur einnig úti TikTok-síðu, @Silly_OCD, þar sem hún ræðir hreinskilið og hispurslaust um röskunina, sína upplifun og bata. Í einu myndbandinu sýnir hún muninn á því hvað fólk heldur að sé OCD og hvað það er í raun og veru.
@silly_ocd 💔Raunveruleg OCD barátta VS Staðalímyndin af OCD💔 #ocd #ocdawareness #ocdísland #íslenskt ♬ Last Hope (Over Slowed + Reverb) – Steve Ralph
Sylvía ræðir um sína baráttu í þættinum, sem má hlusta á Spotify og öllum helstu hlaðvarpsveitum.
Einnig hægt að lesa meira um sögu Sylvíu hér: Sylvía Rún um baráttuna við OCD:„Ég fór úr því að vera fúnkerandi yfir í að vera fárveik“