Einn af fastagestum Mávsins, félagsmiðstöð fyrir unga karlmenn í Vestmannaeyjum, ákvað að hefja hópfjármögnun fyrir sófa úr þrotabúi Play til að hafa þar. Kaupin voru fjármögnuð á innan við einum degi.
Skömmu eftir fall flugfélagsins Play þá var greint frá því að innanstokksmunir væru til sölu hjá Efnisveitunni. Meðal gripanna var forlátur hornsófi, vitaskuld eldrauður á litinn. Þennan sófa girntust Eyjamenn.
„Mávurinn er félagsmiðstöð fyrir unga karlmenn í Vestmannaeyjum sem var opnuð haustið 2021 og fagnar því 4. ára afmæli í október. Eigandi Mávsins Almar Benedikt Hjarðar, stuðningsfulltrúi, átti á dögunum pantað flug með Play til Barcelona sem ekkert varð úr,“ segir Baldur Haraldsson, 28 ára tölvunarfræðingur og fastagestur í Mávinum á síðunni Karolina Fund þar sem hann stofnaði fjáröflun fyrir sófanum. „Þess vegna hafa starfsmenn og velunnarar Mávsins brugðið á það ráð að uppfæra sófakost staðarins sem er orðinn ansi lúinn.“
Sófinn var ekki ódýr. Hann kostaði um 400 þúsund krónur. Það tók hins vegar innan við sólarhring að ná því takmarki og gott betur. Hafa 36 manns stutt verkefnið fyrir samanlagt rúmlega 500 þúsund.