Eins og greint var frá í fjölmiðlum um allan heim lést leikkonan heimsfræga Diane Keaton í gær. Keaton var orðin 79 ára en fjölskylda hennar stóð dyggan vörð um einkalíf hennar síðustu mánuðina sem hún lifði. Sumir nánustu vina Keaton vissu ekki að hún væri orðin svona heilsuveil og því kom dauði hennar þeim algerlega í opna skjöldu.
Fjölmiðillinn People greinir frá þessu og ræðir við vin leikkonunnar sem segir að henni hafi hrakað hratt og það sé þeim mun sárara þar sem Keaton hafi alla tíð verið full af lífsþrótti.
Síðustu mánuðina hafði Keaton að mestu leyti eingöngu samskipti við fjölskyldu sína. Vinir hennar til áratuga vissu til að mynda ekki að heilsa hennar væri orðin svona slæm.
Það þótti koma mjög á óvart þegar Keaton setti glæsihýsi sitt í Los Angeles á sölu í mars síðastliðnum en húsið, sem í eru fimm svefnherbergi og sjö baðherbergi, hafði hún kallað draumaheimili sitt og eytt átta árum í að láta að gera endurbætur á því.
Húsið er í hverfi í borginni sem heitir Brentwood en þar býr að mestu leyti mjög vel stætt fólk. Keaton sást daglega á gangi um hverfið með hundinn sinn. Hún lét ekki mikið fyrir sér fara en tók oftast vel í ef fólk gaf sig á tal við hana. Þetta breyttist hins vegar fyrir nokkrum mánuðum og ekkert hafði sést til Keaton á svæðinu síðan þá. Dánarorsök hefur ekki verið opinberuð.