Hjónin, Eva Laufey Kjaran, markaðs-og upplifunarstjóri Hagkaups, og Haraldur Haraldsson, deildarstjóri Icelandair Cargo, hafa sett einbýlishús sitt við Reynigrund á Akranesi á sölu. Ásett verð er 119 milljónir.
„Við höfum ákveðið að setja fallega heimilið okkar á sölu. Hér höfum við átt dásamleg ár í frábæru hverfi með einstökum nágrönnum. Það er virkilega gott að búa hér og við vonum að nýir eigendur njóti þess eins og við höfum gert,“ skrifar Eva Laufey í færslu á Facebook. Húsið keyptu hjónin árið 2016 fyrir 39,5 milljónir króna
Húsið er 184 fm á einni hæð, þar af bílskúr 42 fm, byggt árið 1978.
Húsið samanstendur af eldhúsi með búri og þvottahúsi inn af, stofu og borðstofu í einu rými þar sem gengið er út á sólpall, forstofuherbergi og þrjú önnur svefnherbergi, gestasnyrtingu, og baðherbergi. Bílskúr með 3ja fasa rafmagni. afstúkuð geymsla með glugga í enda bílskúrs.
Eldhúsið er með þekktari eldhúsum landsins, en þar hefur Eva Laufey bæði eldað og myndað fyrir matreiðslubækur sínar sem eru fjórar talsins og hafa allar komið út hjá Sölku bókaforlagi. Sömuleiðis voru matreiðsluþættir hennar sem sýndir voru á Stöð 2 teknir upp í eldhúsinu.
Nánari upplýsingar um eignina má finna hér.