Íbúar og ferðamenn á götum Parísar fengu aldeilis góða skemmtun og minningu til að taka með heim þegar þrjár ungar konur opnuðu svaladyr sínar og hófu að syngja.
Það sem tók við er eitt flottasta Flash Mob sem undirrituð hefur séð, þar sem yfir 30 listamenn flytja lag Queen, Bohemian Rhapsody. Lagið, sem samið er af Freddie Mercury söngvara sveitarinnar, þótti sérstakt þegar það kom fyrst út og allt of langt fyrir útvarpsspilun, en í dag er lagið talið með bestu rokklögum allra tíma og jafnan nefnt sem einkennisleg sveitarinnar.
Píanóleikarinn Julien Cohen deildi myndbandinu á samfélagsmiðla, en í því má auk hans meðal annars hlýða á aðalsöngvarann Mickey Callisto, sem einhverjir hafa nefnt sem hinn nýja Mercury, og hinn 11 ára gamla Olly Pearson, sem sló rækilega í gegn í síðustu þáttaröð Britain´s Got Talent. Pearson fékk tvo gullhnappa, sem sendu hann beint í úrslit, og endaði hann að lokum í 4. sæti.
View this post on Instagram