Allt fór af hjörunum í samfélagi áhrifavalda í gærkvöldi þegar Enok V. Jónsson virtist gera lítið úr barnsmóður sinni, Birgittu Líf Björnsdóttur með kuldalegri athugasemd á samfélagsmiðlunum
Eins og alþjóð veit voru Enok og Birgitta par í rúm þrjú ár og eignuðust saman son. Þau greindu frá því að sambandi þeirra væri lokið í apríl á þessu ári.
Birgitta Líf nýtur nú lífsins í Cannes, hjarta frönsku ríveríunnar, ásamt vinkoum sínum í LXS en þar halda þær upp á 5 ára afmæli hópsins. Vinkonurnar eru ekki vinsælasti áhrifavaldahópur landsins fyrir ekki neitt og því rignir inn myndum og myndskeiðum á helstu samfélagsmiðla.
Á Tiktok-reikningi Ástrósar Traustadóttur birtist myndband þar sem Birgitta Líf gengur geislandi fram við undirleik lagsins Let me love you með Ariana Grande sem gefur í skyn að hún horfi björtum augum til framtíðar sem einhleyp móðir.
Eitthvað virðist myndbandið hafa farið fyrir brjóstið á Enok sem birti eftirfarandi athugasemd undir myndbandinu: „Settu franskarnar í pokann“
Lágmenningarlæsir netverjar voru fljótir að átta sig á skotinu en um er að ræða slangur sem notað er til þess að niðurlægja einhvern og koma honum niður á jörðina. Athugasemd Enoks féll í grýttan jarðveg hjá netverjum sem að létu hann heyra það og háværar umræður sköpuðst um málið á hinum ýmsu spjallsíðum, eins og til að mynda Beauty Tips. Þar túlka margir orð sjómannsins Enoks á þá leið að hann sé að segja Birgittu Líf að fá sér almennilega vinnu.
Hér má sjá Tiktok-myndbandið:
@astrostrausta mother 👑 @Birgitta Líf ♬ original sound – lyrics